Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 341. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 970  —  341. mál.




Svar



velferðarráðherra við fyrirspurn Gunnars Braga Sveinssonar um afdrif sérgreinaþjónustu St. Jósefsspítala.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvert verður þeim konum vísað sem hingað til hafa notið þjónustu St. Jósefsspítala sem er sérgreinasjúkrahús á sviði kvenskurðlækninga og meltingarfærasjúkdóma sem eru algengari hjá konum en körlum? Er annars staðar aðstaða og mannafli með slíka sérþekkingu?

    Heilbrigðisráðherra ákvað með bréfi, dags. 3. desember 2010, að sameina Landspítala og St. Jósefsspítala frá og með 1. febrúar 2011. Verkefnisstjórn var skipuð til þess að undirbúa sameininguna og var henni m.a. falið að fjalla um skurðstofur, göngudeild meltingarsjúkdóma, lyflækningar og fleiri mál.
    Verkefnisstjórnin skilaði ráðherra tillögum sínum á tilætluðum tíma í janúar 2011. Þar er lagt til að starfsemi skurðstofu og handlækningadeildar verði flutt frá St. Jósefsspítala yfir á Landspítala. Hið sama á við um meltingarlækningar og tengda starfsemi. Nánari útfærsla á þessum atriðum var lögð fram af hálfu undirhópa er fjölluðu um þessi svið sameiningarinnar.
    Þeim sérgreinum sem spurt er um, þ.e. á sviði kvenskurðlækninga og meltingarfærasjúkdóma, verður samkvæmt áætluninni sinnt á Landspítala þegar að sameiningu kemur en sambærileg aðstaða og sambærilega sérhæfður mannafli er ekki annars staðar.