Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 454. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 744  —  454. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um breytta skattheimtu af lestölvum.

Flm.: Mörður Árnason, Helgi Hjörvar, Margrét Tryggvadóttir,


Sigurður Kári Kristjánsson, Eygló Harðardóttir, Pétur H. Blöndal,
Þráinn Bertelsson, Jónína Rós Guðmundsdóttir,
Sigmundur Ernir Rúnarsson, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.


    Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að hlutast til um breytingu á tollflokkun lestölva með það að markmiði að auka útbreiðslu þeirra, ekki síst í skólum.

Greinargerð.


    Lestölvur eru þegar komnar í notkun á Íslandi, svo sem af gerðunum Amazon Kindle, Sony Reader og Cybook Orizon frá Bookeen. Fyrir síðustu jól kom út fyrsta rafbókin á íslensku og nú í janúar opnaði mennta- og menningarmálaráðherra fyrsta rafbókavefsetur landsins, lestu.is, þar sem á boðstólum eru bæði vef- og rafbækur á íslensku til flettingar í venjulegri tölvu eða niðurhals á lestölvu.
    Ljóst er að þessi tækni gagnast ekki síst skólafólki og mæla höfundar nýrrar skýrslu, um kosti og galla e-bókavæðingar í íslenska skólakerfinu (2010), sem unnin var á vegum menntamálaráðuneytisins, með því að stjórnvöld búi sem best í haginn við útbreiðslu þessarar tækni. Verði ekkert að gert sé „ljóst að Ísland verður eftirbátur á sviði nýtækni í námsefnisgerð og námsefnisdreifingu“. Höfundarnir benda auk menntaraka á sparnað sem hlytist af aukinni notkun rafbóka í skólum landsins, fyrir nemendur og fjölskyldur þeirra, og ekki síður í skólarekstrinum, einkum fyrir ríki og sveitarfélög. Þeir telja einnig að ef vel tekst til megi spara verulegan gjaldeyri.
    Lestölvur – lestæki með rafblaði sem hannað er sérstaklega til að lesa rafbækur – hafa samkvæmt nýlegri ákvörðun tollstjóra tollskrárnúmerið 8543.7001, og eru flokkaðar sem heimilistæki. Þessir gripir bera því 25% vörugjöld auk 7,5% tolls. Engin vörugjöld eru þó lögð á tölvur, sbr. tollflokkinn 8471.3009. Skýringin mun vera sú að hjá tollstjóra virðist að óbreyttu ekki unnt að flokka lestölvuna sem tölvu, þ.e. sjálfvirka gagnavinnsluvél, heldur einungis sem „aflestrartæki“ sem flokka skuli sem heimilistæki.
    Með samþykkt þessarar tillögu yrði ráðherra falið að hlutast til um tollskrárflokkun lestölvanna til að losa þær við áðurnefnt tollskrárnúmer og gefa þeim annað sem engin vörugjöld tengjast. Ráðherra yrði þar með falið að kanna í samráði við tollyfirvöld hvort til slíkrar nýskipanar þarf lagabreytingu, og þá hverja, en beita ella ráðherravaldi sínu til umbóta í málinu.
    Flutningsmenn benda á að hægt er að miða við ákveðinn tíma ef tekin yrði upp sú skipan sem hér er lögð til, þannig að tollskrárnúmeri þessara gripa yrði breytt aftur þegar útbreiðsla þeirra er orðin almenn. Fordæmi fyrir aðgerðum af þessu tagi eru fjölmörg. Nægir að minna á að hröð tölvuvæðing hérlendis er m.a. að þakka þeirri framsýni stjórnvalda að hafa í upphafi tölvualdar í atvinnulífi og á heimilum, frá 1983 til 1987, fellt niður söluskatt og aðflutningsgjöld á tölvum og tölvubúnaði.
    Rétt er að geta þess að tillaga þessi tengist frumvarpi sem flutningsmenn leggja fram samhliða um að hlutfall virðisaukaskatts á rafbækur, vefbækur o.fl. verði hið sama og á prentbækur og hljóðbækur.