Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 434. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 992  —  434. mál.




Svar



velferðarráðherra við fyrirspurn Margrétar Tryggvadóttur um umönnunargreiðslur til foreldra barna með þroska- og atferlisraskanir.

     1.      Hve stór hluti foreldra barna sem greinst hafa með ADHD og tengdar raskanir eða á einhverfurófinu fær umönnunargreiðslur?
    Samtals var 1.481 barn skráð með umönnunarmat hjá Tryggingastofnun ríkisins 1. janúar 2011 sem hafði verið greint með ADHD og tengdar raskanir og einhverfurófsraskanir. Skipting í flokka sést í eftirfarandi töflu. Rétt er að benda á að hluti þeirra barna sem eru greind með ADHD og tengdar raskanir og einhverfurófsraskanir eru einnig með aðrar og alvarlegri greiningar (þroskahömlun, hreyfihömlun eða alvarlega sjúkdóma) eins og sjá má í töflunni. Því miður liggja ekki fyrir upplýsingar um hve mörg börn hafa greinst hér á landi með ADHD og tengdar raskanir og því ekki unnt að meta hve stór hluti foreldra þessara barna fær umönnunargreiðslur.

Flokkur og
greiðsluhlutfall

Fjöldi barna
með fötlun

Fjöldi barna
með sjúkdóma
Fjöldi barna með þroska- og atferlisraskanir Fjöldi barna samtals
1. flokkur
100% 3 3
50% 1 1
Samtals fjöldi barna í 1. flokk 4

2. flokkur
0 4 4
25% 8 8
43% 104 104
85% 37 37
Samtals fjöldi barna í 2. flokk 153
3. flokkur
0 1 1
25% 91 5 96
35% 177 4 7 188
70% 15 1 16
Samtals fjöldi barna í 3. flokk 301
4. flokkur
0 1 33 34
25% 25 6 140 171
Samtals fjöldi barna í 4. flokk 205
5. flokkur
0 1 11 806 818
Samtals fjöldi barna í 5. flokk 818
Alls 468 27 986 1.481
     2.      Úr hvaða bótaflokkum eru slíkar greiðslur, hve háar eru þær og hvaða greining liggur að baki, sundurgreint eftir flokkum raskana?
    Umönnunargreiðslur eru greiddar samkvæmt lögum nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, með síðari breytingum og reglugerð nr. 504/1997, um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna, með síðari breytingum. Í 5. gr. reglugerðarinnar er að finna nánari skilgreiningar á fötlunar- og sjúkdómsstigum sem liggja til grundvallar mati Tryggingastofnunar ríkisins þegar tekin er ákvörðun um í hvaða flokk barn lendir og innan hvaða greiðslustigs. Foreldrar barna sem greind eru með ADHD og tengdar raskanir og einhverfurófsraskanir og eru metin í þriðja og fjórða flokk fá flest aðstoð sem nemur 29.294 kr. á mánuði. Einstaka foreldrar sem eiga börn sem liggja á sjúkrahúsi fá hærri greiðslur. Þannig eru greiðslur vegna barna sem metin eru í 1. flokk almennt 117.176 kr. á mánuði og aðstoð vegna barna í 2. flokki 50.386 kr. á mánuði. Einnig er vísað til töflu í svari við 1. spurningu.

1. greiðslustig 2. greiðslustig 3. greiðslustig 4. greiðslustig
Flokkur 1
kr./mán.
100%
117.176
50%
58.588
25%
29.294
0
Flokkur 2
kr./mán.
85%
99.600
43%
50.386
25%
29.294
0
Flokkur 3
kr./mán.
70%
82.023
35%
41.012
25%
29.294
0
Flokkur 4
kr./mán.
25%
29.294
25%
29.294
25%
29.294
0
Flokkur 5 0 0 0 0

     3.      Kemur til álita að tengja umönnunargreiðslur við minnkað starfshlutfall foreldra vegna umönnunar barnanna?
    Umönnunargreiðslum samkvæmt lögum um félagslega aðstoð er eingöngu ætlað að mæta kostnaði framfærenda fatlaðra barna og/eða langveikra barna ef andleg eða líkamleg hömlun barns hefur í för með sér tilfinnanleg útgjöld. Þeim er ekki ætlað að mæta tekjumissi foreldra og tengjast því ekki atvinnuþátttöku foreldra eða annarra framfærenda barnanna heldur þeim útgjöldum sem fylgja fötlun þeirra eða veikindum.
    Lög nr. 22/2006, um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, tóku gildi 1. júlí 2006 en markmið þeirra er að koma til móts við tekjumissi foreldra vegna alvarlegrar fötlunar eða langvinnra veikinda barna sinna. Þar er foreldrum tryggt hlutfall af fyrri launum í allt að sex mánuði og tekið tillit til þegar foreldrar kjósa að halda áfram að starfa í lægra starfshlutfalli en áður eða kjósa að koma aftur til starfa í lægra starfshlutfalli en þau voru í áður en þau lögðu niður störf tímabundið og ástæður þess að þau eru í hlutastarfi má rekja til þeirra bráðaaðstæðna sem komu upp þegar börn þeirra greindust með alvarlega og langvinna sjúkdóma eða alvarlega fötlun. Samkvæmt lögum nr. 158/2007, sem tóku gildi 1. janúar 2008, geta foreldrar langveikra eða alvarlega fatlaðra barna jafnframt átt rétt á almennri fjárhagsaðstoð án tillits til fyrri atvinnuþátttöku, sem og einnig geti foreldri ekki snúið aftur á vinnumarkað þegar tekjutengdu greiðslunum sleppir.

     4.      Hefur samfélagslegur kostnaður vegna ónægrar þjónustu við þessar fjölskyldur sem um ræðir verið metinn?
    Samfélagslegur kostnaður vegna ónægrar þjónustu við umræddar fjölskyldur hefur ekki verið metinn. Skýringanna er meðal annars að leita í því að ekki hefur verið skilgreint hvað teljist vera „fullnægjandi þjónusta“ fyrir þennan hóp fjölskyldna miðað við aðra hópa né heldur hvað teljist vera „ónæg þjónusta“ miðað við sömu skilyrði.