Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 544. máls.

Þskj. 914  —  544. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 102/2010
um breytingu á X. viðauka (Almenn þjónusta) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)




    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 102/2010, frá 1. október 2010, um breytingu á X. viðauka (Almenn þjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2009/767/EB frá 16. október 2009 um ráðstafanir sem greiða fyrir notkun rafrænnar málsmeðferðar með upplýsinga- og þjónustumiðstöðvum samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/123/EB um þjónustu á innri markaðnum.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 102/2010, frá 1. október 2010, um breytingu á X. viðauka (Almenn þjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2009/767/EB frá 16. október 2009 um ráðstafanir sem greiða fyrir notkun rafrænnar málsmeðferðar með upplýsinga- og þjónustumiðstöðvum samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/123/EB um þjónustu á innri markaðnum.
    Í tilskipun 2006/123 um þjónustuviðskipti á innri markaðnum (þjónustutilskipuninni) er kveðið á um að þjónustuveitendur eigi að geta sótt rafrænt um leyfi til að stunda starfsemi sína. Ákvörðun 2009/767/EB fjallar um notkun rafrænna undirskrifta í tengslum við þjónustutilskipunina en það eru gögn í rafrænu formi sem fylgja eða tengjast rökrænt öðrum rafrænum gögnum og eru notuð til að sannprófa frá hverjum hin síðarnefndu gögn stafa.
    Í tillögu þessari er gerð grein fyrir efni gerðarinnar sem hér um ræðir, en hún felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur stjórnskipulegur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3. Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2009/767/EB frá 16. október 2009 um ráðstafanir sem greiða fyrir notkun rafrænnar málsmeðferðar með upplýsinga- og þjónustumiðstöðvum samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/123/EB um þjónustu á innri markaðnum.
    Ákvörðun 2009/767 fjallar sem áður segir um notkun rafrænna undirskrifta í tengslum við þjónustutilskipunina. Í ákveðnum tilfellum er leyfisveitanda heimilt að krefjast þess að þjónustuveitandi noti rafræna undirskrift til að auðkenna sig er hann sækir um leyfi til að veita þjónustu í gegnum upplýsinga- og þjónustuveituna, sem kveðið er á um í þjónustutilskipuninni, í samræmi við tilskipun 1993/93 um rafrænar undirskriftir. Aðildarríkin skulu setja upp, viðhalda og birta „traustlista“ (trusted list) þar sem fram koma upplýsingar um vottunaraðila er gefa út rafrænar undirskriftir. Aðildarríki skulu tilkynna framkvæmdastjórninni hver sjái um að setja upp og viðhalda traustlistanum.

4. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    
Innleiðing ákvörðunarinnar kallar á breytingu á lögum nr. 28/2001, um rafrænar undirskriftir. Lagabreytingin er ekki umfangsmikil. Nauðsynlegt þykir hins vegar að lögfesta umgjörð um fyrrgreindan traustlista en gert er ráð fyrir að Neytendastofa annist uppsetningu og viðhald hans. Gert er ráð fyrir að frumvarp þess efnis verði tilbúið til framlagningar á vorþingi 2011.



Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 102/2010

frá 1. október 2010

um breytingu á X. viðauka (Almenn þjónusta) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR TEKIÐ NEÐANGREINDA ÁKVÖRÐUN

með vísan til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, með áorðnum breytingum samkvæmt bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist „samningurinn“ í því sem hér fer á eftir, einkum ákvæða 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)        X. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 86/2010 frá 2. júlí 2010 ( 1 ) .

2)        Fella ber inn í samninginn ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2009/767/EB frá 16. október 2009 um ráðstafanir sem greiða fyrir notkun rafrænnar málsmeðferðar með upplýsinga- og þjónustumiðstöðvum samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/ 123/EB um þjónustu á innri markaðnum ( 2 ), sbr. leiðréttingar sem birtust í Stjtíð. ESB L 299, 14.11.2009, bls. 18.

ÁKVÖRÐUNIN ER SVOHLJÓÐANDI:

1. gr.



