Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 340. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 908  —  340. mál.




Svar



velferðarráðherra við fyrirspurn Gunnars Braga Sveinssonar um fyrirmynd breytinga á heilbrigðiskerfinu.

     1.      Hver er fyrirmynd þeirra breytinga sem boðaðar eru á heilbrigðiskerfinu í fjárlagafrumvarpinu þar sem gert er ráð fyrir að nýtt kerfi byggist á svokölluðum heilsugæslusjúkrahúsum og háskólasjúkrahúsum?
    Í lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, er kveðið á um skipulag heilbrigðisþjónustu hér á landi. Henni er í aðalatriðum skipt í almenna og sérhæfða heilbrigðisþjónustu. Landinu er skipt í heilbrigðisumdæmi samkvæmt reglugerð nr. 785/2007. Fyrirmyndin er ekki sótt til einhvers eins ákveðins ríkis en þetta skipulag sem byggist annars vegar á stigskiptingu heilbrigðisþjónustu eftir sérhæfingu og hins vegar á svæðaskiptingu er það sem almennt er við lýði á Vesturlöndum og hefur lengi verið. Í frumvarpi til fjárlaga 2011 er ekki gert ráð fyrir breytingum á þessu skipulagi.
    Í skipulagi sem þessu eru háskólasjúkrahús að jafnaði þær stofnanir sem búa yfir mestri sérhæfingu eða eins og segir í 10. tölul. 4. gr. laga nr. 40/2007: „Sjúkrahús sem veitir þjónustu í nær öllum viðurkenndum sérgreinum læknisfræði og hjúkrunarfræði, með áherslu á rannsóknir, þróun og kennslu.“ Háskólasjúkrahús eru eðli málsins samkvæmt stórar stofnanir og öflugar. Landspítalinn er eina sjúkrahúsið í þeim flokki hér á landi. Hugtakið heilsugæslusjúkrahús er hvorki skilgreint í lögum né reglugerðum en hefur stundum verið notað óformlega um heilbrigðisstofnanir þar sem heilsugæslulæknar bæði annast heilsugæslu og veita almenna sjúkrahúsþjónustu. Þetta á við um ýmsar hinna smærri heilbrigðisstofnana.
    Ýmis millistig eru til í sérhæfingu sjúkrahúsa. Sjúkrahúsið á Akureyri er skilgreint sem kennslusjúkrahús samkvæmt lögum nr. 40/2007 en það er næsta stig sérhæfingar á eftir háskólasjúkrahúsi. Umdæmissjúkrahús skulu samkvæmt sömu lögum vera í hverju heilbrigðisumdæmi en auk almennrar sjúkrahúsþjónustu veita þau vissa sérhæfða þjónustu, svo sem einfaldar skurðaðgerðir og fæðingarhjálp. Dæmi um slík sjúkrahús eru á Akranesi, Ísafirði, í Neskaupstað og Vestmannaeyjum.

     2.      Hefur reynslan af slíku kerfi verið metin og yfirfærð á Ísland?
    Þetta kerfi hefur þótt gefast vel hér á Íslandi sem annars staðar. Löng reynsla og góð hefur fengist af því að læknar heilsugæslu annist jafnframt sjúklinga á minni sjúkrahúsum.