Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 472. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 893  —  472. mál.




Svar



innanríkisráðherra við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur um dýpkun Landeyjahafnar.

     1.      Hvenær getur dýpkunarskip Íslenska gámafélagsins hafið vinnu við dýpkun Landeyjahafnar?
    Dýpkunarskip Íslenska gámafélagsins kom til landsins 10. febrúar 2011 og hóf dýpkun um leið og færi gafst eða 16. febrúar. Síðan hefur sjólag verið erfitt og ekki hægt um vik með dýpkun.

     2.      Hvernig hefur verið staðið að undirbúningi að kaupum á plógi í samvinnu við Vestmannaeyjabæ og hvenær má vænta þess að byrjað verði að nota plóginn?
    Kaup á plógi eru í undirbúningi og er meðal annars verið að meta hvaða breytingar þarf að gera á Lóðsinum frá Vestmannaeyjum sem gert er ráð fyrir að dragi hann. Jafnframt er verið að meta breytingar á sandburði en hann hefur minnkað verulega frá því sem hefur verið undanfarið. Hugsanlega verður ekki þörf fyrir plóginn.

     3.      Hvernig hefur verið staðið að undirbúningi framkvæmda á varnargarði við ósa Markarfljóts og hvenær er gert ráð fyrir að framkvæmdirnar hefjist?
    Framkvæmdaleyfi fékkst fyrir varnargarðinn um miðjan desember 2010. Framkvæmdir hófust í byrjun janúar og er gert ráð fyrir að þeim ljúki um mánaðarmótin febrúar mars 2011.

     4.      Er undirbúningur að kaupum á sjálfvirkum dælubúnaði fyrir Landeyjahöfn hafinn og hvenær má vænta þess búnaðurinn verði tekinn í notkun?
    Verið er að meta breytingar á sandburði í og við Landeyjahöfn. Hann hefur minnkað mikið og líklega má það rekja til þess að sandströndin er að jafna sig eftir þann mikla framburð sem kom með gosinu í Eyjafjallajökli. Sandburður verður þá mun minni en undafarið og nær þeim áætlunum sem gerðar voru upphaflega. Fari svo þarf að endurmeta þörf á þessum dælubúnað.