Eftirfarandi liður bætist við á eftir lið 1a (ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2009/739/EB) í X. viðauka við samninginn:

„1b.         32009 D 0767: Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2009/767/EB frá 16. október 2009 um ráðstafanir sem greiða fyrir notkun rafrænnar málsmeðferðar með upplýsinga- og þjónustumiðstöðvum samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/123/EB um þjónustu á innri markaðnum (Stjtíð. ESB L 274, 20.10.2009, bls. 36), sbr. leiðréttingar sem birtust í Stjtíð. ESB L 299, 14.11.2009, bls. 18.“

2. gr.



Íslenskur og norskur texti ákvörðunar 2009/767/EB, sbr. leiðréttingar sem birtust í Stjtíð. ESB L 299, 14.11.2009, bls. 18, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.



Ákvörðun þessi öðlast gildi 1. nóvember 2010, að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi borist sameiginlegu EES-nefndinni( * ).

4. gr.



Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.



Gjört í Brussel 1. október 2010.

Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar

Stefán Haukur Jóhannesson
formaður.




Fylgiskjal II.


ÁKVÖRÐUN FRAMKVÆMDASTJÓRNARINNAR
frá 16. október 2009
um ráðstafanir sem greiða fyrir notkun rafrænnar málsmeðferðar með upplýsinga- og þjónustumiðstöðvum samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/123/EB
um þjónustu á innri markaðnum

(tilkynnt með númeri C(2009) 7806)
(Texti sem varðar EES)
(2009/767/EC)

FRAMKVÆMDASTJÓRN EVRÓPUBANDALAGANNA HEFUR,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins,
með hliðsjón af tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/123/EB frá 12. desember 2006 um þjónustu á innri markaðnum ( 1 ), einkum 3. mgr. 8. gr.,
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)    Sú skuldbinding um einföldun stjórnsýslu, sem lögð er á aðildarríkjunum í II. kafla tilskipunar 2006/123/EB, einkum í 5. og 8. gr. hennar, felur í sér skyldu til að einfalda málsmeðferð og formsatriði sem gilda um að fá aðgang að og að stunda þjónustustarfsemi og skyldu til að tryggja að þjónustuveitendum sé unnt að ljúka slíkri málsmeðferð með auðveldum hætti og ganga frá formsatriðum með fjarmiðlun og með rafrænum hætti fyrir milligöngu „upplýsinga- og þjónustumiðstöðva“.
2)    Það verður að vera unnt að ljúka málsmeðferðinni og ganga frá formsatriðum yfir landamæri aðildarríkjanna fyrir milligöngu „upplýsinga- og þjónustumiðstöðva“ eins og sett er fram í 8. gr. tilskipunar 2006/123/EB.
3)    Til að verða við skuldbindingunni um að einfalda málsmeðferð og formsatriði og að auðvelda notkun „upplýsinga- og þjónustumiðstöðva“ yfir landamæri, skal rafræn málsmeðferð byggjast á einföldum lausnum, þ.m.t. að því er varðar notkun rafrænna undirskrifta. Þegar talið er nauðsynlegt, að undangengnu viðeigandi áhættumati á raunverulegri málsmeðferð og formsatriðum, að gætt sé fyllsta öryggis eða að nauðsynlegt sé að undirskrift sé ígildi eiginhandarundirskriftar, er hægt, vegna tiltekinnar málsmeðferðar eða formsatriða, að krefjast rafrænnar undirskriftar af hálfu þjónustuaðila, sem byggist á viðurkenndu skilríki, með eða án öruggs undirskriftarbúnaðar.
4)    Ramma Bandalagsins varðandi rafrænar undirskriftir var komið á fót með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 1999/93/EB frá 13. desember 1999 um ramma Bandalagsins varðandi rafrænar undirskriftir ( 2 ) . Til að auðvelda skilvirka notkun yfir landamæri á þróuðum, rafrænum undirskriftum, sem byggjast á viðurkenndu skilríki, skal auka traust á þessum rafrænu undirskriftum óháð því í hvaða aðildarríki undirritandinn eða vottunaraðilinn, sem gefur út hið viðurkennda skilríki, hefur staðfestu. Þessu markmiði er hægt að ná með því að gera þær upplýsingar sem þarf til að fullgilda rafræna undirskrift aðgengilegri á áreiðanlegu formi, einkum upplýsingar er varða vottunaraðila sem sæta eftirliti eða hljóta faggildingu í aðildarríki og þá þjónustu sem þeir veita.
5)    Nauðsynlegt er að tryggja að aðildarríki geri þessar upplýsingar aðgengilegar almenningi á sameiginlegu sniði til að auðvelda notkun þeirra og tryggja viðeigandi nákvæmnistig þannig að móttakandinn geti fullgilt rafrænu undirskriftina.

