Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 355. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 811  —  355. mál.




Svar



innanríkisráðherra við fyrirspurn Guðmundar Steingrímssonar um póstsamgöngur við afskekktar byggðir.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að áfram verði haldið að keyra póst til afskekktra byggða á Íslandi? Ef svo er, til hvaða ráðstafana hyggst ráðherra grípa til að tryggja póstsamgöngur, í ljósi tíðinda undanfarið um misbrest á póstdreifingu til afskekktra staða?

    Eftirfarandi löggjöf gildir um póstþjónustu:
          lög um póstþjónustu, nr. 19/2002,
          reglugerð um alþjónustu, nr. 364/2003,
          reglur um afgreiðslustaði, nr. 504/2003.
    Sá lagarammi sem settur hefur verið um póstþjónustu, hvað varðar réttindi og skyldur Íslandspósts og þá um leið réttindi og skyldur notenda þjónustunnar á m.a. rót sína að rekja til þeirra tilskipana sem settar hafa verið á vettvangi Evrópusambandsins og íslensk stjórnvöld hafa með EES-samningnum skuldbundið sig til þess að innleiða á grundvelli hans.
    Markmið laga um póstþjónustu er að tryggja hagkvæma og virka póstþjónustu um land allt og að allir landsmenn hafi aðgang að ákveðnum þáttum póstþjónustu, þ.e. svokallaðri alþjónustu. Þá er og kveðið á um að þjónustan eigi að vera á viðráðanlegu verði.
    Innan hugtaksins alþjónusta, er t.d. aðgangur að afgreiðslustað, ýmsar tegundir póstsendinga, svo sem bréf, bögglar upp að 20 kg, ábyrðarsendingar, fjármunasendingar o.s.frv.
    Póst- og fjarskiptastofnun hefur lagt þær kvaðir á Íslandspóst að fyrirtækið sinni alþjónustu um allt land og því til viðbótar fer fyrirtækið með einkarétt ríkisins til dreifingar á pósti upp að 50 g.
    Þá hefur einnig verið lögð sú kvöð á fyrirtækið að 85% af þeim pósti sem póstlagður er sem A-póstur skuli kominn til viðtakanda deginum eftir póstlagningu og er afhendingarhraðinn mældur af óháðum aðila.
    Samkvæmt 21. gr. laga um póstþjónustu skal Póst- og fjarskiptastofnun tryggja að alls staðar á landinu sé alla virka daga borinn út póstur sem fellur undir skilgreiningu á alþjónustu nema kringumstæður eða landfræðilegar aðstæður hindri slíkt.
    Framangreindar meginreglur er vert að hafa í huga og skoða í samhengi þegar fjallað er um þá þjónustu sem Íslandspósti er skylt að veita í hverju einstöku tilfelli.

Nokkrar tölulegar staðreyndir.
    Núna ber Íslandspóstur út póst til 122.204 heimila og tæplega 10.000 fyrirtækja. Af þessum rúmlega 120.000 heimilum fá 157 heimili (0,11%) ekki borinn út póst fimm sinnum í viku heldur tvisvar eða þrisvar sinnum í viku. Ástæður þess eru einkum samgöngur, t.d. ef Íslandspóstur er háður flugsamgöngum til að koma pósti til skila.
    Núna eru 73 afgreiðslustaðir á landinu öllu, þar af 61 afgreiðslustaður fyrir utan höfuðborgarsvæðið og 11 á höfuðborgarsvæðinu. Póst- og fjarskiptastofnun hefur gefið Íslandspósti heimild til að loka alls 12 afgreiðslustöðum á landsbyggðinni. Í þeim tilvikum hefur landpóstur tekið við þeirri þjónustu sem áður var innt af hendi á hefðbundnum afgreiðslustað. Á síðustu 10 árum hefur fjórum afgreiðslustöðum verið lokað á höfuðborgarsvæðinu.

Fimm daga þjónusta.
    Með núgildandi lögum um póstþjónustu, nr. 19/2002, kom það nýmæli að öllum landsmönnum var tryggður réttur til fimm daga þjónustu, nema kringumstæður eða landfræðilegar aðstæður hindruðu það, sbr. 21. gr. laganna. Nánari útfærsla á þessu ákvæði er í 10 gr. reglugerðar um alþjónustu. Eftir að núgildandi lög voru sett fór Íslandspóstur í það átak að breyta landpóstaleiðum sem áður höfðu verið í tveggja eða þriggja daga þjónustu í fimm daga þjónustu. Þeirri vinnu lauk á árinu 2004.
    Íslandspóstur dreifir til um 6.500 heimila (4.850 lögbýli + 1.650 í minni þéttbýliskjörnum) á landinu öllu með landpóstum. Ef miðað er við að þau 157 heimili sem ekki fá fimm daga þjónustu í dag, séu þjónustuð af landpóstum þá eru það 2,42% af heimilum landsins í dreifbýli sem ekki fá fimm daga þjónustu heldur þjónustu tvisvar eða þrisvar í viku.

Staðsetning bréfakassa.
    
Í áratugi hafa bréfakassar í dreifbýli verið staðsettir fjarri íbúðarhúsum, mislangt eftir aðstæðum. Hliðstætt fyrirkomulag er í flestum löndum Evrópu. Með reglugerð nr. 364/2003, um alþjónustu, voru sett ákveðin viðmiðunarmörk sem leggja skal til grundvallar þegar staðsetning bréfakassa er ákveðin, sbr. 16. gr. reglugerðarinnar. Eins og fram hefur komið eru 4.850 lögbýli á landinu sem Íslandspóstur þjónar. Á undanförnum árum hefur verið unnið í því af hálfu Íslandspósts að samræma staðsetningu bréfakassa í dreifbýli þannig að allir fái hliðstæða eða svipaða þjónustu, en nokkur brögð hafa verið að því að staðsetning bréfakassanna hafi ekki verið samræmd.
    Í ljósi þess að 4.850 heimili (lögbýli) fá póst afhentan í bréfakassa sem staðsettur er við heimreið verður ekki séð annað en að núverandi reglur hafi reynst nokkuð vel en sex ágreiningsmál hafa komið til kasta Póst- og fjarskiptastofnunar þar sem reynt hefur á túlkun reglugerðarinnar. Á árinu 2009 voru það mál nr. 4, 6 og 18 og á árinu 2010 mál nr. 31, 32 og 35.
    Rétt er að geta þess að farið er með allar skráðar sendingar heim að bæjum. Það er því einungis hinn almenni póstur sem settur er í bréfakassa.
    Ekki verður séð miðað við samantektina hér að framan að ágreiningur um skilning og túlkun á reglunum sé mikill miðað við þann mikla fjölda heimila sem Íslandspóstur þjónar. Þá verður heldur ekki séð að sá fjöldi sem ekki fær fimm daga þjónustu sé óeðlilegur ef tekið er mið af því hversu dreifbýlt landið er og samgöngur oft erfiðar yfir vetrartímann.
    Með hliðsjón af framangreindum upplýsingum telur ráðuneytið ekki nægar ástæður til, að svo stöddu, að breyta þeirri löggjöf og/eða reglugerðum sem í dag gilda um póstþjónustu hvað varðar dreifingu pósts.