Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 468. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 897  —  468. mál.




Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Sigurðar Inga Jóhanssonar um ESB-viðræður.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvernig var háttað svörum við spurningum samninganefndar ESB til landbúnaðarhóps samninganefndar Íslands sem farið var yfir á svokölluðum rýnifundum dagana 17.–20. janúar sl.?
     2.      Er það rétt að sumum spurningunum hafi verið svarað munnlega en ekki skriflega eins og nær öllum öðrum spurningum samninganefndar ESB? Ef svo er, af hverju var sá háttur hafður á? Hvernig hljóðuðu þau munnlegu svör?


    Einstök aðildarlönd ESB, sem mynda samningahóp sambandsins þegar kemur til samningaviðræðna, koma ekki að rýnivinnunni, sem er andlag spurningar hæstvirts þingmanns. Það er því misskilningur að landbúnaðarhópur samninganefndar Íslands hafi hitt samninganefnd ESB, eða átt við hana samskipti, á rýnifundum 24.–27. janúar sl. Rýnifundirnir, og rýnivinnan öll, er gagnvart framkvæmdastjórninni einni og framangreindir fundir voru með sérfræðingum og embættismönnum hennar.
    Rýnivinnan fer að mestu leyti fram á tveimur fundum. Undirstrika ber, að rýnifundirnir eru einungis tæknilegs eðlis, og til að undirbúa eiginlega samninga en eru ekki samningafundir. Í upphafi rýnifundanna var það skýrt tekið fram og ítrekað síðar á fundunum. Á fyrri fundinum um landbúnaðarmál útskýrðu sérfræðingar framkvæmdastjórnar ESB landbúnaðarlöggjöf sambandsins og skýrðu sérstaklega álitaefni sem fram komu í íslenskum augum. Á þeim síðari fóru sérfræðingar Íslands rækilega yfir íslenska landbúnaðarkerfið og skýrðu aðstæður hér á landi, auk þess að draga skýrt fram þá þætti sem Íslendingar telja að þurfi um að ræða í íhöndfarandi samningaviðræðum. Hið síðasttalda er hin eiginlega „flöggun“ álitaefna.
    Til að auðvelda vinnu og einfalda yfirferð við landbúnaðarkaflann, sem er einna flóknastur af þeim viðfangsefnum sem undir eru, sendi framkvæmdastjórnin íslenskum stjórnvöldum í lok fyrri rýnifundar, líkt og varðandi aðra samningskafla, leiðbeiningar um spurningar og atriði sem hún taldi æskilegt að yrðu tekin til umræðu á síðari fundinum. Tilgangurinn var að stuðla að því að sem ítarlegust og skýrust mynd lægi fyrir í lok rýnivinnunar.
    Upplýsingarnar voru að mestu leyti teknar saman af fagráðuneytinu, undirstofnunum og sérfróðum hagsmunaaðilum en það ráðuneyti sem er ábyrgt fyrir aðildarviðræðunum samræmdi framsetningu og kom á framfæri einsog í öðrum tilvikum. Sú leið var farin, m.a. með tilliti til hagsmuna sem tengjast sjálfum samningaviðræðunum, að senda einungis með óformlegum hætti bakgrunnsupplýsingar sem vörðuðu tölfræði eða beinar lýsingar á íslenska landbúnaðarkerfinu. Aðrir þættir, sem vörðuðu undirbúning og/eða áætlanir um framkvæmd löggjafar á sviði landbúnaðarmála, voru aðeins reifaðir munnlega á grundvelli þeirra fjögurra greinargerða sem unnar voru af hálfu íslenska landbúnaðarhópsins, og haft að ströngu leiðarljósi það umboð sem hópurinn hafði frá Alþingi og ríkisstjórn. Þannig var mjög skýrt komið á framfæri af Íslands hálfu að meginstefnan væri sú að stjórnsýslu- eða lagabreytingar yrðu ekki framkvæmdar nema fyrir lægi að þjóðin hefði goldið aðildarsamningi jáyrði í þjóðaratkvæðagreiðslu. Tíminn þangað til yrði nýttur til kortlagningar, gerð vinnuáætlana og annars undirbúnings sem miðaði að því að hrinda nauðsynlegum breytingum í framkvæmd í tæka tíð eftir að þjóðin hefði gert uppskátt um vilja sinn til aðildar.
    Í anda þess gagnsæis sem utanríkisráðherra kappkostar að viðhafa um aðildarvinnuna má benda hæstvirtum fyrirspyrjanda á að umræddum fundi var varpað til Íslands þar sem þeim fulltrúum í samningahópi um landbúnaðarmál sem ekki voru viðstaddir, þar á meðal fulltrúa hagsmunasamtaka, gafst tækifæri til að fylgjast vendilega með öllu sem fram fór á fundinum. Sama viðhorf liggur til grundvallar því að 27. janúar sl. birti utanríkisráðuneytið á heimasíðu sinni yfirlýsingu sem formaður sendinefndar flutti munnlega á fundinum, að ógleymdum greinargerðunum fjórum, auk þess sem þær glærukynningar sem þar voru fluttar, ásamt öðru efni sem miðlað var, hafa verið birtar á heimasíðu utanríkisráðuneytisins.