Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 409. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 909  —  409. mál.




Svar



innanríkisráðherra við fyrirspurn Álfheiðar Ingadóttur um endurupptöku mála sem hafa verið dæmd í Hæstarétti.

     1.      Hvað hafa Hæstarétti borist margar beiðnir árlega frá 1. janúar 2000 um endurupptöku máls sem hefur verið dæmt í Hæstarétti, sbr. heimild í 169. gr. laga um meðferð einkamála?
     2.      Hversu oft hefur endurupptaka máls verið heimiluð ár hvert á framangreindu tímabili?

    Samkvæmt upplýsingum sem ráðuneytið hefur aflað frá Hæstarétti er umbeðnar upplýsingar að finna í meðfylgjandi töflu.

Ár Fjöldi beiðna Fjöldi beiðna sem var hafnað Fjöldi beiðna sem voru samþykktar Fjöldi beiðna sem voru afturkallaðar
2000 4 3 0 1
2001 4 1 1 2
2002 4 4 0 0
2003 3 2 0 1
2004 4 4 0 0
2005 3 3 0 0
2006 6 5 0 1
2007 1 0 1 0
2008 3 3 0 0
2009 31 2 0 0
2010 6 5 1 0
1 Eitt þeirra mála sem barst árið 2009 er enn til meðferðar.


     3.      Hvaða reglur gilda um málsmeðferð umsóknar um endurupptöku og um birtingu niðurstaðna?
    Samkvæmt upplýsingum sem ráðuneytið hefur aflað frá Hæstarétti gilda samkvæmt 3. mgr. 169. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, ákvæði 1.–3. mgr. 168. gr. sömu laga um umsókn og endurupptöku, meðferð umsóknar, ákvörðun um hana og áhrif endurupptöku. Í 1. mgr. 168. gr. kemur fram að beiðni um endurupptöku skuli vera skrifleg og að í henni skuli rökstyðja ítarlega þær ástæður sem þykja standa til endurupptöku og að gögn skuli fylgja umsókninni eftir þörfum. Hæstiréttur getur synjað umsókn þegar í stað ef beiðni er bersýnilega ekki á rökum reist, sbr. 2. mgr. 168. gr. Að öðrum kosti skal Hæstiréttur senda beiðnina og fylgigögn til gagnaðila sem fær þá frest til að skila skriflegri greinargerð um viðhorf sín til endurupptökubeiðninnar. Samkvæmt 3. mgr. 168. gr. ákveður Hæstiréttur hvort af endurupptöku verði. Fallist Hæstiréttur á beiðni skal hann um leið taka afstöðu til þess hvort áhrif fyrri dóms falli niður meðan málið er rekið. Samkvæmt 2. mgr. 169. gr. getur aðili ekki sótt um endurupptöku máls skv. 1. mgr. nema einu sinni. Af þessum sökum beinir Hæstiréttur því jafnan til umsækjenda að rökstyðja umsókn sína betur ef talið er tilefni til.
    Samkvæmt 1. málslið 5. mgr. 7. gr. laga um dómstóla nr. 15/1998 getur Hæstiréttur falið þremur eða fimm dómurum að taka afstöðu til einstakra flokka erinda, svo sem umsókna um áfrýjunarleyfi eða endurupptöku máls. Algengast er að þrír dómarar Hæstaréttar fjalli um beiðnir um endurupptöku máls, en í einstaka tilvikum hafa fleiri dómarar takið þátt í meðferð slíkra erinda. Niðurstaða dómaranna um hvernig afgreiða beri umsókn um endurupptöku er skráð í gerðabók réttarins en umsækjendum og gagnaðilum er sent endurrit af ákvörðuninni í pósti.