Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 493. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 799  —  493. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um eflingu skapandi greina.

Frá menntamálanefnd.


    Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að koma á formlegum samstarfsvettvangi með aðild fulltrúa allra stjórnmálaflokka, iðnaðarráðuneytis og fulltrúa skapandi greina sem hafi það hlutverk að ræða starfsumhverfi skapandi greina á Íslandi og móta tillögur um hvernig megi styrkja stöðu þeirra í íslensku atvinnulífi. Lagt verði mat á hvernig opinber stuðningur nýtist skapandi greinum, forsendur úthlutunar og eftirlit með ráðstöfun fjárveitinga.
    Sérstaklega verði leitað leiða til að bæta rekstrarskilyrði skapandi greina á Íslandi, fjölga menntaúrræðum og störfum auk þess að ýta undir nýsköpun innan skapandi greina.
    Niðurstöðum verði skilað til Alþingis fyrir 1. október 2011.

Greinargerð.


    Bráðabirgðaniðurstöður nýrrar rannsóknar á hagrænum áhrifum skapandi greina á Íslandi gefa ótvírætt til kynna að þær séu burðug og vaxandi stoð í íslensku atvinnulífi. Samráðsvettvangur skapandi greina átti frumkvæði að rannsókninni sem er sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. Rannsóknina unnu Colin Mercer, sérfræðingur, Tómas Young, rannsakandi, og dr. Margrét Sigrún Sigurðardóttir, lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar skapandi greina. Rannsóknin hefur leitt í ljós að heildarvelta skapandi greina nam 191 milljarði kr. árið 2009, þar af var virðisaukaskattsskyld velta 165 milljarðar kr. og ársverk alls um 9.400 á því ári. Það svarar til tæplega 6% af heildarfjölda á vinnumarkaði. (Velta skapandi greina er umtalsvert meiri en samanlögð velta í landbúnaði og fiskveiðum, nokkru hærri en í byggingariðnaði og litlu minni en í málmframleiðslu.)
    Í framhaldi af þessum niðurstöðum hefur iðnaðarráðuneytið ákveðið að leggja 4 millj. kr. í framhaldsrannsókn sem beinist fyrst og fremst að því hvernig stoðkerfi atvinnulífsins geti komið til móts við þarfir skapandi greina með sem árangursríkustum hætti. Þá verður áhersla lögð á skapandi greinar og hugverkageirann við úthlutanir atvinnuþróunarstyrkja.
    Auk þess skipaði mennta- og menningarmálaráðherra starfshóp með það verkefni að meta hvernig hægt væri að bæta starfsumhverfi skapandi greina og nýta þau tækifæri sem til eru, efla rannsóknir, menntun og stefnumótun og styðja við útflutningsstarfsemi. Er hópurinn skipaður fulltrúum samráðsvettvangs skapandi greina, efnahags- og viðskiptaráðuneytis, fjármálaráðuneytis, iðnaðarráðuneytis, Íslandsstofu, mennta- og menningarmálaráðuneytis og utanríkisráðuneytis og hóf hann störf í janúar sl. Er hópnum ætlað að skila mennta- og menningarmálaráðherra tillögum um aðgerðir og úrbætur eftir því sem starfi hans vindur fram en lokaskýrsla með aðgerðaáætlun skal liggja fyrir eigi síðar en 1. apríl 2011.
    Frekari efling skapandi greina er samráðsverkefni sem spannar nokkrar atvinnugreinar og verksvið ráðuneyta og eitt af verkefnum samstarfsvettvangsins yrði að tryggja samráð og samstarf við eftirfylgni og framkvæmd stefnumörkunar.

Hvað eru skapandi greinar?
    Í rannsókninni um hagræn áhrif skapandi greina á Íslandi eru skapandi greinar skilgreindar með eftirfarandi hætti: sjónlistir (þ.m.t. arkitektúr, hönnun, myndlist, listhandverk og handverk), sviðslistir (tónleikar, leikhús, dans o.fl.), bækur og útgáfa (bókmenntir, fjölmiðlun, útgáfa, bókasafn, gagnavarsla o.s.frv.), hljóð- og myndmiðlun (sjónvarp, útvarp, kvikmyndir, tónlistarupptökur, auglýsingar og nýmiðlar, þ.m.t. netið, tölvuleikir, samskiptaforrit o.s.frv.), menningararfur (t.d. söfn, byggingar, gagnavörslur, hefðir, venjur, sögur og siðir) og hluti ferðaþjónustu.

Frumkvæði skapandi greina.
    Rannsóknin er unnin að frumkvæði samráðsvettvangs skapandi greina og fjármögnuð af fimm ráðuneytum og Íslandsstofu. Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar (ÚTÓN) hefur haldið utan um framkvæmd rannsóknarinnar fyrir hönd samráðsvettvangs skapandi greina sem auk ÚTÓN samanstendur af Hönnunarmiðstöð Íslands, Kvikmyndamiðstöð Íslands, Leiklistarsambandi Íslands, Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, Icelandic Gaming Industry, Íslenskri tónverkamiðstöð og Bókmenntasjóði. Mennta- og menningarmálaráðuneytið er í forsvari fyrir ráðuneytin en auk þess taka þátt í verkefninu efnahags- og viðskiptaráðuneytið, fjármálaráðuneytið, iðnaðarráðuneytið og utanríkisráðuneytið.

Víðtækt samráð um stefnumótun.
    Ríkisstjórnin hefur ákveðið að skipaður verði starfshópur með fulltrúum fimm ráðuneyta, Íslandsstofu og fulltrúa samráðsvettvangs skapandi greina til að móta tillögur um hvernig megi bæta starfsumhverfi skapandi greina. Með þessari tillögu til þingsályktunar er lagt til að stofnaður verði formlegur samráðsvettvangur með aðild fulltrúa allra stjórnmálaflokka og breiðri þátttöku fulltrúa skapandi greina þar sem rædd verði stefnumótun og tillögur um aðgerðir til að styrkja stöðu skapandi greina á Íslandi. Lagt er til að hinn nýi samráðsvettvangur fái tillögur starfshóps ríkisstjórnarinnar til frekari umræðu og útfærslu. Verkefnið verði m.a. að greina stöðu skapandi greina á Íslandi, meta þörf fyrir breyttar áherslur í opinberum stuðningi við þennan geira atvinnulífsins, leggja mat á forsendur, ráðstöfun og eftirlit með opinberum fjárveitingum til málaflokksins auk þess að leggja fram og útfæra tillögur er stuðlað geti að fjölgun starfa, frekari menntaúrræðum og aukinni nýsköpun innan skapandi greina á Íslandi.