Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 446. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 816  —  446. mál.




Svar



velferðarráðherra við fyrirspurn Sigurðar Inga Jóhannssonar um fækkun hjúkrunarrýma á öldrunarheimilum.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvernig var staðið að framkvæmd fækkunar hjúkrunarrýma á öldrunarheimilum á yfirstandandi fjárlagaári og hvaða viðmið lágu þar til grundvallar? Óskað er eftir sundurliðun eftir stofnunum og skýringum fyrir hverja stofnun.

    Vegna efnahagsþrenginga ríkissjóðs hafa stjórnvöld þurft að minnka umsvif og lækka fjárveitingar sem ætlaðar eru til reksturs öldrunarheimila. Meginforsendur sem lágu til grundvallar fyrir fækkun rýma árið 2011 voru eftirfarandi:
    Í fyrsta lagi voru fjárveitingar vegna ónotaðra öldrunarrýma felldar niður.
    Í öðru lagi var reynt að fækka frekar dvalarrýmum en hjúkrunarrýmum í samræmi við þá stefnu stjórnvalda að auka heimahjúkrun til að hjálpa öldruðum að vera lengur heima og draga þannig úr þörf fyrir dvalarrými.
    Í þriðja lagi var reynt að beina niðurskurði meira að stærri öldrunarheimilum og þá sérstaklega þeim heimilum þar sem unnið er að því að fækka fjölbýlum eða ljóst að ráðast þurfi í slíkar aðgerðir. Talið var að stærri heimilin myndu frekar ráða við niðurskurðinn en smærri öldrunarheimili.
    Í fjórða lagi var öldrunarrýmum fækkað þar sem fjöldi öldrunarrýma var umfram metna þörf á viðkomandi þjónustusvæði.
    Í fimmta lagi var tekið mið af fækkun öldrunarrýma á árunum 2009 og 2010.
    Eftirfarandi tafla sýnir fækkun hjúkrunarrýma eftir öldrunarheimilum og heilbrigðisstofnunum fyrir árið 2011:



Fækkun hjúkrunarrýma

Hjúkrunarrými,
breyting 2010–2011

Hrafnista, Reykjavík
-17
Grund, Reykjavík -6
Hjúkrunarheimilið Skjól -2
Hlévangur, Reykjanesbæ -1
Garðvangur, Garði -1
Hjúkrunarheimilið Lundur, Hellu -1
Naust, Þórshöfn -2
Höfði, Akranesi -2
Barmahlíð, Reykhólum -2
Dalbær, Dalvík -1
Öldrunarstofnun Akureyrar -6
Kumbaravogur, Stokkseyri -1
Hraunbúðir, Vestmannaeyjum -1
Holtsbúð, Garðabæ -1
Heilbrigðisstofnun Suðausturlands -4
Heilbrigðisstofnun Vesturlands
Akranesi -4
Hvammstanga -1
Heilbrigðisstofnunin, Blönduósi -5
Heilbrigðisstofnunin, Sauðárkróki
Heilbrigðisstofnunin Fjallabyggð
Siglufirði -7
Heilbrigðisstofnun Þingeyinga -5
Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja -6
Fækkun samtals -76
Fjölgun hjúkrunarrýma
Norðurþing, Hvammur, Húsavík 12
Reykjanesbær, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 20
Fjölgun samtals 32
Nettó breyting -44

    Í sumum tilfellum voru fleiri en ein ástæða fyrir fækkun hjúkrunarrýma á öldrunarheimilum, en þær eru í meginatriðum eftirfarandi:
    Fjárveitingar vegna 34 ónotaðra öldrunarrýma voru felldar niður hjá Heilbrigðisstofnun Suðausturlands, Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Heilbrigðisstofnun Blönduóss, Heilbrigðisstofnuninni Sauðárkróki, Heilbrigðisstofnun Fjallabyggðar, Heilbrigðisstofnun Þingeyinga, Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja, Holtsbúð í Garðabæ og Kumbaravogi á Stokkseyri.
    Fækkað var um 25 hjúkrunarrými hjá stærri öldrunarheimilum og þá sérstaklega hjá þeim heimilum þar sem unnið er að því að fækka fjölbýlum. Talið var að stærri heimilin gætu frekar ráðið við niðurskurðinn en smærri öldrunarheimili. Þau heimili sem falla hér undir eru Hrafnista í Reykjavík, Grund í Reykjavík, Öldrunarstofnun Akureyrar og Hjúkrunarheimilið Skjól í Reykjavík.
    Hjúkrunarrýmum var fækkað um 15 á þeim hjúkrunarheimilum þar sem fjöldi hjúkrunarrýma var umfram metna þörf á viðkomandi þjónustusvæði. Metin þörf er heildarfjöldi aldraðra á hjúkrunarheimilum og á biðlistum, reiknaður sem hlutfall af heildarfjölda aldraðra á landinu. Hlutfallið er síðan heimfært á upptökusvæði öldrunarheimila og sýnir á jafnréttisgrundvelli hvar fjöldi hjúkrunarrýma er umfram reiknað viðmið og hvar skortur er á hjúkrunarrýmum. Þau heimili sem falla hér undir eru Hjúkrunarheimilið Lundur á Hellu, Naust á Þórshöfn, Höfði á Akranesi, Barmahlíð á Reykhólum, Öldrunarstofnun Akureyrar og Dalbær á Dalvík.
    Fjölgað var um 32 hjúkrunarrými á tveimur stöðum á landinu þar sem skortur á hjúkrunarrýmum er mestur. Á Suðurnesjum var fjölgað um 20 hjúkrunarrými og um 12 hjúkrunarrými í Norðurþingi, en þar var 12 dvalarrýmum breytt í 12 hjúkrunarrými.
    Fækkun hjúkrunarrýma á Hlévangi í Reykjanesbæ og Garðvangi í Garði var endurmetin þar sem metin þörf er mun meiri en fjöldi hjúkrunarrýma á svæðinu. Hlévangur og Garðvangur fá tvö af þeim 20 hjúkrunarrýmum sem fjölgað var um á Suðurnesjum.