SAMÞYKKT ÁKVÖRÐUN ÞESSA:

1. gr.
Notkun og samþykki rafrænnar undirskriftar

1.    Ef það er réttlætanlegt á grunni viðeigandi mats á áhættunni, sem um er að ræða, og í samræmi við 1. og 3. mgr. 5. gr. tilskipunar 2006/123/EB, geta aðildarríki farið fram á það við þjónustuaðila, til þess að ljúka tiltekinni málsmeðferð og formsatriðum fyrir milligöngu upplýsinga- og þjónustumiðstöðva, skv. 8. gr. tilskipunar 2006/123/EB, að hann noti þróaðar, rafrænar undirskriftir sem byggjast á viðurkenndu skilríki, með eða án öruggs undirskriftarbúnaðar, samkvæmt skilgreiningum og ákvæðum tilskipunar 1999/93/EB.
2.    Aðildarríki skulu samþykkja hvers konar þróaðar, rafrænar undirskriftir, sem byggjast á viðurkenndu skilríki, með eða án öruggs undirskriftarbúnaðar, til þess að ljúka málsmeðferðinni og formsatriðunum, sem um getur í 1. mgr., án þess að það hafi áhrif á möguleika aðildarríkjanna til að takmarka þetta samþykki við þróaðar rafrænar undirskriftir, sem byggjast á viðurkenndu skilríki og eru gerðar með öruggum undirskriftarbúnaði, svo framarlega að þetta sé í samræmi við áhættumatið sem um getur í 1. mgr.
3.    Aðildarríkin skulu ekki gera skylt að samþykkt þróaðrar, rafrænnar undirskriftar, sem byggist á viðurkenndu skilríki, með eða án öruggs undirskriftarbúnaðar, sé háð kröfum sem hindra notkun þjónustuveitenda á rafrænni málsmeðferð fyrir milligöngu upplýsinga- og þjónustumiðstöðva.
4.    Ákvæði 2. mgr. kemur ekki í veg fyrir að aðildarríki geti samþykkt aðrar rafrænar undirskriftir en þróaðar, rafrænar undirskriftir sem byggjast á viðurkenndu skilríki, með eða án öruggs undirskriftarbúnaðar.

2. gr.
Samning, viðhald og birting áreiðanlegra skráa

1.    Sérhvert aðildarríki skal semja, viðhalda og birta, í samræmi við tækniforskriftir, sem settar eru fram í viðaukanum, „áreiðanlega skrá“ sem inniheldur lágmarksupplýsingar um þá vottunaraðila sem gefa út viðurkennd skilríki til handa almenningi og sem aðildarríkin hafa eftirlit með eða veita faggildingu.
2.    Aðildarríki skulu a.m.k. semja og birta útgáfu af áreiðanlegu skránni sem er læsileg mönnum, í samræmi við forskriftirnar sem settar eru fram í viðaukanum.
3.    Aðildarríki skulu tilkynna framkvæmdastjórninni um þann aðila sem ber ábyrgð á því að semja, halda við og birta áreiðanlegu skrána, staðnum þar sem hún er birt og hvers konar breytingum á henni.

3. gr.

Beiting

Ákvörðun þessi gildir frá 28. desember 2009.

4. gr.
Viðtakendur

Ákvörðun þessari er beint til aðildarríkjanna.
Gjört í Brussel 16. október 2009.

Fyrir hönd framkvæmdastjórnarinnar,
Charlie McCREEVY
framkvæmdastjóri.

Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L 277, 21.10.2010, bls. 40, og EES-viðbætir við Stjtíð. ESB nr. 59, 21.10.2010, bls. 9.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. ESB L 274, 20.10.2009, bls. 36.
Neðanmálsgrein: 3
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 4
(1)    Stjtíð. ESB L 376, 27.12.2006, bls. 36.
Neðanmálsgrein: 5
(2)    Stjtíð. EB L 13, 19. 1. 2000, bls. 12.