Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 498. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 925  —  498. mál.




Svar



forseta Alþingis við fyrirspurn Margrétar Tryggvadóttur um öryggismyndavélar og verklagsreglur um boðun lögreglu.

     1.      Hvaða lagaákvæði og reglur gilda um upptökur með öryggismyndavélum Alþingis?
    Rafræn vöktun með öryggismyndavélum á vegum Alþingis er í þágu öryggis og eignavörslu. Um vöktunina fer samvæmt lögum 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sbr. einkum 6. tölul. 2. gr., 4. gr., 2. mgr. 9. gr., 24. gr. og 5. mgr. 37. gr. laganna, og reglum nr. 837/2006, um rafræna vöktun.

     2.      Hversu lengi eru upptökur úr öryggismyndavélum Alþingis varðveittar?
    Um varðveislu efnis sem til verður með upptöku öryggismyndavéla á vegum Alþingis fer skv. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000, sbr. einkum 3. tölul. ákvæðisins og reglur nr. 837/2006, sbr. einkum 7. gr. reglnanna. Upplýsingar sem til verða við rafræna vöktun eru ekki varðveittar lengur en málefnalegar ástæður leyfa og aldrei lengur en 90 daga.

     3.      Hver tekur ákvarðanir um varðveislu gagna úr öryggiskerfum þingsins?
    Þegar um er að ræða slys eða meintan refsiverðan verknað eru afrit gagna úr öryggismyndavélum afhent lögreglu. Ákvörðun um slíkt taka stjórnendur þingvörslu í samráði við skrifstofustjóra Alþingis.

     4.      Hvaða verklagsreglur gilda um boðun lögreglu til aðstoðar öryggisvörslu á Alþingi og eru mismunandi viðbúnaðarstig skilgreind í þeim reglum?
    Þingvarsla Alþingis annast öryggisgæslu í húsnæði Alþingis. Á hennar vegum er gætt að eignum þingsins og sinnt gæslu með aðgangi almennings að þingpöllum og öðru húsnæði þingsins. Auk þingvarða er lögreglumaður ávallt á vakt á þingfundartíma. Að öðru leyti fer um samvinnu við lögreglu eftir aðstæðum hverju sinni.