Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 579. máls.

Þskj. 979  —  579. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 6/2002, um tóbaksvarnir,
með síðari breytingum (skrotóbak).

(Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „að undanskildu skrotóbaki“ í 5. mgr. kemur: þar með talið skrotóbak.
     b.      Á eftir 5. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                   Bannað er að flytja inn, framleiða og selja allt bragð- og lyktblandað reyklaust tóbak.
     c.      Í stað tilvísunarinnar „skv. 8. og 9. mgr.“ í 10. mgr., sem verður 11. mgr., kemur: skv. 9. og 10. mgr.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta hefur verið unnið í samvinnu við Lýðheilsustöð. Markmið þess er að draga úr neyslu á reyklausu tóbaki og því heilsutjóni sem slík neysla veldur, en rannsóknir hafa sýnt að neysla reyklauss tóbaks getur leitt til ýmissa sjúkdóma. Má í því sambandi nefna að í reyklausa tóbakinu eru efni sem geta leitt til krabbameins, þá aðallega í munnholi, vélinda og briskirtli. Neysla reyklauss tóbaks, einkum þess sem tekið er í munn, getur einnig valdið ýmsum tannholssjúkdómum, tannmissi og tannholdsrýrnun en sætuefni sem blandað er við tóbak getur valdið tannskemmdum. Einnig getur neysla reyklauss tóbaks valdið fyrirburafæðingum og meðgöngueitrun og rannsóknir hafa sýnt fram á hugsanleg tengsl milli reyklauss tóbaks og sykursýki, efnaskiptavandamála sem og skaða á hjarta- og æðakerfi.
    Neysla reyklauss tóbaks er ekki síður ávanabindandi en reyktóbaks og inniheldur hið reyklausa tóbak einnig nikótín sem frásogast auðveldlega í gegnum slímhúð í nefi og munni. Nikótín er tegund taugaeiturs sem getur valdið eitureinkennum eins og ógleði og öndunarerfiðleikum sem geta leitt til öndunarstopps og þar með dauða.
    Undanfarin ár hafa reykingar dregist saman en á sama tíma hefur munntóbaksneysla ungs fólks aukist. Að öðru leyti er ekki rétt að bera saman munntóbaksnotkun og reykingar því fátt er eins hættulegt og að reykja og því mun eðlilegra að bera saman munntóbaksneyslu við það að nota ekki munntóbak. Einnig má segja að markaðssetning tóbaksframleiðenda er snýr að notkun reyklauss tóbaks á svæðum þar sem reykingar eru bannaðar dragi almennt úr þeirri stefnu stjórnvalda um heim allan að draga úr tóbaksneyslu.
    Á síðustu árum hefur verið talsverð umræða í samfélaginu um aukna munntóbaksnotkun meðal ungra karlmanna og notkun íslensks neftóbaks sem munntóbaks. Lýðheilsustöð fékk Capacent Gallup til að kanna hver munntóbaksnotkunin væri meðal ungs fólks á aldrinum 16–23 ára. Gerðar voru tvær kannanir, sú fyrri fór fram í október og nóvember 2009 en sú síðari í apríl og maí 2010. Niðurstöður kannananna staðfestu að neyslan væri umtalsverð og að algengast væri að taka íslenskt neftóbak í vörina. Samkvæmt báðum könnunum er neyslan nær eingöngu bundin við pilta, en um 20% pilta segjast nota tóbak í vörina, 15% daglega en 5% sjaldnar en daglega. Má segja að niðurstöðurnar séu í samræmi við síaukna neftóbaksframleiðslu ÁTVR, en hún hefur aukist úr 16,8 tonnum árið 2007 í 25,5 tonn árið 2010.
