Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 545. máls.

Þskj. 915  —  545. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 86/2009 um breytingu á XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)




    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 86/2009, frá 3. júlí 2009, um breytingu á XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/122/EB frá 14. janúar 2009 um neytendavernd að því er varðar tiltekna þætti skiptileigusamninga, samninga um orlofskosti til langs tíma, endursölu- og skiptasamninga.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 86/2009, frá 3. júlí 2009, um breytingu á XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/122/EB frá 14. janúar 2009 um neytendavernd að því er varðar tiltekna þætti skiptileigusamninga, samninga um orlofskosti til langs tíma, endursölu- og skiptasamninga.
    Tilskipun 2008/122/EB varðar vernd neytenda að því er varðar tiltekna þætti samninga um nýtingu fasteigna á skiptileigugrunni (e. time share), langtímasamninga um orlofstilboð, endursölu- og skiptasamninga.
    Í tillögu þessari er gerð grein fyrir efni gerðarinnar sem hér um ræðir, en hún felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur stjórnskipulegur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/122/EB frá 14. janúar 2009 um neytendavernd að því er varðar tiltekna þætti skiptileigusamninga, samninga um orlofskosti til langs tíma, endursölu- og skiptasamninga.
    Tilskipunin varðar vernd neytenda að því er varðar tiltekna þætti samninga um nýtingu fasteigna á skiptileigugrunni (e. time share), langtímasamninga um orlofstilboð, endursölu- og skiptasamninga. Tilskipunin kemur í stað tilskipunar 94/47/EB um verndun kaupenda vegna tiltekinna þátta í samningum um kaup á réttindum til að nýta fasteignir á skiptileigugrunni, en sú tilskipun var innleidd hér á landi með lögum nr. 23/1997, um gerð samninga um hlutdeild í afnotarétti orlofshúsnæðis.
    Tilskipun 2008/122/EB felur í sér umtalsverðar breytingar frá eldri tilskipun. Þannig kveður nýja tilskipunin á um fulla samræmingu reglna í ríkjum ESB/EES á tilteknum sviðum hennar, en eldri tilskipunin kvað einungis á um lágmarkskröfur sem löggjöf ríkjanna þyrfti að uppfylla. Á þessum sviðum ber ríkjum ESB/EES því að innleiða reglur sem eru í fullu samræmi við ákvæði tilskipunarinnar.
    Gildissvið Evrópureglna er jafnframt víkkað út frá því sem gilti samkvæmt eldri tilskipuninni. Þannig taka nýju reglurnar til samninga sem vara í lengri tíma en eitt ár, en í eldri tilskipun var miðað við þriggja ára lágmarkstíma. Nýju reglurnar taka einnig til nýrra tegunda af orlofsvörum sem komið hafa á markað að undanförnu, svo sem langtímasamninga um orlofstilboð, endursölu- og skiptasamninga. Upplýsingaskylda seljanda er jafnframt víkkuð út frá því sem kveðið var á um í eldri tilskipuninni, með það að markmiði að hjálpa neytandanum að taka upplýsta ákvörðun um kaupin. Þá er réttur neytenda aukinn að ýmsu öðru leyti, svo sem með banni við eingreiðslu vegna langtímasamninga og rétti neytenda til að falla frá samningi innan 14 daga frá gerð samnings án þess að gefa upp ástæðu og án þess að það leiði til aukins kostnaðar fyrir neytandann.

4. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Vegna innleiðingar ákvæða tilskipunarinnar í íslenskan rétt er stefnt að því að breyta ákvæðum í lögum nr. 23/1997, um gerð samninga um hlutdeild í afnotarétti orlofshúsnæðis. Ekki er gert ráð fyrir því að þær lagabreytingar muni hafa í för með sér umtalsverðan kostnað eða stjórnsýslulegar afleiðingar hér á landi.



Fylgiskjal I.



ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 86/2009

frá 3. júlí 2009

um breytingu á XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn.


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR TEKIÐ NEÐANGREINDA ÁKVÖRÐUN

með vísan til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, með áorðnum breytingum samkvæmt bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist „samningurinn“ í því sem hér fer á eftir, einkum ákvæða 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)          XIX. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 16/2009 frá 5. febrúar 2009 ( 1 ).

2)          Fella ber inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/122/EB frá 14. janúar 2009 um neytendavernd að því er varðar tiltekna þætti skiptileigusamninga, langtímasamninga um orlofstilboð, endursölu- og skiptasamninga ( 2 ).

3)          Samkvæmt ákvæðum tilskipunar 2008/122/EB fellur úr gildi tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 94/47/EB ( 3 ), en sú gerð hefur verið felld inn í samninginn og ber því að fella hana úr samningnum.

ÁKVÖRÐUNIN ER SVOHLJÓÐANDI:

1. gr.

Texti liðar 7b (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 94/47/EB) í XIX. viðauka við samninginn hljóði svo:

32008 L 0122: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/122/EB frá 14. janúar 2009 um neytendavernd að því er varðar tiltekna þætti skiptileigusamninga, langtímasamninga um orlofstilboð, endursölu- og skiptasamninga (Stjtíð. ESB L 33, 3.2.2009, bls. 10).“

2. gr.



Íslenskur og norskur texti tilskipunar 2008/122/EB, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.



Ákvörðun þessi öðlast gildi 4. júlí 2009 að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi borist sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

4. gr.



Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

Gjört í Brussel 3. júlí 2009.



Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar
O.H. Sletnes
formaður.



Fylgiskjal II.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2008/122/EB
frá 14. janúar 2009
um neytendavernd að því er varðar tiltekna þætti skiptileigusamninga, samninga um orlofskosti til langs tíma, endursölu- og skiptasamninga
(Texti sem varðar EES)


