Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 424. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 867  —  424. mál.




Svar



velferðarráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur um bólusetningu við svínaflensu.

     1.      Hvað keypti landlæknisembættið marga skammta af bólusetningarefni því sem notað er til að stemma stigu við svínaflensu? Hver var kostnaðurinn við kaupin? Af hverjum var efnið keypt?
    27. júlí 2009 fór heilbrigðisráðherra þess formlega á leit við sóttvarnalækni að keyptir yrðu 300.000 skammtar af inflúensubóluefninu Pandemrix® frá GSK. Fjöldi skammta var ákveðinn í ljósi þess að þá var gert ráð fyrir að bólusetja þyrfti hvern einstakling tvisvar til að fá fullnægjandi vörn en reyndin varð sú að ein bólusetning dugði í flestum tilfellum. Þetta leiddi til þess að unnt var að bólusetja mun fleiri og hraðar gegn svínainflúensunni en upphaflega var gert ráð fyrir. Kostnaður vegna kaupa á bóluefnunum nam 381 millj. kr. miðað við þáverandi gengi.

     2.      Hvað réð því hversu mikið var keypt af bólusetningarefninu? Hvað eru margir skammtar af efninu eftir á lager og hvert er virði lagersins? Hvenær rennur efnið út?
    Það var mat sóttvarnalæknis að framleiðsla bóluefnis gegn nýjum stofni inflúensu gæti tekið þrjá til sex mánuði frá upphafi heimsfaraldurs inflúensu þar til að afhendingu kæmi. Búast mátti við að faraldurinn hefði borist til landsins þegar til afhendingar efnisins kæmi og því var mælt með að keypt yrði bóluefni fyrir helming landsmanna miðað við að bólusetja þyrfti hvern mann tvisvar.
    Heimsfaraldrar inflúensu ganga í bylgjum. Hefði allt bóluefni verið uppurið miðað við að hver maður hefði verið bólusettur tvisvar hefði þurft að panta fleiri skammta bóluefnis fyrir veturinn 2010–2011. Vakin er athygli á því að önnur bylgja svínainflúensunnar barst til landsins í lok desember 2010. Á lager eru um 150.000 skammtar. Fólk sem ekki var bólusett í fyrravetur hefur verið hvatt til að láta bólusetja sig. Það er því enn of snemmt að fullyrða hve mikið af bóluefninu verður á endanum eftir á lager og hvers virði hann verður þá. Hver bóluefnisskammtur kostar 7 evrur.
    Hluti bóluefnisins (mótefnavaki) rennur út 31. október 2011 en annar hluti þess (ónæmisglæðir) 31. október 2012.

     3.      Hvað hafa margir verið bólusettir með efninu?
    Í janúar 2011 höfðu 150.289 einstaklingar verið fullbólusettir.

     4.      Hvernig er aldurshlutfallið hjá þeim sem hafa verið bólusettir:
                  a.      0–18 ára,
                  b.      19–67 ára,
                  c.      68 ára og eldri?

    0–18 ára: 40.875 einstaklingar bólusettir af 85.318 alls eða 48%.
    10–67 ára: 89.238 einstaklingar bólusettir af 201.496 alls eða 44%.
    68 ára og eldri: 20.176 einstaklingar bólusettir af 30.816 alls eða 66%.

     5.      Hvað hafa komið upp mörg mál hjá heilbrigðisyfirvöldum um alvarleg eftirköst eftir bólusetningu?
    Vitað er um tvö tilfelli sem flokkast sem alvarleg en þau tengdust bráðaofnæmi fyrir bóluefninu. Báðum einstaklingum farnaðist vel. Eftirköst eftir bólusetningu gegn svínainflúensu eru sambærileg við það sem sést eftir aðrar bólusetningar hér á landi.

     6.      Hvað hafa margir veikst af svínaflensu hér á landi í samanburði við venjulega inflúensu?
    Komuhlutfall þeirra sem leituðu til heilsugæslustöðva vegna svínainflúensu var fjórum til fimm sinnum hærra en við venjulega árstíðabundna inflúensu. Talið er að um 60.000 manns hafi veikst af svínainflúensu. Mikilvægt er að hafa í huga að svínainflúensan leggst fyrst og fremst þungt á ungt fólk (<60 ára) en árstíðabundna inflúensan leggst fyrst og fremst þungt á gamalt fólk.
    Um 170 manns voru lagðir inn á sjúkrahús með staðfesta svínainflúensu haustið 2009. Af þeim þurftu 22 að leggjast inn á gjörgæsludeild og lágu margir þar í öndunarvélum vikum saman. Álag á gjörgæsludeild Landspítalans var gríðarlegt. Jafnframt er talið að bólusetningin haustið 2009 hafi komið í veg fyrir um 15–20.000 tilfelli af svínainflúensu, 60–80 sjúkrahúsinnlagnir og 6–8 tilfelli á gjörgæslu, en bóluefnið hefur um 90% virkni.
    Önnur bylgja svínainflúensunnar er að sækja í sig veðrið um þessar mundir. Þegar hefur ung kona um þrítugt, sem ekki hefur verið bólusett, verið lögð inn á gjörgæsludeild Landspítalans til meðferðar í öndunarvél. Vonir standa til þess að hinar umfangsmiklu bólusetningar haldi aftur af þessari bylgju inflúensunnar.