    Á Íslandi hefur verið bannað með lögum að flytja inn, framleiða og selja fínkornótt neftóbak og munntóbak, að undanskildu skrotóbaki, frá 1. febrúar 1997 er ákvæði laga nr. 101/1996 tóku gildi til að bregðast við tilskipun 92/41/EBE sem gerði aðildarríkjum Evrópusambandsins og EES-ríkjunum skylt að banna munntóbak. Í athugasemdum við framangreint frumvarp var bent á að erlendis hefði mikið borið á þeirri viðleitni tóbaksframleiðenda að markaðssetja nýjar tegundir munntóbaks sem blandaðar voru bragðefnum, svo og lyktarblandað og fínmalað neftóbak. Með þessum nýju gerðum tóbaks væri einkum verið að höfða til ungs fólks með þeim afleiðingum að sums staðar, t.d. í Svíþjóð, væri umtalsverður hluti unglinga farinn að nota reyklaust tóbak að staðaldri. Í athugasemdunum var bent á að þetta tóbak væri ávanabindandi, ekki síður en tóbak sem er reykt.
    Í ljósi reynslunnar í öðrum löndum og aukinnar neyslu ungs fólks á íslenska neftóbakinu sem munntóbaki er talið nauðsynlegt að binda í lög hömlur á frekari vöruþróun reyklauss tóbaks, t.d. með bragð- eða lyktblöndun. Samhliða er gert ráð fyrir banni við innflutningi, framleiðslu og sölu skrotóbaks, en slík ákvæði ganga lengra en ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2001/37/EB um samræmingu ákvæða í lögum og stjórnvaldsfyrirmælum aðildarríkjanna varðandi framleiðslu, kynningu og sölu á tóbaksvörum. Einnig má benda á að samkvæmt upplýsingum frá ÁTVR hefur skrotóbak ekki verið flutt inn eða framleitt á Íslandi síðustu sjö árin þrátt fyrir að heimilt hafi verið samkvæmt íslenskum lögum að flytja inn, framleiða og selja skrotóbak.
    Í a-lið 1. gr. frumvarpsins er lagt til að heimildin fyrir skrotóbak verði afnumin og skrotóbak bannað eins og annað munntóbak. Hér er í raun verið að tryggja að notkun skrotóbaks ryðji sér ekki aftur til rúms hér á landi en ÁTVR hefur ekki haft slíkt tóbak til sölu undanfarin ár.
    Til að koma í veg fyrir aukna notkun á reyklausu tóbaki er í b-lið 1. gr. frumvarpsins lagt til að allt bragð- og lyktblandað reyklaust tóbak verði bannað hér á landi. Markaðssetningu slíks tóbaks hefur einkum verið beint að ungu fólki og því mikilvægt að stemma stigu við slíkri notkun enda mikilvægt forgangsverkefni að reyna að koma í veg fyrir tóbaksnotkun meðal ungs fólks.
    Í frumvarpi þessu er gengið lengra en tilskipun 2001/37/EB kveður á um, en þar er allt munntóbak bannað fyrir utan það sem er tuggið. Þetta er gert til að tryggja almannaheilbrigði hér á landi og hindra að ungt fólk hefji notkun reyklauss tóbaks.
    Þar sem í frumvarpinu er lagt til að sett verði strangari ákvæði hér á landi en ákvæði tilskipunar 2001/37/EB kveða á um þarf frumvarpið að fara í kynningu á EES-svæðinu í samræmi við lög nr. 57/2000, um skipti á upplýsingum um tæknilegar reglur um vörur og fjarþjónustu.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um um breytingu á lögum nr. 6/2002, um tóbaksvarnir, með síðari breytingum (skrotóbak).

    Tilgangur frumvarps þessa er að auka enn frekar varnir gegn notkun á reyklausu tóbaki. Í frumvarpinu er því lagt til að afnema undanþágu á innflutningi, framleiðslu og sölu á skrotóbaki. Jafnframt er lagt til að bannað verði að flytja inn, framleiða og selja allt bragð- og lyktarblandað reyklaust tóbak.
    Samkvæmt upplýsingum Áfengis og tóbaksverslunar ríkisins hefur skrotóbak ekki verið til sölu hér á landi um árabil og engin sala hefur verið á öðru lyktar- og bragðbættu reyklausu tóbaki á undanförnum árum.
    Lögfesting frumvarpsins mun því ekki hafa áhrif á útgjöld og tekjur ríkissjóðs.