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 95. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar,
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndar Evrópubandalaganna ( 1 ) ,
Í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 2 ) ,
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)          Frá því að tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 94/47/EB frá 26. október 1994 um verndun kaupenda vegna tiltekinna þátta í samningum um kaup á réttindum til að nýta fasteignir á skiptileigugrunni ( 3 ) var samþykkt hefur skiptileiga þróast og nýir sambærilegir orlofskostir komið á markaðinn. Þessir nýju orlofskostir og tiltekin viðskipti sem tengjast skiptileigu, s.s. endursölusamningar og skiptisamningar, falla ekki undir tilskipun 94/47/EB. Að auki hefur reynslan af beitingu tilskipunar 94/47/EB sýnt að uppfæra þarf eða skýra nánar sum viðfangsefni, sem þegar hefur verið fjallað um, til að koma í veg fyrir að þróaðir verði kostir í því skyni að sniðganga þessa tilskipun.
2)          Þær gloppur, sem nú er að finna í löggjöfinni, valda umtalsverðri röskun á samkeppni og skapa alvarleg vandamál fyrir neytendur og hindra þannig snurðulausa starfsemi innri markaðarins. Því skal ný uppfærð tilskipun koma í stað tilskipunar 94/47/EB. Þar eð ferðaþjónusta gegnir æ mikilvægara hlutverki í efnahagslífi aðildarríkjanna skal hvetja til meiri vaxtar og framleiðni í atvinnugreinum með skiptileigu og orlofskostum til langs tíma með því að samþykkja tilteknar sameiginlegar reglur.
3)          Til að auka réttarvissu og til að neytendur og fyrirtæki geti fyllilega nýtt sér ávinninginn af innri markaðnum verður að samræma viðkomandi lög aðildarríkjanna frekar. Því skal samræma til fulls tiltekna þætti markaðssetningar, sölu og endursölu á skiptileigu og orlofskostum til langs tíma svo og réttindaskipta sem leiðir af skiptileigusamningum. Aðildarríkin skulu ekki fá leyfi til að viðhalda eða innleiða ákvæði í landslöggjöf sína sem víkja frá þeim sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun. Ef ekki er um nein slík samræmd ákvæði að ræða er aðildarríkjunum frjálst að viðhalda eða setja löggjöf í hverju aðildarríki fyrir sig í samræmi við lög Bandalagsins. Þannig ættu aðildarríkin t.d. að geta viðhaldið eða innleitt ákvæði um áhrif þess að nýta réttinn til að falla frá lagalegum tengslum, sem eru utan gildissviðs þessarar tilskipunar eða ákvæða, sem kveða á um að ekki megi eiga sér stað neinar skuldbindingar milli neytanda og seljanda skiptileigu eða orlofskosta til langs tíma, og ekki heldur greiðslur milli þessara aðila fyrr en neytandinn hefur undirritað lánssamning til að fjármagna kaup á þessari þjónustu.
4)          Þessi tilskipun skal ekki hafa áhrif á beitingu aðildarríkja, í samræmi við lög Bandalagsins, á ákvæðum þessarar tilskipunar á sviðum sem falla ekki undir gildissvið hennar. Aðildarríki geta því viðhaldið eða innleitt ákvæði í landslög, sem samsvara ákvæðum þessarar tilskipunar eða vissum ákvæðum hennar, um viðskipti sem falla utan gildissviðs þessarar tilskipunar.
5)          Hinir ýmsu samningar, sem falla undir þessa tilskipun, skulu vera skýrt skilgreindir þannig að komið verði í veg fyrir að ákvæði hennar séu sniðgengin.
6)          Að því er varðar þessa tilskipun ber ekki að skilja skiptileigusamninga þannig að þeir nái yfir margfaldar bókanir á gistiaðstöðu, þ.m.t. hótelherbergi, að svo miklu leyti sem margfaldar bókanir fela ekki í sér réttindi og skuldbindingar umfram þær sem hljótast af aðskildum pöntunum. Né heldur ber að skilja skiptileigusamninga svo að um sé að ræða venjulega leigusamninga þar eð þeir síðarnefndu eiga einungis við um eitt stakt samfellt gistitímabil en ekki um mörg tímabil.
7)          Að því er varðar þessa tilskipun skulu samningar um orlofskosti til langs tíma ekki teljast taka til venjulegrar vildarþjónustu, sem veitir afslátt á dvöl í framtíðinni á hótelum í hótelkeðjum, þar eð aðild að kerfinu er ekki fengin gegn þóknun eða neytandinn greiðir þóknunina fyrst og fremst í þeim tilgangi að fá afslátt eða annan ávinning í tengslum við gistiaðstöðu.
8)          Þessi tilskipun skal ekki hafa áhrif á ákvæði tilskipunar ráðsins 90/314/EBE frá 13. júní 1990 um ferðapakka, orlofspakka og skoðunarferðapakka ( 1 ) .
9)          Í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/29/ EB frá 11. maí 2005 um óréttmæta viðskiptahætti gagnvart neytendum á innri markaðnum (tilskipun um óréttmæta viðskiptahætti) ( 2 ) eru misvísandi, ágengir og aðrir óréttmætir viðskiptahættir fyrirtækja gagnvart neytendum bannaðir. Að teknu tilliti til eðlis kostanna og viðskiptahátta í tengslum við skiptileigusamninga, samninga um orlofskosti til langs tíma, endursölu- og skiptasamninga, er rétt að innleiða ítarlegri og nákvæmari ákvæði um upplýsingakröfur og söluviðburði. Gera skal neytendum skýra grein fyrir viðskiptalegum tilgangi boða á söluviðburði. Ákvæði um upplýsingar sem eru veittar áður en samningur er gerður og um sjálfan samninginn skulu útskýrð nánar og uppfærð. Neytendum skal gert kleift að nálgast upplýsingarnar á auðveldan hátt á þessum tíma svo þeir geti kynnt sér þær áður en gengið er frá samningnum.
10)          Neytendur skulu eiga þann rétt, sem seljendur skulu ekki neita þeim um, að fá upplýsingar sem veittar eru áður en samningur er gerður og samninginn á tungumáli sem þeir velja sjálfir og hafa þekkingu á. Til að auðvelda framkvæmd og framfylgd samningsins skulu aðildarríki auk þess fá leyfi til að ákveða að neytendum séu látnar í té fleiri tungumálaútgáfur af samningnum.
11)          Til að neytendum gefist kostur á að skilja til fulls réttindi sín og skyldur samkvæmt samningnum skal þeim veittur frestur sem gerir þeim kleift að falla frá samningnum án þess að þurfa að réttlæta þá ákvörðun og þeim að kostnaðarlausu. Nú sem stendur er þessi frestur mislangur í aðildarríkjunum og reynslan sýnir að tímabilið, sem kveðið er á um í tilskipun 94/47/EB, er ekki nógu langt. Þar af leiðandi skal lengja frestinn til að ná fram öflugri neytendavernd og meira gagnsæi fyrir neytendur og seljendur. Samræma skal lengd frestsins, fyrirkomulagið og áhrifin af því að nýta réttinn til þess að falla frá samningi.
12)          Neytendur skulu hafa raunhæf úrræði ef seljendur fara ekki eftir ákvæðunum um upplýsingar sem veittar eru áður en samningur er gerður eða um samninginn, einkum ákvæðunum þar sem mælt er fyrir um að samningurinn skuli innihalda allar tilskildar upplýsingar og að neytandinn skuli fá afrit af samningnum við gerð hans. Auk úrræðanna, sem til eru í landslögum, skulu neytendur fá frestinn til að falla frá samningi framlengdan hafi seljandi ekki veitt upplýsingar. Rétturinn til að falla frá samningi skal vera neytendum að kostnaðarlausu meðan á framlengdum fresti stendur, án tillits til þeirrar þjónustu sem þeir kunna að hafa notið. Þó að fresturinn til að falla frá samningi renni út kemur það ekki í veg fyrir að neytendur leiti úrræða í samræmi við landslög vegna vanefnda á upplýsingakröfunum.
13)          Reglugerð ráðsins (EBE, KBE) nr. 1182/71 frá 3. júní 1971 sem setur reglur um hvernig reikna ber tímabil, dagsetningar og fresti ( 3 ) skal gilda við útreikning á tímabilunum sem fjallað er um í þessari tilskipun.
14)          Skýra skal bann við fyrirframgreiðslum til seljanda eða þriðja aðila, áður en frestinum til að falla frá samningi lýkur, nánar til að auka neytendavernd. Að því er varðar endursölusamninga skal bannið við fyrirframgreiðslu gilda þar til raunveruleg sala á sér stað eða endursölusamningnum er sagt upp, en aðildarríkjum skal áfram vera frjálst að setja reglur um möguleika og fyrirkomulag á lokagreiðslum til miðlara við uppsögn endursölusamninga.
15)          Að því er varðar samninga um orlofskost til langs tíma ætti að vera hægt ákveða verðið, sem greiða skal samkvæmt áætlun um greiðslu í áföngum, með þann möguleika til hliðsjónar að aðlaga megi síðari fjárhæðir eftir fyrsta árið til að tryggja að raunvirði afborgana haldist, t.d. til að mæta verðbólgu.
16)          Í því tilviki þegar neytandi fellur frá samningi og fjárhæðin er að öllu leyti eða að hluta greidd neytanda með láni frá seljanda eða þriðja aðila á grundvelli samkomulags milli þessa þriðja aðila og seljanda, skal segja upp lánssamningnum neytandanum að kostnaðarlausu. Hið sama gildir um samninga fyrir aðra tengda þjónustu sem seljandi eða þriðji aðili veitir á grundvelli samkomulags milli þess þriðja aðila og seljandans.
17)          Neytendur skulu ekki sviptir þeirri vernd, sem kveðið er á um í þessari tilskipun, þegar lög aðildarríkis gilda um samninginn. Ákvarða skal hvaða lög gilda um samninginn í samræmi við reglur Bandalagsins um alþjóðlegan einkamálarétt, einkum reglugerð (EB) Evrópuþingsins og ráðsins nr. 593/2008 frá 17. júní 2008 um lög sem gilda um samningsbundnar skyldur (Róm I) ( 1 ) . Samkvæmt þeirri reglugerð geta lög þriðja lands átt við, einkum þegar seljendur reyna markvisst að ná til neytenda sem eru í orlofi í öðru landi en þar sem þeir hafa búsetu. Að því gefnu að slíkir viðskiptahættir séu algengir á svæðinu sem fellur undir þessa tilskipun, og að samningarnir feli í sér umtalsverðar fjárhæðir, skal veita aukna vernd við tilteknar sértækar aðstæður, einkum þegar dómstólar í einhverju aðildarríki hafa lögsögu að því er varðar samninginn, til að tryggja að neytandinn sé ekki sviptur þeirri vernd sem hann hefur samkvæmt þessari tilskipun. Þetta endurspeglar þá sérstöku þörf fyrir neytendavernd sem leiðir af dæmigerðum flóknum samningum til langs tíma sem skipta máli fjárhagslega og falla undir þessa tilskipun.
18)          Í samræmi við reglugerð ráðsins (EB) nr. 44/ 2001 frá 22. desember 2000 um dómsvald og viðurkenningu á og fullnustu dóma í einkamálum og viðskiptamálum ( 2 ) skal ákveða hvaða dómstólar hafa lögsögu í málum er varða málefni sem falla undir þessa tilskipun.
19)          Til að tryggja að sú vernd, sem neytendum er veitt með þessari tilskipun, komi að fullu gagni, einkum þannig að seljendur fullnægi kröfum um upplýsingar, bæði áður en samningur er gerður og í samningnum, er nauðsynlegt að aðildarríkin mæli fyrir um viðurlög við brotum á þessari tilskipun sem eru skilvirk, í réttu hlutfalli við brotið og letjandi.
20)          Nauðsynlegt er að tryggja að einstaklingar eða stofnanir, sem samkvæmt landslögum hafa lögmætra hagsmuna að gæta í málinu, hafi lagaleg úrræði til þess að hefja málsmeðferð vegna brota á þessari tilskipun.
21)          Nauðsynlegt er að þróa viðeigandi og árangursríka úrlausnarmeðferð í aðildarríkjunum til að leysa deilumál neytenda og seljenda. Í þessu skyni skulu aðildarríki hvetja til þess að opinberar stofnanir eða einkafyrirtæki séu stofnuð til að annast lausn deilumála utan dómstóla.
22)          Aðildarríkin skulu sjá til þess að neytendur séu upplýstir nægilega um ákvæði landslaga til lögleiðingar þessari tilskipun og hvetja seljendur og reglusetningaraðila til að veita neytendum upplýsingar um siðareglur sínar á þessu sviði. Neytendasamtök skulu upplýst um og taka þátt í samningu siðareglna með það fyrir augum að ná fram öflugri neytendavernd.
23)          Þar eð aðildarríkin geta ekki fyllilega náð markmiðum þessarar tilskipunar, og þeim verður betur náð á vettvangi Bandalagsins, getur Bandalagið samþykkt ráðstafanir í samræmi við dreifræðisregluna eins og kveðið er á um í 5. gr. sáttmálans. Í samræmi við meðalhófsregluna, eins og fram kemur í þeirri grein, er ekki gengið lengra en nauðsyn krefur í þessari tilskipun til að afnema hindranir á innri markaðnum og ná fram öflugri almennri neytendavernd.
24)          Í þessari tilskipun er tekið tillit til þeirra grundvallarréttinda og þeim meginreglum fylgt sem einkum eru viðurkenndar í Evrópusáttmála um verndun mannréttinda og mannfrelsis og sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi.
25)          Í samræmi við 34. lið samstarfssamningsins milli stofnana um betri lagasetningu ( 1 ) eru aðildarríkin hvött til þess, bæði í eigin þágu og í þágu Bandalagsins, að semja og birta sínar eigin töflur sem, eftir því sem kostur er, sýna samsvörun milli þessarar tilskipunar og lögleiðingarráðstafananna.
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.


