Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 518. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1023  —  518. mál.




Svar



mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn Þorgerðar K. Gunnarsdóttur um varðveislu menningararfsins á stafrænu formi.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvað hefur verið gert á vegum ráðuneytisins og stofnana þess til að varðveita menningararfinn á stafrænu formi og gera hann aðgengilegan?

    Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur um áraraðir hvatt stofnanir sínar og stutt þær eftir megni til að vinna í samræmi við upplýsingastefnu ríkisstjórnarinnar og koma upplýsingum um menningararfinn á stafrænt form.
    Á árunum 2004–2006 var gert sérstakt átak í upplýsingatækniverkefnum hjá menntamálaráðuneytinu í tengslum við átak ríkisstjórnarinnar á því sviði. Verkefnisstjórn forsætisráðuneytisins veitti fjármagn í verkefnin auk menntamálaráðuneytisins. Í greinargerð um stöðu þess verkefnis frá 26. nóvember 2006 segir svo um skrifstofu menningarmála að þar séu fjögur verkefni í gangi: a) Stafræn endurgerð menningarefnis, frh. af verkefninu stafræn menning í þágu menntunar, b) breyttir starfshættir í menningarstofnunum, c) miðlun hljóð- og sjónminjaarfs og d) Sarpur 3.0 (sameiginlegt gagnasafn íslenskrar minjavörslu á stafrænu formi).
    Einungis tvö síðasttöldu verkefnin falla undir efni fyrirspurnarinnar. RÚV fékk 20 millj. kr. styrk til vinna að miðlun hljóð- og sjónminjaarfs og setja hann á stafrænt form, 10 millj. kr. hvort árið 2006 og 2007. Rekstrarfélag Sarps, skráningarkerfis safna, fékk 12 millj. kr. 2006 til að undirbúa innleiðingu Sarps 3.0.
    Í fjárlögum fyrir árið 2007 voru veittar 10 millj. kr. til ýmissa verkefna í upplýsingatækni á liðnum 02-999-1.98, 6.tölul. Fjárhæðin var notuð til að greiða upp upplýsingaverkefnin sem fengu styrk 2006 en ekki var lagt af stað með ný verkefni.
    Upplýsingaverkefni á sviði menningararfs hafa hlotið takmarkað brautargengi undir formerkjum upplýsingastefnu stjórnavalda, Netríkisins Ísland, stefnu ríkisstjórnar Íslands um upplýsingasamfélagið 2008–2012, sem gefin var út í maí 2008. Því hefur ráðuneytið reynt að koma til móts við mikla þörf og veitt styrki til afmarkaðra verkefna af þessu tagi af safnliðum ráðuneytisins, þó að fjármagn sé af skornum skammti.
    Árið 2008 voru veittar 15 millj. kr. á fjárlögum til upplýsingatækniverkefna á sviði menningarmála. Fjárveitingin fór í greiðslur til upplýsingatæknimála í menningarmálum svo sem til miðlunar hljóð- og sjónminjaarfs og Sarps.
    Á fjárlögum 2009 voru enn veittar 15 millj. kr. til upplýsingatækniverkefna í menningarmálum. Áður en þeirri upphæð hafði verið ráðstafað í ákveðin verkefni kom upp krafa frá fjármálaráðuneytinu um hagræðingu og því var ákveðið í aukafjárlögum 2009 að fella þessar 15 millj. kr. niður.
    Árið 2010 voru veittar 10,5 millj. kr. til upplýsingaverkefna á sviði menningarmála og 10 millj. kr. á fjárlögum 2011. Þessum fjármunum mun verða ráðstafað í þau verkefni sem ráðuneytið hefur lagt áherslu á á undanförnum árum.
    Víða á Norðurlöndum hefur verið sett inn í höfundarlög heimildarákvæði um skönnun (eintakagerð) safna og að skannað efni sé gert aðgengilegt á netinu (birting). Þetta hefur ekki verið gert hér á landi.
    Tilmæli ESB frá 24. ágúst 2006 um stafvæðingu og aðgengi að menningararfinum á netinu og stafræna varðveislu menningarefnis hafa ekki verið skoðuð í samhengi við EES-samninginn hér á landi en eins og sjá má í svörum stofnana ráðuneytisins hér á eftir hafa nokkrar þeirra tekið virkan þátt í evrópskum verkefnum sem sprottið hafa upp í tengslum við tilmælin.
    Mennta- og menningarmálaráðherra hefur til skoðunar að skipa stýrihóp eða samráðshóp um stafræna varðveislu menningararfsins þar sem saman kæmu fulltrúar ráðuneytisins, fulltrúar nokkurra lykilstofnana og fulltrúi hugbúnaðargeirans. Hlutverk þessa samráðshóps yrði m.a. að gera drög að stefnu stjórnvalda í þessum málaflokki.
    Til að afla frekari upplýsinga í svar við fyrirspurninni var hún send eftirfarandi stofnunum ráðuneytisins en þær koma allar að varðveislu menningararfsins með einum eða öðrum hætti: Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, Þjóðminjasafn Íslands, Þjóðskjalasafn Íslands, Listasafn Íslands, Kvikmyndasafn Íslands, Náttúruminjasafn Íslands, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Blindrabókasafnið, Gljúfrasteinn hús skáldsins, Fornleifavernd ríkisins, Húsafriðunarnefnd, Listasafn Einars Jónssonar, Þjóðleikhúsið og Íslenski dansflokkurinn. Stofnanirnar hafa allar sent inn svör nema Listasafn Einars Jónssonar. Svör stofnana eru sem hér segir:

Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn.
    Varðveisla íslensks menningararfs í stafrænu formi á Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni er tvíþætt. Annars vegar er stafræn endurgerð efnis á pappír, hljómplötum, snældum eða öðrum „hörðum miðlum“ og hins vegar er söfnun og móttaka efnis sem verður til stafrænt og efnis sem birtist á vef. Safnið setti sér stefnu um stafræna endurgerð og varðveislu stafrænna gagna árið 2006 og hefur hún tvívegis verið endurskoðuð, eftir því sem verkefnum vindur áfram, nú síðast í janúar 2011 (sjá fylgiskjal 1).

Stafræn endurgerð.
    Unnið hefur verið að stafrænni endurgerð íslensks efnis í safninu allt frá árinu 1996 þegar vinna við kortavefinn hófst. Síðan hefur verið unnið að nokkrum verkefnum og hafa sum verið samstarfsverkefni en önnur alfarið á forræði safnsins. Verkefnin hafa hlotið bæði innlenda og erlenda styrki og safnið hefur tekið þátt í þremur stórum evrópskum verkefnum í því skyni að afla þekkingar og til að geta miðlað efninu í gegnum sameiginlegar gáttir. Þetta eru The European Library (TEL), Europeana og Enrich/Manuscriptorum.
    Starfsmenn safnsins hafa þróað svokallaða vinnslulínu, þar sem skráð eru lýsigögn fyrir efnið, það er myndað/skannað og síðan birt á vef. Safnið á þrjár myndavélar og eru tvær þeirra í Þjóðarbókhlöðunni en ein er á Amtsbókasafninu á Akureyri. Búnar eru til mismunandi gerðir af myndum til að tryggja gæði og vinnslugetu. Hvert efnisform þarf mismunandi meðhöndlun og því rekur safnið fjóra ólíka vefi fyrir stafrænt efni, timarit.is, handrit.is, islandskort.is og baekur.is. Á bak við hvern þeirra er gagnagrunnur.

Söfnun og móttaka stafræns efnis.
    Söfnun íslenskra vefsíðna hefur verið eitt helsta söfnunarverkefnið á vegum safnsins á stafrænu formi fram til þessa. Fyrstu safnanirnar voru gerðar árið 2004 en þess má geta að úrval íslenskra vefsíðna frá upphafi er varðveitt hjá Internet Archive í Bandaríkjunum. Safnið hefur tekið þátt í þróunarverkefnum um vefsöfnun, upphaflega norrænu verkefni en síðar netpreserve.org á vegum Intenational Internet Preservation Consortium (IIPC). Settar hafa verið reglur eða viðmið um söfnun íslenskra vefsíðna (sjá fylgiskjal 2).
    Skemman.is er geymslusafn (repository) fyrir námsritgerðir nemenda og rannsóknarit kennara við íslenska háskóla. Þetta er samstarfsverkefni sem rekur rætur sínar til Háskólans á Akureyri en Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn tók við rekstri Skemmunnar 2009.
    Rafhlaðan er einnig geymslusafn sem sett var upp í árslok 2009 í þeim tilgangi að taka á móti íslensku efni sem verður til stafrænt og í pdf-formi svo sem dagblöðunum, vefritum, skýrslum o.fl. Efnið er sótt af starfsmönnum safnsins en einnig er unnið að því að þróa skil á efni fyrir stofnanir sem gefa út rafrænt efni sem eingöngu er birt á vef, t.d. mennta- og menningarmálaráðuneytið og Orkustofnun. Safnið er enn í þróun og hefur ekki verið opnað.
Tilraunaverkefni hefur verið unnið með tónlistarefni innan safnsins, þar sem efni af heimabrenndum geisladiskum var afritað í gagnagrunn. Gæði diskanna eru afar misjöfn og því ekki vitað um endingu. Einnig var afritað ýmiss konar kynningarefni af diskum sem var afhentir voru safninu frá tónlistarhátíðinni Icelandic Airvawes. Áhugi er fyrir samstarfi við Ríkisútvarpið um áframhaldandi vinnu við tónlistararfinn.

