Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 145. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 739  —  145. mál.




Svar



velferðarráðherra við fyrirspurn Gunnars Braga Sveinssonar um almenn áhrif skipulagsbreytinga á heilbrigðiskerfinu samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2011.

     1.      Hverjar verða mögulegar afleiðingar uppsagna heilbrigðisstarfsfólks á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni þegar horft er til búferlaflutninga innan lands og flutnings heilbrigðisstarfsfólks og fjölskyldna þeirra af landi brott?
    Fjárlög 2011 endurspegla þær aðgerðir sem grípa þarf til í ríkisfjármálum í ljósi erfiðrar fjárhagsstöðu ríkissjóðs. Í þeim felast aðhaldsaðgerðir á öllum sviðum opinbers rekstrar en eru þó ekki umfangsmeiri en í fjölda annarra ríkja sem gengið hafa í gegnum svipaðar aðstæður. Aðgerðirnar eru öllum erfiðar og sársaukafullar og þar er heilbrigðisþjónustan ekki undanskilin.
    Ljóst er að efnahagsþrengingarnar hafa áhrif, meðal annars á mönnun í heilbrigðiskerfinu, og mun velferðarráðuneytið fylgjast með því hvort, og þá hvaða, áhrif það mun hafa á gæði heilbrigðisþjónustunnar og öryggi þjónustunnar um allt land.
    Ekki er talið að lækkun fjárveitinga til heilbrigðisþjónustu muni hafa varanleg áhrif á gæði eða öryggi þjónustunnar en hins vegar má leiða að því líkur að álag á starfsfólk verði í mörgum tilvikum meira en áður.
    Þar sem áætlaður samdráttur er mestur er ljóst að hann getur haft áhrif á atvinnustig í viðkomandi landshluta.

     2.      Hver eru svæðisbundin áhrif þeirra skipulagsbreytinga sem boðaðar eru á heilbrigðiskerfinu í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2011? Óskað er eftir mati á m.a. áhrifum breytinganna á fólksfækkun í landshlutum (eftir kjördæmaskipan sem var við lýði 1959– 1999), á þróun hagvaxtar í sömu landshlutum, á menntastofnanir, á fasteignaverð, á búsetukostnað, á önnur opinber störf í viðkomandi landshlutum o.s.frv.
    Mat á svæðisbundnum áhrifum skipulagsbreytinga er afar vandasamt og umfangsmikið verk sem velferðarráðuneytið hefur ekki ráðist í. Iðnaðarráðuneytið, sem fer með mál er varða svæða- og byggðamál, svæða- og byggðarannsóknir, atvinnuþróun og atvinnuþróunarfélög, gæti mögulega veitt svör við þessari spurningu.
    Bundnar eru vonir við að sú vinna sem fjárlaganefnd Alþingis fól Byggðastofnun, þ.e. að meta samfélagsleg áhrif niðurskurðar í opinberri þjónustu eftir bankahrunið fyrir landið í heild og einnig eftir landshlutum, muni veita svör við framangreindum spurningum þingmannsins. Sú vinna á að ná til fjárlagaáranna 2009–2011.