Tilgangur og gildissvið


1.     Markmiðið með þessari tilskipun er að stuðla að eðlilegri starfsemi innri markaðarins og ná öflugri neytendavernd með samræmingu laga og stjórnsýslufyrirmæla aðildarríkjanna að því er varðar tiltekna þætti markaðsetningar, sölu og endursölu langtímaleigusamninga og samninga um orlofskosti til langs tíma sem og skiptasamninga.
2.     Tilskipun þessi gildir um viðskipti milli seljanda og neytenda.
Tilskipun þessi er með fyrirvara um landslög:
     a)      um almenn úrræði í samningalögum,
     b)      um skráningu á fasteignum og lausafjármunum og miðlun fasteigna,
     c)      um staðfestuskilyrði, fyrirkomulag leyfisveitinga eða leyfisskilyrði og
     d)      um skilgreiningu á lagalegri stöðu réttindanna sem samningarnir, sem falla undir þessa tilskipun, fjalla um.

2. gr.


Skilgreiningar


1.     Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
     a)      „skiptileigusamningur“: samningur, sem gildir lengur en í eitt ár, sem veitir neytanda rétt gegn þóknun til þess að nota gistiaðstöðu í eina nótt eða fleiri í eitt dvalartímabil eða fleiri,
     b)      „samningur um orlofskost til langs tíma“: samningur sem gildir lengur en í eitt ár, sem veitir neytandanum gegn þóknun rétt á því að fá afslátt, eða annan ávinning í tengslum við gistiaðstöðu eina og sér eða með ferðum eða annarri þjónustu,
     c)      „endursölusamningur“: samningur þar sem seljandi aðstoðar neytanda við að selja eða kaupa skiptileigu eða orlofskost til langs tíma gegn þóknun,
     d)      „skiptisamningur“: samningur, þar sem neytandi tekur þátt í skiptikerfi gegn þóknun, sem heimilar honum aðgang að næturgistingu eða annarri þjónustu í skiptum fyrir að veita öðrum einstaklingum leyfi til hagnýta sér tímabundið réttindin sem leiða af skiptileigusamningi hans,
     e)      „seljandi“: einstaklingur eða lögaðili sem vinnur að markmiðum er varða atvinnugrein, fyrirtæki, iðn eða sérgrein hans og hver sá sem kemur fram í nafni seljanda eða fyrir hönd hans,
     f)      „neytandi“: einstaklingur sem vinnur að markmiðum sem liggja utan við atvinnugrein, fyrirtæki, iðju eða sérgrein hans,
     g)      „fylgisamningur“: samningur sem gildir um kaup neytandans á þjónustu, sem tengist skiptileigusamningi eða samningi um orlofskost til langs tíma, og sem seljandi eða þriðji aðili lætur í té á grundvelli samkomulags milli þess þriðja aðila og seljandans,
     h)      „varanlegur miðill“: sérhvert tæki sem gerir neytanda eða seljanda kleift að geyma upplýsingar, sem beint er til hans persónulega, á þann hátt að hægt sé að nálgast þær til að fletta upp í þeim síðar, í hæfilegan tíma eftir tilgangi upplýsinganna og sem gerir kleift að afrita óbreyttar þær upplýsingar sem geymdar eru,
     i)      „siðareglur“: samkomulag eða reglubálkur, sem leiðir ekki af lögum eða stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkis, þar sem skilgreind er hegðun seljenda sem skuldbinda sig til að fara eftir reglunum að því er varðar tiltekna viðskiptahætti eða viðskiptasvið,
     j)      „reglusetningaraðili“: sérhver aðili, þ.m.t. seljandi eða hópur seljenda, sem ber ábyrgð á gerð og endurskoðun siðareglna og/eða á því að fylgjast með því að þeir, sem hafa skuldbundið sig til þess, fari eftir reglunum.
2.      Við útreikning á lengd skiptileigusamnings eða samnings um orlofskost til langs tíma, eins og hann er skilgreindur í a- og b-lið 1. mgr., eftir því sem við á, skal taka tillit til samningsákvæða sem leyfa sjálfkrafa endurnýjun eða framlengingu.

3. gr.


Auglýsingastarfsemi


1.     Aðildarríki skulu sjá til þess að í öllum auglýsingum sé tilgreint að mögulegt sé að fá upplýsingarnar, sem um getur í 1. mgr. 4. gr. og hvar hægt er að fá þær.
2.     Ef bjóða á neytanda í eigin persónu skiptileigusamning, samning um orlofskost til langs tíma, endursölu- eða skiptisamning á kynningu eða söluviðburði, skal seljandi gera skýra grein fyrir viðskiptatilgangi og eðli viðburðarins í boðinu.
3.     Upplýsingarnar, sem um getur í 1. mgr. 4. gr., skulu vera neytandanum aðgengilegar á hvaða tíma sem er meðan viðburðurinn stendur yfir.
4.     Skiptileigu eða orlofskost til langs tíma skal ekki markaðssetja eða selja sem fjárfestingu.

4. gr.
Upplýsingar sem veittar eru áður en samningur er gerður

1.     Seljandinn skal, með nægum fyrirvara áður en neytandinn er bundinn samningi eða tilboði, veita neytandanum á skýran og auðskiljanlegan máta nákvæmar og fullnægjandi upplýsingarnar sem hér segir:
     a)      ef um er að ræða skiptileigusamning: á stöðluðu upplýsingaeyðublaði, eins og sett er fram í I. viðauka, og upplýsingarnar sem um getur í 3. hluta þess eyðublaðs,
     b)      ef um er að ræða samning um orlofskost til langs tíma: á stöðluðu upplýsingaeyðublaði. eins og sett er fram í II. viðauka, og upplýsingarnar sem um getur í 3. hluta þess eyðublaðs,
     c)      ef um er að ræða endursölusamning: á stöðluðu upplýsingaeyðublaði, eins og sett er fram í III. viðauka, og upplýsingarnar sem um getur í 3. hluta þess eyðublaðs,
     d)      ef um er að ræða skiptisamning: á stöðluðu upplýsingaeyðublaði, eins og sett er fram í IV. viðauka, og upplýsingarnar sem um getur í 3. hluta þess eyðublaðs.
2.     Seljandinn skal veita upplýsingarnar, sem um getur í 1. mgr. án endurgjalds, á pappír eða öðrum varanlegum miðli sem neytandinn hefur greiðan aðgang að.
3.     Aðildarríki skulu sjá til þess að upplýsingarnar, sem um getur í 1. mgr., séu á tungumáli eða einu af tungumálum aðildarríkisins, þar sem einstaklingurinn er búsettur eða ríkisborgari, að vali neytandans, að því tilskildu að það sé opinbert tungumál Bandalagsins.

5. gr.


Samningur um skiptileigu, samningur um orlofskost til langs tíma eða endursölu eða skiptisamningur

1.     Aðildarríki skulu sjá til þess að samningurinn sé skriflegur, á pappír eða öðrum varanlegum miðli, og á tungumáli eða einu af tungumálum aðildarríkis, þar sem neytandinn er búsettur eða er ríkisborgari, að vali neytandans, að því tilskildu að það sé opinbert tungumál í Bandalaginu.
Þó getur aðildarríkið þar sem neytandinn er búsettur að auki krafist eftirfarandi:
     a)      í öllum tilvikum, að samningurinn sé lagður fram til neytandans á tungumáli eða einu af tungumálum aðildarríkisins, að því tilskildu að það sé opinbert tungumál í Bandalaginu.
     b)      ef um er að ræða skiptileigusamning, sem varðar eina ákveðna fasteign, skal seljandinn láta neytandanum í té vottaða þýðingu á samningnum á tungumáli eða einu af tungumálum aðildarríkisins þar sem fasteignin er, að því tilskildu að það sé opinbert tungumál í Bandalaginu.
Aðildarríkið, þar sem seljandi er með sölustarfsemi, getur í öllum tilvikum krafist þess að samningurinn sé látinn neytandanum í té á tungumáli eða á einu af tungumálum aðildarríkisins, að því tilskildu að það sé opinbert tungumál í Bandalaginu.
2.     Upplýsingarnar, sem um getur í 1. mgr. 4. gr. skulu vera óaðskiljanlegur hluti samningsins og þeim skal ekki breytt nema samningsaðilarnir samþykki annað sérstaklega eða breytingarnar séu til komnar vegna óvenjulegra og ófyrirsjáanlegra aðstæðna, sem ekki eru á valdi seljandans, og ekki hefði verið hægt að komast hjá þrátt fyrir ýtrustu kostgæfni.
Tilkynna skal neytandanum um þessar breytingar, á pappír eða öðrum varanlegum miðli sem hann hefur greiðan aðgang að, áður en samningurinn er gerður.
Í samningnum skal sérstaklega kveða á um allar slíkar breytingar.
3.     Auk upplýsinganna, sem um getur í 1. mgr. 4. gr. skal eftirfarandi koma fram í samningnum:
     a)      auðkenni, búsetustaður og undirskrift allra aðila og
     b)      dagsetning og staður þar sem samningurinn er gerður.
4.     Áður en samningur er gerður skal seljandi á skilmerkilegan hátt vekja athygli neytandans á rétti hans til þess að falla frá samningnum, á því hversu langur fresturinn er, sem um getur í 6. gr. og banninu við fyrirframgreiðslu meðan fresturinn, sem um getur í 9. gr. varir.
Neytandinn skal undirrita samsvarandi samningsákvæði sérstaklega. Í samningnum skal vera sérstakt staðlað eyðublað til að falla frá samningi, eins og það er sett fram í V. viðauka, ætlað til að auðvelda beitinguna á réttinum til að falla frá samningi skv. 6. gr.
5.     Neytandinn skal fá eitt eða fleiri afrit af samningnum við gerð hans.