Miðlun / aðgengi.
    Almennt er litið svo á að efnið sé opið og aðgengilegt öllum. Gerðir hafa verið samningar við rétthafa um það efni sem er í höfundarétti. Þess má vænta að hluti þess efnis sem fer í höfundarétti verði í framtíðinni einungis aðgengilegt innan Þjóðarbókhlöðunnar, nema samningar náist um annað.
    Nú stendur yfir endurskoðun vefja safnsins, en vefumsjónarkerfið (CMS Made Simple) var tekið í notkun 2008 og verða allir vefir safnsins smám saman færðir í það. Gert er ráð fyrir samræmdu útliti, leiðakerfi og virkni og að auðvelt verði að ferðast á milli þeirra. Við endurskoðun vefjanna er tekið mið af þeim áherslum sem liggja til grundvallar úttektum á vefsíðum opinberra stofnana á Íslandi sem fyrirtækið Sjá ehf. hefur framkvæmt. Þá er unnið eftir staðlinum WCAG 2.0 (Web Content Accessibility Guidelines) fyrir aðgengi fatlaðra og sjónskertra að vefsíðum.
    Safnið heldur úti nokkrum ólíkum vefjum eða efnisveitum en áformað er að efni þeirra verði allt aðgengilegt í samþættri leitargátt sem unnið er að á vegum Landskerfis bókasafna og verður opnuð vorið 2011. Stafræna efnið er einnig tengt við bókfræðifærslur í Gegni, sem er sameiginlegt bókasafnskerfi íslenskra bókasafna.

Varðveisla.
    Starfsmenn safnsins hafa fylgst með þeirri þróun sem orðið hefur í langtímavarðveislu rafrænna gagna, en flest verkefni á því sviði eru enn á tilraunastigi. Þörf fyrir diskarými eykst stöðugt einkum vegna vefsöfnunar og nú er svo komið að keyptar eru diskastæður en ekki hillur í safninu. Gögnin eru spegluð eða afrituð og afritið er varðveitt hjá fyrirtækinu SKÝRR. Um er að ræða um 35 terabæt af efni og geymsluþörfin er nú um 70 terabæt með spegluninni. Gera má ráð fyrir 6–7 terabæta aukningu á ári næstu árin. Þá eru gögnin einnig afrituð reglulega á DLT-segulbönd og varðveitt þannig. Magn hvers efnisflokks er afar mismunandi en vefsafnið er langstærst (sjá fylgiskjal 3).

