Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 188. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 881  —  188. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 42/1983, um Landsvirkjun, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og skattanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hafstein S. Hafsteinsson frá fjármálaráðuneyti, Ingva Má Pálsson frá iðnaðarráðuneyti, Kristján Gunnarsson og Jón Sveinsson frá Landsvirkjun, Gústaf Adolf Skúlason frá Samorku og Svein Arason og Lárus Ögmundsson frá Ríkisendurskoðun, Pál Gunnar Pálsson og Snorra Stefánsson frá Samkeppniseftirlitinu, Sigríði Logadóttur og Sigurð G. Thoroddsen frá Seðlabanka Íslands og Tryggva Þórhallsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá Landsvirkjun, Ríkisendurskoðun, Samkeppniseftirlitinu, Samorku og Seðlabanka Íslands.
    Frumvarpið er lagt fram í kjölfar athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) við núverandi fyrirkomulag eigendaábyrgða Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur, sbr. ákvörðun, dags. 8. júlí 2009. Frumvarpið er lagt fram samhliða frumvarpi til laga um breytingu á lögum um ríkisábyrgðir (þskj. 204, 187. mál) og frumvarpi til laga um breytingu á lögum um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur (þskj. 222, 205. mál), sbr. nú lög nr. 144/ 2010.
    Í frumvarpinu er lagt til að eigendaábyrgð ríkisins sem leiðir af lögbundnu rekstrarformi Landsvirkjunar verði ekki lengur ótakmörkuð heldur verði ábyrgðin takmörkuð í skilningi laga um gjaldþrotaskipti. Þá er lagt til að nýjar lántökur sem ætlað er að njóta ríkisábyrgðar verði háðar samþykki fjármálaráðherra og greiðslu hæfilegs ríkisábyrgðargjalds. Lagt er til að ríkisábyrgð vegna annarra skuldbindinga en lánaskuldbindinga sem stofnað hefur verið til fyrir gildistöku frumvarpsins falli niður.
    Spurningar komu fram um hvort hægt væri að reka fyrirtækið áfram í búningi sameignarfyrirtækis eftir samþykkt frumvarpsins og hvaða áhrif óvissa um félagagrundvöllinn hefði á samkeppnisaðila og viðsemjendur þess. Fram kemur í umsögn Landsvirkjunar að með frumvarpinu verði öll helstu einkenni fyrirtækisins sem sameignarfélags afnumin og að tilefni sé til að íhuga hvort eðlilegra sé að breyta félagaformi fyrirtækisins í hlutafélag. Fjármálaráðuneytið telur að sú aðgerð hefði verið viðurhlutameiri og telur að ákvæði laga um sameignarfélög muni gilda um starfsemi félagsins þar sem sérlögum um Landsvirkjun sleppi.
    Ríkisendurskoðun telur að huga þurfi að viðeigandi heimild í fjárlögum ár hvert til handa fjármálaráðherra til að samþykkja ef á reyndi ábyrgð skv. 2. gr. frumvarpsins. Vísar nefndin í því sambandi til 26. gr. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, þar sem m.a. kemur fram að í frumvarpi til fjárlaga skuli leitað heimilda til lántöku, lánveitinga og ríkisábyrgða á fjárlagaárinu.
         Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



    4. gr. orðist svo:
    Lög þessi öðlast þegar gildi.

    Þór Saari gerir fyrirvara við álitið.
    Lilja Rafney Magnúsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 21. febr. 2011.



Helgi Hjörvar,


form., frsm.


Tryggvi Þór Herbertsson.


Álfheiður Ingadóttir.



Magnús Orri Schram.


Birkir Jón Jónsson.


Pétur H. Blöndal.



Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.


Þór Saari,


með fyrirvara.