6. gr.


Réttur til að falla frá samningi


1.     Auk þeirra úrræða, sem neytandinn hefur samkvæmt landslögum í þeim tilvikum þegar ákvæði þessarar tilskipunar eru brotin, skulu aðildarríki tryggja að neytandinn fái frest í 14 almanaksdaga til að falla frá samningi um skiptileigu, samningi um orlofskosti til langs tíma, endursölu- eða skiptisamningi, án þess að tilgreina nokkra ástæðu.
2.     Frestur til að falla frá samningi reiknast:
     a)      frá þeim degi þegar samningurinn eða bindandi bráðabirgðasamningur er gerður eða
     b)      frá þeim degi þegar neytandinn fær samninginn eða bindandi bráðabirgðasamning í hendur, ef sá dagur er síðar en dagurinn sem um getur í a-lið.
3.     Frestur til að falla frá samningi rennur út:
     a)      eftir eitt ár og 14 almanaksdaga frá þeim degi sem um getur í 2. mgr. þessarar greinar, hafi sérstakt staðlað eyðublað til að falla frá samningi, sem gerð er krafa um skv. 4. mgr. 5. gr. ekki verið fyllt út af seljanda og afhent neytanda skriflega á pappír eða öðrum varanlegum miðli,
     b)      eftir þrjá mánuði og 14 almanaksdaga frá þeim degi sem um getur í 2. mgr., þessar greinar, hafi upplýsingarnar, sem um getur í 1. mgr. 4. gr., þ.m.t. staðlaða upplýsingaeyðublaðið í I. til IV. viðauka sem nota á, ekki verið afhent neytandanum skriflega á pappír eða öðrum varanlegur miðli.
Að auki skulu aðildarríkin kveða á um hæfileg viðurlög í samræmi við 15. gr., einkum í þeim tilvikum að seljandinn hafi, þegar afturköllunartímabil rann út, látið hjá líða að uppfylla upplýsingakröfurnar sem settar eru fram í þessari tilskipun.
4.     Ef seljandi hefur fyllt út sérstakt staðlað eyðublað til að falla frá samningi, eins og gerð er krafa um í 4. mgr. 5. gr. og afhent það neytandanum skriflega á pappír eða öðrum varanlegum miðli, innan eins árs frá þeim degi sem um getur í 2. mgr. þessarar greinar, skal frestur til að falla frá samningi hefjast frá og með þeim degi þegar neytandinn tekur við því eyðublaði. Það sama á við þegar neytandi hefur tekið við upplýsingunum, sem um getur í 1. mgr. 4. gr. þ.m.t. staðlaða upplýsingaeyðublaðið í I. til IV. viðauka sem nota á, skriflega á pappír eða öðrum varanlegum miðli, innan þriggja mánaða frá þeim degi sem um getur í 2. mgr. þessarar greinar, skal frestur til að falla frá samningi hefjast frá og með þeim degi þegar neytandinn tekur við slíkum upplýsingum.
5.     Í þeim tilvikum þegar neytanda er boðinn skiptisamningur ásamt og samtímis skiptileigusamningi gildir einungis einn frestur til að falla frá samningi skv. 1. mgr. fyrir báða samningana. Frestur til að falla frá samningi fyrir báða samningana skal reikna út samkvæmt ákvæðum 2. mgr. sem gilda um skiptileigusamninga.

7. gr.


Fyrirkomulag á nýtingu réttar til að falla frá samningi

Ef neytandi hyggst nýta sér rétt til að falla frá samningi skal hann tilkynna seljanda um þá ákvörðun á pappír eða öðrum varanlegum miðli áður en fresturinn til að falla frá samningnum rennur út. Neytandinn getur notað staðlaða eyðublaðið til að falla frá samningi, sbr. V. viðauka, sem seljandinn hefur lagt fram í samræmi við 4. mgr. 5. gr. Frestur telst virtur ef tilkynningin er send áður en fresturinn til að falla frá samningi rennur út.

8. gr.


Áhrif af nýtingu réttar til að falla frá samningi


1.     Nýti neytandi sér rétt til að falla frá samningi bindur það enda á þá skyldu samningsaðila að standa við hann.
2.     Nýti neytandi sér rétt til að falla frá samningi skal hann hvorki bera af því kostnað né vera skyldugur til að greiða nokkurt gjald fyrir þá þjónustu sem kann að hafa verið veitt áður en hann féll frá samningnum.

9. gr.


Fyrirframgreiðsla


1.     Í tengslum við samninga um skiptileigu, orlofskosti til langs tíma og skiptisamninga skulu aðildarríki tryggja bann við öllum fyrirframgreiðslum, tryggingum, geymslu peninga á reikningum, beinum skuldarviðurkenningum eða hvers konar öðrum greiðslum frá neytanda til seljanda eða þriðja aðila áður en frestinum til að falla frá samningi lýkur skv. 6. gr.
2.     Í tengslum við endursölusamninga skulu aðildarríkin tryggja bann við öllum fyrirframgreiðslum, tryggingum, geymslu peninga á reikningum, beinum skuldarviðurkenningum eða hvers konar öðrum greiðslum frá neytanda til seljanda eða þriðja aðila áður en sala fer fram eða fallið er frá endursölusamningi á annan hátt.

10. gr.


Sértæk ákvæði um samninga um orlofskosti til langs tíma

1.     Að því er varðar samninga um orlofskosti til langs tíma skulu greiðslur inntar af hendi samkvæmt áætlun um greiðslu í áföngum. Banna skal að greiða umsamið verð á annan hátt en tilgreint er í áætluninni um greiðslu í áföngum. Greiðslunum, að meðtöldu hugsanlegu aðildargjaldi skal dreift á jafnháar árlegar afborganir. Seljandinn skal senda skriflega greiðslubeiðni á pappír eða öðrum varanlegum miðli, a.m.k. 14 almanaksdögum fyrir hvern gjalddaga.
2.     Frá og með annarri afborgun getur neytandi sagt samningi upp án viðurlaga, með því að tilkynna seljanda það innan 14 almanaksdaga frá viðtöku greiðslubeiðni fyrir hverja afborgun. Þessi réttur skal ekki hafa áhrif á réttinn til að segja upp samningnum samkvæmt gildandi landslögum.

11. gr.


Uppsögn fylgisamninga


1.     Aðildarríki skulu sjá til þess að þegar neytandi nýtir sér rétt til að falla frá samningi um skiptileigu eða orlofskost til langs tíma sé öllum skiptasamningum sem honum fylgja eða öllum öðrum fylgisamningum sjálfkrafa sagt upp neytanda að kostnaðarlausu.
2.     Með fyrirvara um 15. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2008/48/EB frá 23. apríl 2008 um lánasamninga fyrir neytendur ( 1 ) , þar sem seljandi eða þriðji aðili lánar alla fjárhæðina eða hluta hennar á grundvelli samkomulags milli þriðja aðila og seljanda, skal segja upp lánasamningnum neytanda að kostnaðarlausu ef hann nýtir sér uppsagnarrétt sinn á skiptileigusamningi, samningi um orlofskost til langs tíma, endursölu- eða skiptisamningnum.
3.     Aðildarríkin skulu mæla fyrir um ítarlegar reglur varðandi uppsögn slíkra samninga.

12. gr.


Ákvæði þessarar tilskipunar og beiting í alþjóðlegum málum eru ófrávíkjanleg

1.     Aðildarríki skulu sjá til þess, þegar gildandi lög um samninginn eru lög aðildarríkis, að neytendur geti ekki afsalað sér þeim rétti sem þeir hafa samkvæmt þessari tilskipun.
2.     Þegar gildandi lög eru lög þriðja lands skal neytandinn ekki sviptur þeirri vernd, sem þessi tilskipun veitir, eins og hún er framkvæmd í aðildarríki vettvangsins ef:
          einhver þeirra fasteigna sem um ræðir er innan yfirráðasvæðis aðildarríkis eða
          í þeim tilvikum að samningur tengist ekki beint fasteign, seljandinn stundar viðskipta- eða atvinnustarfsemi í aðildarríki eða á einhvern annan hátt beinir slíkri starfsemi til aðildarríkis og samningurinn fellur innan ramma slíkrar starfsemi.