Þjóðminjasafn Íslands.
    Þjóðminjasafn Íslands varðveitir menningararf í samræmi við ákvæði þjóðminjalaga, nr. 107/2001, og safnalaga, nr. 106/2001. Rétt er að benda á að varðveisla á stafrænu formi kemur ekki í stað þjóðminjanna sjálfra, sem í raun er ekki unnt að varðveita á stafrænu formi. Hins vegar er áhersla lögð á að varðveita heimildir um þær, ljósmyndir og niðurstöður rannsókna á stafrænu formi. Stafræn vistun menningararfsins snýr fyrst og fremst að því að gera gögn aðgengileg með skráningu og með afritun. Í Þjóðminjasafni Íslands eru varðveitt ómetanleg söfn þjóðminja og heimilda um íslenska menningarsögu og er lögð áhersla á skráningu þeirra í menningarsögulega gagnagrunninn Sarp. Um 850.000 færslur eru nú þegar í Sarpi um safnkost Þjóðminjasafns Íslands.
    Samkvæmt hlutarins eðli eru safngripir Þjóðminjasafnsins af ýmsum og afar ólíkum toga, áþreifanlegir sem og óáþreifanlegir, þ.e. munir, myndir, munnmæli, þjóðhættir, örnefni. Þeir eiga það þó sameiginlegt að þeim fylgja margs konar upplýsingar og að við umsýslu og meðhöndlun þeirra verða einnig til upplýsingar. Nokkuð er misjafnt milli aðfangategunda á hvern hátt stafrænni umsýslu verður best við komið; lýsingar þjóðhátta varðveitast t.d. að fullu á stafrænu formi og hægt að auka gildi þeirra með stafrænni tækni, ljósmyndir eru eftirgerðar að hluta með skönnun en munum er lýst og þeir skráðir og myndaðir. Eftirfarandi lýsing ætti að gefa nokkra mynd af fyrirkomulaginu.
    Safnið skráir öll aðföng og upplýsingar um þau í miðlægan gagnagrunn, Sarp, sem rekinn er af minjasöfnunum sameiginlega og er í hlutfallslegri sameign þeirra. Sarpur hefur hingað til verið byggður á Lotus Notes skjalagrunni en er í þann veginn að flytjast yfir í venslaðan grunn sem bætir stórlega aðgengi starfsmanna og almennings að upplýsingunum. Eldri skrár, handskrifaðar eða prentaðar, eru að mestum hluta komnar á stafrænt form. Stafrænar ljósmyndir eru teknar af nýjum aðföngum og nokkur hluti eldri safnkosts hefur verið ljósmyndaður. Ljósmyndir eru skannaðar og varðveittar í hágæðaupplausn á sérstökum ljósmyndadrifum, myndasöfn eru valin til skönnunar eftir sögulegu mikilvægi og fræðilegu mati á upplýsingum í þeim.
    Unnið hefur verið markvisst að skráningu muna, þjóðháttaheimilda, byggingasögulegra heimilda og ljósmynda í Sarp. Þá er rétt að leggja áherslu á að Ljósmyndasafn Íslands í Þjóðminjasafni hefur unnið markvisst að innskönnun myndefnis í sinni vörslu síðan árið 2007. Áætlað er að um 60.000 ljósmyndir, filmur, glerplötur, skyggnur, vatnslitamyndir, teikningar, grafíkmyndir og annars konar myndir með sögulegu myndefni úr Ljósmyndasafni Íslands sé þegar til á stafrænu formi. Áætlað er að það séu um 1,2% af heildarsafnkosti mynda í safninu. Valið hefur verið að gera það myndefni aðgengilegt sem hefur víðasta skírskotun til almennings. Áætlað er að þessar myndir verði hluti af skráningu viðkomandi safna þegar Sarpur verður gerður aðgengilegur á vef. Vefur með hluta af þessu myndefni er opinn til skoðunar á www.ljosmyndasafnislands.is sem er tengdur aðalvef safnsins www.thjodminjasafn.is. Á sama hátt hafa ljósmyndir sem ljósmyndari safnsins hefur tekið af safngripum verið gerðar stafrænar, þ.e. þær sem ekki voru teknar með þeirri tækni. Eru um 6.700 safngripir munasafns aðgengilegir með þessum hætti. Myndirnar munu verða hluti af skráningu í Sarpi.
    Þegar um stóran safnkost er að ræða, eins og í Þjóðminjasafni Íslands, er um víðtækt langtímaverkefni að ræða sem krefst fjárveitinga og fagkunnáttu. Eins og af framansögðu má ráða er sú vinna nú þegar í góðum farvegi. Mikilvægum áfanga verður náð á þessu ári þegar Sarpur verður gerður aðgengilegur á veraldarvefnum.