13. gr.


Dóms- og stjórnsýsluúrlausn


1.     Með hagsmuni neytenda í huga skulu aðildarríki sjá til þess að til séu fullnægjandi og skilvirk úrræði til að tryggja að seljendur fari að ákvæðum þessarar tilskipunar.
2.     Meðal þeirra úrræða, sem um getur í 1. mgr., skulu vera ákvæði sem einn eða fleiri eftirtalinna aðila geta, eins og ákvarðast af landslögum, nýtt sér til að hefja mál fyrir dómstólum eða þar til bærum stjórnsýslustofnunum til að tryggja að ákvæðum landslaga sé beitt til framkvæmdar þessarar tilskipunar:
     a)      opinberir aðilar og yfirvöld eða fulltrúar þeirra,
     b)      neytendasamtök sem hafa lögmæta hagsmuni af því að vernda neytendur,
     c)      fagfélög sem hafa lögmæta hagsmuni af því að grípa til slíkrar aðgerðar.

14. gr.


Neytendaupplýsingar og úrlausn utan dómstóla


1.     Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að veita neytendum upplýsingar um landsbundin lög til lögleiðingar þessari tilskipun og skulu, eftir því sem við á, hvetja seljendur og reglusetningaraðila til að veita neytendum upplýsingar um siðareglur sínar.
Framkvæmdastjórnin skal hvetja til þess á vettvangi Bandalagsins, einkum meðal fagaðila, samtaka og stofnana, að samdar verði siðareglur sem miða að því að greiða fyrir framkvæmd þessarar tilskipunar í samræmi við lög Bandalagsins. Hún skal einnig hvetja seljendur og atvinnusamtök þeirra til að upplýsa neytendur um slíkar reglur, þ.m.t., eftir því sem við á, með sérstökum merkingum.
2.     Aðildarríki skulu hvetja til þess að komið verði á viðeigandi og skilvirkri málsmeðferð við að fjalla um kvartanir og leita lausna utan réttar í deilumálum neytenda samkvæmt þessari tilskipun og skulu, eftir því sem við á, hvetja seljendur og atvinnusamtök þeirra til að upplýsa neytendur um aðgengi að slíkri málsmeðferð.

15. gr.


Viðurlög


1.     Aðildarríki skulu kveða á um hæfileg viðurlög í þeim tilvikum þegar seljandi uppfyllir ekki ákvæði landslaga sem samþykkt eru samkvæmt þessari tilskipun.
2.     Þessi viðurlög skulu vera árangursrík, í réttu hlutfalli við brot og letjandi.

16. gr.


Lögleiðing


1.     Aðildarríkin skulu samþykkja og birta nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari eigi síðar en 23. febrúar 2011. Þau skulu þegar í stað senda framkvæmdastjórninni texta þessara ákvæða.
Þau skulu beita þessum ákvæðum frá 23. febrúar 2011.
Þegar aðildarríkin samþykkja þessi ákvæði skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þau eru birt opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.
2.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni helstu ákvæði úr landslögum sem þau samþykkja um málefni sem tilskipun þessi tekur til.

17. gr.


Endurskoðun


Framkvæmdastjórnin skal endurskoða þessa tilskipun og leggja skýrslu um málið fyrir Evrópuþingið og ráðið eigi síðar en 23. febrúar 2014.
Ef nauðsyn ber til skal hún gera frekari tillögur um aðlögun hennar að þróun mála á þessu sviði.
Framkvæmdastjórnin getur farið fram á upplýsingar frá aðildarríkinu og stjórnvöldum í hverju aðildarríki fyrir sig.

18. gr.


Niðurfelling


Tilskipun 94/47/EB falli úr gildi. Líta ber á tilvísanir í niðurfelldu tilskipunina sem tilvísanir í þessa tilskipun og skulu þær lesnar með hliðsjón af samsvörunartöflunni í VI. viðauka.

19. gr.


Gildistaka


Tilskipun þessi öðlast gildi á tuttugasta degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

20. gr.


Viðtakendur


Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.
Gjört í Strassborg 14. janúar 2009.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
H.-G. PÖTTERING A. VONDRA
forseti. forseti.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




I. VIÐAUKI
STAÐLAÐ UPPLÝSINGAEYÐUBLAÐ FYRIR SKIPTILEIGUSAMNINGA
1. hluti:
Auðkenni, búsetustaður og réttarstaða seljanda eða seljenda sem verða aðilar að samningnum:
Stutt lýsing á kostinum (t.d. lýsing á fasteign):
Nákvæmar upplýsingar um eiginleika og inntak réttindanna:
Nákvæmar upplýsingar um á hvaða tímabili er unnt að nýta sér réttindin sem samningurinn fjallar um og, ef þörf krefur, hversu lengi það fyrirkomulag varir:
Frá hvaða degi neytandi getur nýtt sér samningsréttindi sín:
Ef samningurinn varðar tiltekna eign á byggingarstigi, dagurinn þegar gistiaðstaða og þjónustuaðstaða verða fullfrágengnar/aðgengilegar:
Verðið sem neytandinn þarf að greiða fyrir réttindin:
Yfirlit yfir skyldubundinn viðbótarkostnað sem greiða skal samkvæmt samningnum, tegund kostnaðar og upplýsingar um fjárhæð (t.d. árgjöld, önnur reglubundin gjöld, sérstakar álögur, staðbundnir skattar):
Samantekt lykilþjónustu sem neytandinn hefur aðgang að (t.d. rafmagn, vatn, viðhald, sorphirða) og upplýsingar um þá fjárhæð sem neytandinn þarf að greiða fyrir slíka þjónustu.
Samantekt aðstöðu sem neytandinn hefur aðgang að (t.d. sundlaug eða gufubað):
Er þessi aðstaða innifalin í þeim kostnaði sem er tilgreindur hér að framan?
Ef ekki, tilgreinið það sem er innifalið og hvað þarf að greiða fyrir:
Er mögulegt að ganga inn í skiptikerfi?
Ef já, hvað heitir skiptikerfið?
Upplýsingar um kostnað vegna aðildar/skipta:
Hefur seljandi undirritað siðareglur og ef svo er, hvar er hægt að nálgast þær?

2. hluti:
Almennar upplýsingar:
          Neytandinn hefur rétt til að falla frá þessum samningi án þess að tilgreina nokkra ástæðu innan 14 almanaksdaga frá gerð samningsins eða annarra bindandi bráðabirgðasamninga eða við viðtöku þeirra samninga ef það á sér stað síðar.
          Á meðan fresturinn til að falla frá samningi varir eru allar fyrirframgreiðslur frá neytanda bannaðar. Bannið varðar allar greiðslur, þ.m.t. greiðslur, ábyrgðaveitingar, geymsla peninga á reikningum, bein skuldarviðurkenning o.s.frv. Þetta nær ekki aðeins yfir greiðslur til seljanda heldur einnig til þriðju aðila.
          Neytandinn skal ekki bera neinn kostnað eða skyldur aðrar en þær sem eru tilgreindar í samningnum.
          Samkvæmt alþjóðlegum einkamálarétti getur samningurinn fallið undir önnur lög en þess aðildarríkis þar sem neytandinn er búsettur eða þar sem hann er venjulega heimilisfastur og mögulegum ágreiningi getur verið vísað til annarra dómstóla en aðildarríkisins þar sem neytandinn er búsettur eða venjulega heimilisfastur.
Undirritun neytanda:

3. hluti:
Viðbótarupplýsingar sem neytandinn á rétt á og þess getið hvar er hægt að nálgast þær nákvæmlega (t.d. í hvaða kafla almenns kynningarbæklings) ef það er ekki tekið fram hér að aftan:
1. UPPLÝSINGAR UM RÉTTINDIN SEM ERU KEYPT
          Skilyrðin fyrir nýtingu réttindanna, sem felast í samningnum, á yfirráðasvæði aðildarríkisins eða aðildarríkjanna þar sem viðkomandi eign eða eignir eru og upplýsingar um hvort þessi skilyrði hafa verið uppfyllt eða, ef þau hafa ekki verið uppfyllt, hvaða skilyrði eru óuppfyllt.
          Ef samningurinn veitir réttindi til að nýta gistiaðstöðu, sem valin er úr hópi fleiri en einnar gistiaðstöðu, upplýsingar um takmarkanir á möguleikum neytandans til að nota hvaða gistiaðstöðu sem er úr hópnum á hvaða tíma sem er.
2. UPPLÝSINGAR UM EIGNIRNAR
          Ef samningurinn varðar ákveðna fasteign, nákvæm og sundurliðuð lýsing á þeirri eign og staðsetningu hennar. Ef samningurinn varðar margar eignir (margir dvalarstaðir), viðeigandi lýsing á eignunum og staðsetningu þeirra. Ef samningurinn varðar aðra gistiaðstöðu en fasteign, viðeigandi lýsing á vistaverunum og aðstöðunni.
          Þjónusta (t.d. rafmagn, vatn, viðhald, sorphirða) sem neytandinn hefur eða mun hafa aðgang að og skilyrði þar að lútandi.
          Eftir atvikum, sameiginleg aðstaða, s.s. sundlaug, gufubað o.s.frv., sem neytandinn hefur aðgang að eða gæti haft aðgang að og skilyrði þar að lútandi.
3. VIÐBÓTARKRÖFUR VARÐANDI GISTIAÐSTÖÐU Á BYGGINGARSTIGI (eftir atvikum)
          Hversu langt bygging gistiaðstöðunnar er komin og hversu vel miðar að ganga frá þjónustulögnum sem eru nauðsynlegar til að unnt sé að taka fasteignina ínotkun (hvort búið er að tengja gas, rafmagn, vatn og síma) og alls konar aðstöðu sem neytandinn mun hafa aðgang að.
          Hvenær gistiaðstaðan verður tilbúin og búið að ganga frá þjónustulögnum sem gera hana starfhæfa að fullu (gas, rafmagn, vatn og sími) og raunsætt mat á því hvenær öll aðstaða, sem neytandi mun hafa aðgang að, verður tilbúin.
          Fjöldi byggingaleyfa og nafn eða nöfn og fullt heimilisfang eða heimilisföng lögbærs yfirvalds eða yfirvalda.
          Trygging fyrir því að gengið verði til fulls frá gistiaðstöðunni eða trygging fyrir endurgreiðslu á innborgunum ef frágangi gistiaðstöðunnar verður ekki lokið og, eftir því sem við á, með hvaða skilyrðum þessi trygging er sett.
4. UPPLÝSINGAR UM KOSTNAÐ
          Nákvæm og viðeigandi lýsing á öllum kostnaði sem tengist skiptileigusamningnum, hvernig þessi kostnaður reiknast á neytandann og hvernig og hvenær heimilt er að hækka slíkan kostnað, aðferðir við útreikning á fjárhæð gjalda sem fylgja nýtingu á eigninni, lögboðin gjöld (t.d. skattar og álögur) og stjórnunarkostnaður (t.d. rekstur, viðhald og viðgerðir).
          Eftir atvikum, upplýsingar um hvort einhver gjöld, veðlán, kvaðir eða einhver önnur skráð veð á hvíla á gistiaðstöðunni.
5. UPPLÝSINGAR UM UPPSÖGN SAMNINGS
          Eftir því sem við á, upplýsingar um fyrirkomulag á uppsögn fylgisamninga og afleiðingar slíkrar uppsagnar.
          Skilyrði fyrir uppsögn samnings, afleiðingar uppsagnar og upplýsingar um ábyrgð neytanda á kostnaði sem gæti hlotist af slíkri uppsögn.
6. VIÐBÓTARUPPLÝSINGAR
          Upplýsingar um hvernig skipulagi á viðhaldi og viðgerðum eignarinnar og stjórnun hennar og rekstri er háttað, þ.m.t. hvort og hvernig neytandinn getur haft áhrif á og tekið þátt í ákvörðunum um þessi mál.
          Upplýsingar um hvort hægt er að gerast aðili að endursölukerfi á samningsbundna réttinum, upplýsingar um viðkomandi kerfi og upplýsingar um kostnað varðandi endursölu í gegnum þetta kerfi.
          Upplýsingar um eitt tungumál eða fleiri sem hægt er að nota til að eiga samskipti við seljandann vegna samningsins, t.d. í tengslum við stjórnunarákvarðanir, kostnaðaraukningu og meðferð fyrirspurna og kvartana.
          Eftir atvikum, hvort hægt er að leysa deilumál utan dómstóla.
Kvittun fyrir viðtöku upplýsinga:
Undirritun neytanda:


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




II. VIÐAUKI


STAÐLAÐ UPPLÝSINGAEYÐUBLAÐ FYRIR SAMNINGA


UM ORLOFSKOSTI TIL LANGS TÍMA


1. hluti:
Auðkenni, búsetustaður og réttarstaða seljanda eða seljenda sem verða aðilar að samningnum:
Stutt lýsing á kostinum:
Nákvæmar upplýsingar um eiginleika og inntak réttindanna:
Nákvæmar upplýsingar um á hvaða tímabili er unnt að nýta sér réttindin sem samningurinn fjallar um og, ef þörf krefur, hversu lengi það fyrirkomulag varir:
Frá hvaða degi neytandi getur nýtt sér samningsréttindi sín:
Verðið sem neytandinn þarf að greiða fyrir kaup á réttindunum, þ.m.t. allur frekari kostnaður sem neytandinn getur búist við að falli til vegna þeirra réttinda að fá aðgang að gistiaðstöðu, ferðum og hvers konar tengdum kostum eða þjónustu eins og tilgreint er:
Í áætluninni um greiðslu í áföngum eru fastsettar jafnháar afborganir til að greiða þetta verð fyrir hvert ár meðan samningurinn varir og gjalddagar þeirra.
Eftir fyrsta árið má aðlaga síðari fjárhæðir til að tryggja að raungildi þessara afborgana haldist, t.d. taki mið af verðbólgu.
Yfirlit yfir skyldubundinn viðbótarkostnað sem greiða skal samkvæmt samningnum, tegund kostnaðar og upplýsingar um fjárhæðir (t.d. árlegt aðildargjald):
Samantekt lykilþjónustu sem neytandinn hefur aðgang að (t.d.afsláttur á hóteldvöl og flugferðum):
Er hún innifalinn í þeim kostnaði sem er tilgreindur hér að framan?
Ef ekki, tilgreinið það sem er innifalið og hvað þarf að greiða fyrir (t.d. þriggja nátta dvöl sem er innifalin í árlega aðildargjaldinu, greiða þarf sérstaklega fyrir alla aðra gistingu):
Hefur seljandi undirritað siðareglur og ef svo er, hvar er hægt að nálgast þær?

2. hluti:
Almennar upplýsingar:
          Neytandinn hefur rétt til að falla frá þessum samningi án þess að tilgreina nokkra ástæðu innan 14 almanaksdaga frá gerð samningsins eða annarra bindandi bráðabirgðasamninga eða við viðtöku þeirra samninga ef það á sér stað síðar.
          Á meðan fresturinn til að falla frá samningi varir eru allar fyrirframgreiðslur frá neytanda bannaðar. Bannið varðar allar greiðslur, þ.m.t. greiðslur, ábyrgðaveitingar, geymsla peninga á reikningum, bein skuldarviðurkenning o.s.frv. Þetta nær ekki aðeins yfir greiðslur til seljanda heldur einnig til þriðju aðila.
          Neytandinn hefur rétt til að segja samningnum upp án þess að það hafi í för með sér sektir, með því að tilkynna seljanda það innan 14 almanaksdaga frá viðtöku greiðslubeiðni fyrir hverja árlegra afborgun fyrir sig.
          Neytandinn skal ekki bera neinn kostnað eða skyldur aðrar en þær sem eru tilgreindar í samningnum.
          Samkvæmt alþjóðlegum einkamálarétti getur samningurinn fallið undir önnur lög en þess aðildarríkis þar sem neytandinn er búsettur eða þar sem hann er venjulega heimilisfastur og mögulegum ágreiningi getur verið vísað til annarra dómstóla en aðildarríkisins þar sem neytandinn er búsettur eða venjulega heimilisfastur.
Undirritun neytanda:

3. hluti:
Viðbótarupplýsingar sem neytandinn á rétt á og þess getið hvar er hægt að nálgast þær nákvæmlega (t.d. í hvaða kafla almenns kynningarbæklings) ef það er ekki tekið fram hér að aftan:
1. UPPLÝSINGAR UM RÉTTINDIN SEM ERU KEYPT
          Viðeigandi og rétt lýsing á afsláttum sem gilda um bókanir í framtíðinni, útskýrð með dæmum af nýlegum tilboðum,
          Upplýsingar um takmarkanir á möguleika neytandans til að nýta réttindin, s.s. takmarkað framboð eða tilboð sem grundvallast á reglunni um að fyrstir koma fyrstir fá, tímamörkum á sérstökum kynningar- og sértilboðum.
2. UPPLÝSINGAR UM UPPSÖGN SAMNINGS
          Eftir því sem við á, upplýsingar um fyrirkomulag á uppsögn fylgisamninga og afleiðingar slíkrar uppsagnar.
          Skilyrði fyrir uppsögn samnings, afleiðingar uppsagnar og upplýsingar um ábyrgð neytanda á kostnaði sem gæti hlotist af slíkri uppsögn.
3. VIÐBÓTARUPPLÝSINGAR
          Upplýsingar um eitt tungumál eða fleiri sem hægt er að nota til að eiga samskipti við seljandann vegna samningsins, t. d. í tengslum við meðferð fyrirspurna og kvartana.
          Eftir atvikum, hvort hægt er að leysa deilumál utan dómstóla.
Kvittun fyrir viðtöku upplýsinga:
Undirritun neytanda:


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




III. VIÐAUKI
STAÐLAÐ UPPLÝSINGAEYÐUBLAÐ FYRIR ENDURSSÖLUSAMNINGA
1. hluti:
Auðkenni, búsetustaður og réttarstaða seljanda eða seljenda sem verða aðilar að samningnum:
Stutt lýsing á þjónustunni (t.d. markaðssetningu)
Gildistími samningsins:
Verðið sem neytandinn þarf að greiða fyrir þjónustuna:
Yfirlit yfir skyldubundinn viðbótarkostnað sem greiða skal samkvæmt samningnum, tegund kostnaðar og upplýsingar um fjárhæðir (t.d. staðbundnir skattar, gjald fyrir þjónustu lögbókanda, auglýsingakostnaður):
Hefur seljandi undirritað siðareglur og ef svo er, hvar er hægt að nálgast þær?