Listasafn Íslands.
    Tekið skal fram að fyrirspurninni fylgja ekki tímamörk; hvort beðið sé um síðustu tíu ár eða einungis liðið ár. Burtséð frá því má taka til eftirfarandi:
     1.      Öll safneignin er skráð í rafrænan og leitarbæran gagnagrunn.
     2.      Leitast er við að safna sem ítarlegustum upplýsingum um verk safnsins í þennan grunn. Í framhaldi af þessu má árétta að Listasafn Íslands opnaði sýndarsafn í kjallara safnsins árið 2006, þar sem safeignin er aðgengileg fyrir alla.
     3.      Verk í safneigninni hafa verið ljósmynduð og stafrænar myndir settar í gagnagrunn. M.a. með aðstoð frá Þjóðhátíðarsjóði. Ef beðið er um tölulegar upplýsingar þarf ögn meiri frest til að taka þær saman.
     4.      Enn er eftir að ljósmynda um 400 verk í safneigninni, mest verk eftir Ásgrím Jónsson eða um 250 sem verða ljósmynduð þegar safn Ásgríms verður fært í varanlegri geymslu.
     5.      Þá tekur Listasafn Íslands einnig þátt í stóru samevrópsku verkefni – Digitising Contemporary Art – sem snýst um að koma samtímalist á stafrænt form og gera það efni aðgengilegt í gegnum áætlunina Europeana.
     6.      Listasafn Íslands leitar leiða til að birta myndefni af safneigninni á netinu en kostnaður er því ofviða. Því hefur verið brugðið á það ráð að fela safnaráði athugun á möguleikum lækkunar þess kostnaðar, í tengslum við nýjar áherslur Europeana-áætlunarinnar um ásættanlega notkun, „fair use“.
     7.      Stafrænt myndasafn er hluti af bókasafni Listasafns Íslands.
    Þetta eru megináherslur Listasafns Íslands í viðleitni höfuðsafns lista við að varðveita menningararf íslenskrar myndlistar og myndmenntar á stafrænu formi.

Þjóðskjalasafn Íslands.
Stafræn afritun menningararfsins í Þjóðskjalasafni Íslands og miðlun hans.
    Stafræn afritun í Þjóðskjalasafni gerist með eftirfarandi hætti:
    Í fyrsta lagi er skrifaður upp texti eftir frumskjölum og hann birtur á vef safnsins almenningi til fróðleiks, náms og rannsókna, sbr. manntalsvef Þjóðskjalasafns www.manntal.is, skólavef Þjóðskjalasafns, www.skjalasafn.is/skolavefur/ og skjaladagsvef Þjóðskjalasafns og héraðsskjalasafnanna, www.skjaladagur.is/. Nýr vefur, jarðavefur, verður opnaður fljótlega.
    Í öðru lagi standa fyrir skönnunarverkefni á frumskjölum. Um er að ræða mikið notuð skjalasöfn og áhugaverð fyrir mikinn fjölda notenda safnsins, svo sem túnakort, kirkjubækur, frímerkjasafn og skinnskjöl frá miðöldum. Þessi verkefni eru mislangt komin og hafa enn ekki verið lögð út á vefinn. Í þriðja lagi eru skjöl skönnuð og stundum skrifuð upp vegna sértækra rannsókna eftir beiðnum notenda, svo sem í Þjóðlendurannsóknum, vegna húsarannsókna o.fl. Ekki er í öllum tilvikum fýsilegt að birta myndir af frumskjölum eða uppskriftum á vefnum. Það getur jafnvel reynst of kostnaðarsamt. Í fjórða lagi eru skjöl skönnuð til þess að hlífa frumskjölum og eru þá skjölin tekin úr umferð og veittur aðgangur að skjölunum á lestrarsal eða með öðrum hætti.
    Stafræn afritun og miðlun menningararfsins í Þjóðskjalasafni hófst árið 2001 með vefbirtingu manntalsins 1703.