2. hluti:
Almennar upplýsingar:
          Neytandinn hefur rétt til að falla frá þessum samningi án þess að tilgreina nokkra ástæðu innan 14 almanaksdaga frá gerð samningsins eða annarra bindandi bráðabirgðasamninga eða við viðtöku þessara samninga ef það á sér stað síðar.
          Allar fyrirframgreiðslur frá neytanda eru bannaðar þar til raunveruleg sala hefur farið fram eða endursölusamningnum hefur verið sagt upp. Bannið varðar allar greiðslur, þ.m.t. greiðslur, ábyrgðaveitingar, geymsla peninga á reikningum, bein skuldarviðurkenning o.s.frv. Þetta nær ekki aðeins yfir greiðslur til seljanda heldur einnig til þriðju aðila.
          Neytandinn skal ekki bera neinn kostnað eða skyldur aðrar en þær sem eru tilgreindar í samningnum.
          Samkvæmt alþjóðlegum einkamálarétti getur samningurinn fallið undir önnur lög en þess aðildarríkis þar sem neytandinn er búsettur eða þar sem hann er venjulega heimilisfastur og mögulegum ágreiningi getur verið vísað til annarra dómstóla en aðildarríkisins þar sem neytandinn er búsettur eða venjulega heimilisfastur.
Undirritun neytanda:

3. hluti:
Viðbótarupplýsingar sem neytandinn á rétt á og þess getið hvar er hægt að nálgast þær nákvæmlega (t.d. í hvaða kafla almenns kynningarbæklings) ef það er ekki tekið fram hér að aftan:
Skilyrði fyrir uppsögn samningsins, afleiðingar uppsagnar og upplýsingar um ábyrgð neytanda á kostnaði sem gæti hlotist af slíkri uppsögn.
Upplýsingar um eitt tungumál eða fleiri sem hægt er að nota til að eiga samskipti við seljandann vegna samningsins, t.d. í tengslum við meðferð fyrirspurna og kvartana.
Eftir atvikum, hvort hægt er að leysa deilumál utan dómstóla.
Kvittun fyrir viðtöku upplýsinga:
Undirritun neytanda:


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




IV. VIÐAUKI
STAÐLAÐ UPPLÝSINGAEYÐUBLAÐ FYRIR SKIPTISAMNINGA
1. hluti:
Auðkenni, búsetustaður og réttarstaða seljanda eða seljenda sem verða aðilar að samningnum:
Stutt lýsing á kostinum:
Nákvæmar upplýsingar um eiginleika og inntak réttindanna:
Nákvæmar upplýsingar um á hvaða tímabili er unnt að nýta sér réttindin sem samningurinn fjallar um og, ef þörf krefur, hversu lengi það fyrirkomulag varir:
Frá hvaða degi neytandi getur nýtt sér samningsréttindi sín:
Verðið sem neytandinn þarf að greiða fyrir aðild að skiptisamningnum:
Yfirlit yfir skyldubundinn viðbótarkostnað sem greiða skal samkvæmt samningnum, tegund kostnaðar (t.d. endurnýjunargjöld, önnur reglubundin gjöld, sérstakar álögur, staðbundnir skattar):
Samantekt lykilþjónustu sem neytandinn hefur aðgang að:
Er hún innifalin í þeim kostnaði sem er tilgreindur hér að framan?
Ef ekki, tilgreinið það sem er innifalið og hvað þarf að greiða fyrir (tegund kostnaðar og upplýsingar um fjárhæðir, t.d. áætlað verð sem ber að greiða fyrir sérstök viðskipti, þ.m.t. öll viðbótargjöld):
Hefur seljandi undirritað siðareglur og ef svo er, hvar er hægt að nálgast þær?

2. hluti:
Almennar upplýsingar:
          Neytandinn hefur rétt til að falla frá þessum samningi án þess að tilgreina nokkra ástæðu innan 14 almanaksdaga frá gerð samningsins eða annarra bindandi bráðabirgðasamninga eða við viðtöku þeirra samninga ef það á sér stað síðar. Í þeim tilvikum þegar neytanda er boðinn skiptisamningur ásamt og samtímis skiptileigusamningi gildir einungis einn frestur til að falla frá samningi fyrir báða samningana.
          Á meðan fresturinn til að falla frá samningi varir eru allar fyrirframgreiðslur frá neytanda bannaðar. Bannið varðar allar greiðslur, þ.m.t. greiðslur, ábyrgðaveitingar, geymsla peninga á reikningum, bein skuldarviðurkenning, o.s.frv. Þetta nær ekki aðeins yfir greiðslur til seljanda heldur einnig til þriðju aðila.
          Neytandinn skal ekki bera neinn kostnað eða skyldur aðrar en þær sem eru tilgreindar í samningnum.
          Samkvæmt alþjóðlegum einkamálarétti getur samningurinn fallið undir önnur lög en þess aðildarríkis þar sem neytandinn er búsettur eða þar sem hann er venjulega heimilisfastur og mögulegum ágreiningi getur verið vísað til annarra dómstóla en aðildarríkisins þar sem neytandinn er búsettur eða venjulega heimilisfastur.
Undirritun neytanda:

3. hluti:
Viðbótarupplýsingar sem neytandinn á rétt á og þess getið hvar er hægt að nálgast þær nákvæmlega (t.d. í hvaða kafla almenns kynningarbæklings) ef það er ekki tekið fram hér að aftan:
1. UPPLÝSINGAR UM RÉTTINDIN SEM ERU KEYPT
          Útskýringar á því hvernig skiptikerfið virkar. Möguleikar og fyrirkomulag skiptanna, upplýsingar um virði skiptileigunnar sem neytandanum er úthlutað í skiptikerfinu og raunveruleg dæmi um skiptimöguleika.
          Upplýsingar um fjölda tiltækra dvalarstaða og fjölda aðila að skiptikerfinu, þ.m.t. takmarkanir á aðgengi að sérstakri gistiðastöðu sem neytandinn velur, t.d. á háannatíma þegar hugsanlega þarf að bóka með löngum fyrirfara, sem og upplýsingar um hvers konar takmarkanir á valinu sem leiðir af skiptileigaréttindunum sem neytandinn lagði inn í skiptikerfið.
2. UPPLÝSINGAR UM EIGNIRNAR
          Stutt viðeigandi lýsing á eignunum og staðsetningu þeirra, ef samningurinn varðar aðra gistiaðstöðu en fasteignir, viðeigandi lýsing á vistarverunum og aðstöðunni, lýsing á því hvar neytandinn getur fengið frekari upplýsingar.
3. UPPLÝSINGAR UM KOSTNAÐ
          Upplýsingar um skyldur seljanda til að veita upplýsingar, áður en skipti eru skipulögð og fyrir hverja tillögu um skipti, um öll viðbótargjöld sem neytandinn er ábyrgur fyrir vegna skiptanna.
4. UPPLÝSINGAR UM UPPSÖGN SAMNINGS
          Eftir því sem við á, upplýsingar um fyrirkomulag á uppsögn fylgisamninga og afleiðingar slíkrar uppsagnar.
          Skilyrði fyrir uppsögn samnings, afleiðingar uppsagnar og upplýsingar um ábyrgð neytanda á kostnaði sem gæti hlotist af slíkri uppsögn.
5. VIÐBÓTARUPPLÝSINGAR
          Upplýsingar um eitt tungumál eða fleiri sem hægt er að nota til að eiga samskipti við seljandann vegna samningsins, t. d. í tengslum við meðferð fyrirspurna og kvartana.
          Eftir atvikum, hvort hægt er að leysa deilumál utan dómstóla.
Kvittun fyrir viðtöku upplýsinga:
Undirritun neytanda:


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



V. VIÐAUKI
SÉRSTAKT STAÐLAÐ UPPSAGNAREYÐUBLAÐ TIL AÐ AUÐVELDA
BEITINGU RÉTTAR TIL AÐ FALLA FRÁ SAMNINGI

Réttur til að falla frá samningi

Neytandinn hefur rétt til að falla frá þessum samningi án þess að tilgreina nokkra ástæðu innan 14 almanaksdaga.
Réttur til að falla frá samningi hefst (útfyllist af seljanda áður en neytandinn fær eyðublaðið).
Ef neytandi hefur ekki fengið þetta eyðublað hefst frestur til að falla frá samningi þegar neytandinn hefur fengið eyðublaðið, en honum lýkur í öllum tilvikum eftir eitt ár og 14 almanaksdaga.
Ef neytandi hefur ekki fengið allar tilskildar upplýsingar hefst frestur til að falla frá samningi þegar neytandinn hefur fengið upplýsingarnar, en honum líkur í öllum tilfellum eftir þrjá mánuði og 14 almanaksdaga.
Til að nýta rétt til að falla frá samningi skal neytandinn tilkynna það til seljanda, nota nafn og heimilisfang sem er tilgreint hér að aftan, á varanlegum miðli (t.d. ritað bréf sem sent er með pósti eða tölvupósti). Neytandinn getur notað þetta eyðublað en það er ekki skyldubundið.
Ef neytandi nýtir rétt til að falla frá samningi ber hann ekki ábyrgð á neinum kostnaði.
Auk réttarins til að falla frá samningi geta samningalög hvers ríkis kveðið á um neytendarétt, t.d. til að segja upp samningi ef því er sleppt að veita einhverjar upplýsingar.

Bann við fyrirframgreiðslum

Meðan frestur til að falla frá samningi varir eru allar fyrirframgreiðslur frá neytanda bannaðar. Bannið varðar allar greiðslur, þ.m.t. greiðslur, ábyrgðaveitingar, geymsla peninga á reikningum, bein skuldarviðurkenning, o.s.frv.
Þetta nær ekki aðeins yfir greiðslur til seljanda heldur einnig til þriðju aðila.

Tilkynning um uppsögn

          Til (nafn og heimilisfang seljanda) (*):
          Ég/við (**) tilkynni/tilkynnum hér með að ég/við (**) falli/föllum frá samningnum.
          Dagsetning undirritunar samningsins(*):
          Nafn neytanda/neytenda (***):
          Heimilisfang eða heimilisföng neytanda/neytenda (***):
          Undirritun neytanda/neytenda (einungis ef þetta eyðublað er á pappírsformi) (***):
          Dagsetning (***):
(*) Útfyllist af seljanda áður en neytandinn fær eyðublaðið.
(**) Strikið yfir það sem á ekki við.
(***) Útfyllist af neytandanum/neytendunum ef þetta eyðublað er notað til að falla frá samningnum.

Kvittun fyrir viðtöku upplýsinga:
Undirritun neytanda:


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




VI. VIÐAUKI
SAMSVÖRUNARTAFLA MILLI ÁKVÆÐA ÞESSARAR TILSKIPUNAR
OG TILSKIPUNAR 94/47/EB

Tilskipun 94/47/EB

Þessi tilskipun

Fyrsta málsgrein 1.gr.
Önnur málsgrein 1. gr.
Þriðja málsgrein. 1. gr.
Fyrsti undirliður 2. gr.



Annar undirliður 2. gr.
Þriðji undirliður 2. gr.
Fjórði undirliður 2. gr.





1. mgr. 3. gr.
2. mgr. 3. gr.
3. mgr. 3. gr.



Fyrsti undirliður 4. gr.
Annar undirliður 4. gr.



Inngangsmálsliður 1. mgr. 5. gr.
Fyrsti undirliður 1. mgr. 5. gr.
Annar undirliður 1. mgr. 5. gr.
Þriðji undirliður 1. mgr. 5. gr.

1. mgr. 1. gr. og fyrsta undirgrein, 2. mgr. 1. gr.

Önnur undirgrein 2. mgr. 1. gr.
a-liður 1. mgr. 2. gr.
b-liður 1. mgr. 2. gr. (nýtt)
c-liður 1. mgr. 2. gr. (nýtt)
d-liður 1. mgr. 2. gr. (nýtt)

e-liður 1. mgr. 2. gr.
f-liður 1. mgr. 2. gr.
g-liður 1. mgr. 2. gr. (nýtt)
h-liður 1. mgr. 2. gr. (nýtt)
i-liður 1. mgr. 2. gr. (nýtt)
j-liður 1. mgr. 2. gr. (nýtt)
2. mgr. 2. gr. (nýtt)
1. mgr. 4. gr.
2. mgr. 5. gr.
1. mgr. 3. gr.
2. mgr. 3. gr. (nýtt)
3. mgr. 3. gr. (nýtt)
3. mgr. 4. gr. (nýtt)
Fyrsta undirgrein, 1. mgr. 5. gr. og fyrsta undirgrein 2. mgr. 5. gr.
3. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 5. gr.
2. mgr. 4. gr. (nýtt)
4. mgr. 5. gr. (nýtt)
5. mgr. 5. gr. (nýtt)
1. mgr. 6. gr.
1. mgr. 6. gr. og 2. mgr. 6. gr.
3. mgr. 6. gr. og 4. mgr. 6. gr.
3. mgr. 6. gr.
5. mgr. 6. gr. (nýtt)

     Tilskipun 94/47/EB

Þessi tilskipun

2. mgr. 5. gr.

3. mgr. 5. gr.
4. mgr. 5. gr.
6. gr.




Fyrsta málsgrein 7.gr.
Önnur málsgrein 7. gr.
8. gr.
9. gr.
10. gr.
11. gr.


12. gr.



13. gr.
Viðauki
a-liður í viðaukanum
b-liður í viðaukanum
7. gr.
1. mgr. 8. gr. (nýtt)
2. mgr. 8. gr.
2. mgr. 8. gr.
1. mgr. 9. gr.
2. mgr. 9. gr. (nýtt)
1. mgr. 10. gr. (nýtt)
2. mgr. 10. gr. (nýtt)
1. mgr. 11. gr. (nýtt)
2. mgr. 11. gr.
3. mgr. 11. gr.
1. mgr. 12. gr.
2. mgr. 12. gr.
13. og 15. gr.

1. mgr. 14. gr. (nýtt)
2. mgr. 14. gr. (nýtt)
16. gr.
17. gr. (nýtt)
18. gr. (nýtt)
19. gr. (nýtt)
20. gr.
I. viðauki
a-liður 3. mgr. 5. gr. og 1. reitur 1. hluta I. viðauka
Þriðji rammi 1. hluta I. viðauka og fyrstir undirliður 1. liðar 3. hluta I. viðauka
c-liður í viðaukanum
Annar reitur 1. hluta I. viðauka og fyrsti undirliður 2. liðar 3. hluta I. viðauka
d-liður 1. liðar, í viðaukanum
d-liður 2. liðar, í viðaukanum
Fyrsti undirliður 3. liðar, 3. hluta, I. viðauka
Fjórði reitur 1. hluta I. viðauka og annar undirliður 3. liðar 3. hluta I. viðauka
d-liður 3. liðar, í viðaukanum
d-liður 4. liðar í viðaukanum
d-liður 5. liðar í viðaukanum
e-liður í viðaukanum
Þriðji undirliður 3. liðar 3. hluta, I. viðauka
Fyrsti undirliður 3. liðar 3. hluta I. viðauka
Fjórði undirliður 3. liðar 3. hluta I. viðauka
Sjötti reitur 1. hluta I. viðauka og annar undirliður 2. liðar 3. hluta I. viðauka

Tilskipun 94/47/EB

Þessi tilskipun

f-liður í viðaukanum
Sjötti reitur 1. hluta I. viðauka og þriðji undirliður 2. liðar 3. hluta I. viðauka
g-liður í viðaukanum
h-liður í viðaukanum
i-liður í viðaukanum
Fyrsti undirliður 6. liðar 3. hluta I. viðauka
Fjórði reitur 1. hluta I. viðauka
Fimmti og sjötti reitur 1. hluta I. viðauka og fyrsti undirliður 4. liðar 3. hluta I. viðauka
j-liður í viðaukanum
k-liður í viðaukanum
Þriðji undirliður 2. hluta I. viðauka
Sjöundi reitur 2. hluta I. viðauka og annar undirliður 6. liðar 3. hluta I. viðauka
l-liður í viðaukanum
Fyrsti og þriðji undirliður 2. hluta I. viðauka, fyrsti undirliður 5. liðar 3. hluta I. viðauka og V. viðauki (nýtt)
m-liður í viðaukanum









b-liður 3. mgr. 5. gr.
Áttundi reitur 1. hluta I. viðauka (nýtt)
Annar undirliður 2. hluta I. viðauka (nýtt)
Fjórði undirliður 2. hluta I. viðauka (nýtt)
Annar undirliður 1. liðar 3. hluta I. viðauka (nýtt)
Annar undirliður 4. liðar 3. hluta I. viðauka (nýtt)
Annar undirliður 5. liðar 3. hluta I. viðauka (nýtt)
Þriðji undirliður 6. liðar 3. hluta I. viðauka (nýtt)
Fjórði undirliður 6. liðar 3. hluta I. viðauka (nýtt)
II. til V. viðauki (nýtt)
Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L 73, 19.3.2009, bls. 53, og EES-viðbætir við Stjtíð. ESB nr. 16, 19.3.2009, bls. 24.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. ESB L 33, 3.2.2009, bls. 10.
Neðanmálsgrein: 3
(3)    Stjtíð. EB L 280, 29.10.1994, bls. 83.
Neðanmálsgrein: 4
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 5
(1)    Stjtíð. ESB C 44, 16.2.2008, bls. 27.
Neðanmálsgrein: 6
(2)    Álit Evrópuþingsins frá 22. október 2008 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum ESB) og ákvörðun ráðsins frá 18. desember 2008.
Neðanmálsgrein: 7
(3)    Stjtíð. EB L 280, 29.10. 1994, bls. 83.
Neðanmálsgrein: 8
(1)    Stjtíð. EB L 158, 23.6. 1990, bls. 59.
Neðanmálsgrein: 9
(2)    Stjtíð. EB L 149, 11.6. 2005, bls. 22.
Neðanmálsgrein: 10
(3)    Stjtíð. EB L 124, 8.6. 1971, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 11
(1)    Stjtíð. EB L 177, 4.7. 2008, bls. 6.
Neðanmálsgrein: 12
(2)    Stjtíð. EB L 12, 16.1. 2001, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 13
(1)    Stjtíð. ESB C 321, 16.2.2008, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 14
(1)    Stjtíð. EB L 177, 4.7. 2008, bls. 6.