Manntöl – stafræn gerð manntala.
    Stafræn afritun og miðlun menningararfsins í Þjóðskjalasafni hófst sem áður segir með vefbirtingu manntalsins 1703 árið 2001. Síðan þá hefur það verið forgangsverkefni Þjóðskjalasafns á sviði rafrænnar miðlunar að tölvusetja íslensk manntöl og veita aðgang að þeim á netinu. Verkið sóttist hægt enda engar sérstakar fjárheimildir veittar til verksins. Fáum árum síðar var manntalið 1835 birt með sama hætti. Um er að ræða uppskrift á manntölunum ekki myndir. Fyrsta sérstaka fjárveitingin til stafrænnar afritunar og miðlunar kom 2007 þegar Þjóðskjalasafn lagði til við ríkisstjórnina að safnið skapaði um 20 ársverk alls úti á landi við það að búa til stafræn afrit af manntölum árin 2008 og 2009 – en var svo einnig dreift yfir á 2010. Verkinu lauk samkvæmt áætlun í lok árs 2010. Manntölin sem um ræðir eru frá árunum 1840, 1845, 1850, 1855, 1860, 1870, 1890, 1901, 1910 og 1920. Manntölin hafa verið slegin inn í miðlægan gagnagrunn á fjórum stöðum á landinu, í Héraðsskjalasafni Vestmannaeyja, í Héraðsskjalasafni Austfirðinga á Egilsstöðum, í Héraðsskjalasafni Skagfirðinga á Sauðárkróki og hjá Forsvari ehf. á Hvammstanga. Allt verkið felur í sér skráningu u.þ.b. 650.000 einstaklinga. Um 301.000 voru skráðir árið 2008 en 270.000 árið 2009, og u.þ.b. 85.000 árið 2010 auk yfirlestar. Tafsamara er að skrá yngstu manntölin vegna þess að upplýsingar um hvern og einn voru meiri, auk þess var að mestu skráð eftir handritum og er það tafsamara. Alls komu 20 manns úti á landi að skráningu manntala á árinu 2009 en nokkru færri árið 2010. Alls var verkið ríflega 20 ársverk. Ýmsar gagnaprófanir eru þó eftir og gagnasafnið þarfnast viðhalds og umsjónar meðan það er á vefnum.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Manntölin 1855, 1901, 1910 og 1920 voru slegin inn eftir frumritum en önnur manntöl eftir afritum. Þjóðskjalasafn er auk þess að mestu búið að tölvuskrá manntölin 1762, 1801, 1816 og 1880. Vonandi tekst að koma þeim á vefinn fljótlega. Við rafræna gerð nokkurra manntala hefur safnið átt samstarf við Decode, Friðrik Skúlason og dr. Ólöfu Garðarsdóttur og Minnisota Population Center.

Vefbirting manntala.
    Einungis eitt manntal úr verkefninu var sett á vefinn árið 2008. En á árinu 2009 var fyrir alvöru tekið til við að forrita nýjan vef fyrir birtingu hinna nýju rafænu manntala. Það voru mikil og ánægjuleg tímamót þegar Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra opnaði nýjan manntalsgrunn Þjóðskjalasafns á norræna skjaladeginum 14. nóvember 2009, sjá www.manntal.is. Þá urðu níu af tíu manntölum í verkefninu aðgengileg á netinu að hluta eða í heild. Alls eru nú ellefu manntöl á netinu. Það má þakka þessu átaksverkefni. Meginmarkmið verkefnisins, að gera þessar mikilsverðar heimildir aðgengilegar almenningi og fræðimönnum, náðist þar með. Netbirting manntalanna er bylting í aðgengi að þessum menningarauði. Vonandi tekst að bæta fjórum manntölum á vefinn á næstunni. Til þessa hafa flest íslensk manntöl einungis verið aðgengileg á lestrarsal Þjóðskjalasafns í Reykjavík og á sumum héraðsskjalasöfnum. Stafræn gerð manntalanna og vefbirting hefur kostað u.þ.b. 100.000.000 kr. og er langstærsta vefmiðlunarverkefni Þjóðskjalasafns til þessa. Kirkjubókaskönnun og vefbirting er umfangsmeira verkefni og nauðsynlegt að fá til þess sérstaka fjárveitingu.

Skönnun.
    Fram til ársins 2009 notaði Þjóðskjalasafn stafræna myndavél til þess að búa til stafræn eintök skjala. En til þess að framleiða stafrænar myndir til vefbirtingar þarf að nota skanna með réttum hugbúnaði. Þjóðskjalasafn festi kaup á skanna frá Zeutscel í Þýskalandi árið 2008. Tækið var tekið í notkun á útmánuðum 2009 og hefur gjörbreytt aðstöðu safnsins til þess að afrita skjöl fyrir notendur safnsins. Það hamlar þessari starfsemi að einungis einn starfsmaður er í starfi ljósmyndara og vinnur við skönnun. Mikilvægt er að auka fé til þessa starfs ef auka á afköstin sem verður að gera ef góður árangur á að nást. Lágmark er að tveir starfsmenn vinni við þetta og helst fleiri. Auk skönnunar er skráning myndanna afar mikilvæg og tekur hún meiri tíma en sjálf skönnunin.

Skönnun í tengslum við Þjóðlenduverkefnið.
    Vegna rannsókna í tengslum við Þjóðlendurmálið hefur fjöldi skjalabóka og handrita verið skannaður í eftirfarandi flokka: Dómabækur = 168 bækur, Jarðabók 1698 = 1 bók, Jarðamat 1804 = 22 bækur, Jarðamat 1849–1850 = 20 bækur, Veðmálaregistur = 2 bækur, Landamerkjabækur = 28 bækur, Fasteignamat 1916–1918 = 60 bækur. Alls 301 handrit sem eru u.þ.b. 90.000 síður. Í smíðum er sérstakur vefur (jarðavefur) til að birta þessar heimildir á. Þar verða margvíslegar skýringar og upplýsingar fyrir aðila þjóðlendumála og almenning. Stefnt er að opnum vefjarins í marsmánuði 2011. Sumar heimildanna hafa einnig verið skrifaðar upp til hægðarauka fyrir notendur.

Skinnbréf.
    Stafræn afritun miðalda skinnbréfa Þjóðskalasafns hófst árið 2008. Afritun skinnbréfanna, sem eru rúmlega 1.000 er vandaverk og í sumum tilvikum einungis fært með stafrænni ljósmyndavél. Stafræn afritun bréfanna helst í hendur við skráningu og efnisgreiningu bréfanna. Verkið er vandasamt og tímafrekt þar sem hvert skjal og skjalhluti er myndaður í bak og fyrir. Innsigli er mynduð sérstaklega. Nokkrir tugir skjala hafa verið myndaðir. Þetta verk er í bið vegna annarra aðkallandi verka.

Frímerki.
    Frímerkjasafn Hans A. Hals, safn íslenskra frímerkja til 1944, var skannað 2009 og 2010, alls 2.241 myndir. Ríkisstjórnin keypti safnið af norskum stórkaupmanni 1946. Alls er safnið í 42 möppum sem eru samtals rúmlega 2.200 síður. Enn er eftir að birta það á vef Þjóðskjalasafns en vefhönnun og nauðsynleg skráning er eftir og er kostnaðarsöm.

Túnakort.
    Árið 2009 var hafist handa við að skanna túnakort sem voru gerð á vegum búnaðarsambanda á öðrum og þriðja áratug 20. aldar. Þau eru til úr öllum sýslum landsins og eru mikilsverðar heimildir um skipulag ræktaðs lands, tún og mannvirki. Markmiðið er að birta kortin á vef safnsins. Í lok árs 2010 var verkið u.þ.b. hálfnað. Alls eru túnakortin um 8.000 og nú er búið að mynda rúmlega 5.000 þeirra. Þessu verki lýkur árið 2011 og er þá eftir að skrá margvíslegar upplýsingar sem eru grundvöllur hagnýtrar notkunar. Þá er vefhönnun og vefbirting eftir.

Kirkjubækur á netið.
    Víða í nágrannalöndum okkar er verið að skanna kirkjubækur (hjá flestum eru einungis um prestþjónustubækur að ræða) og setja þær á netið, enda eru kirkjubækur lykilheimildir um ættfræði, persónusögu, byggðasögu, manntal og fleiri þætti í fortíð okkar. Norðmenn og Danir hafa lokið þessu að mestu leyti, sjá t.d. norska rafræna safnið da2.uib.no/ kyrkjeboker.htm. Þeir skönnuðu mikrófilmur sem þeir áttu af kirkjubókum sínum. Þessar heimildir á netinu eru afar vinsælar og mikið notaðar. Þar hafa stjórnvöld gert áætlanir um skönnun á hluta menningararfsins og þjóðþingin veita oft fé sérstaklega til verkanna. Sjá t.d. St. meld. nr. 24 (2008–2009). Nasjonal strategi for digital bevaring og formidling av kulturarv, www.regjeringen.no/nb/dep/kud/dok/regpubl/stmeld/2008–2009/stmeld- nr-24-2008–2009-.html?id=555254.
    Árið 2009 var hafist handa við skönnun prestþjónustubóka og sóknarmannatala í Þjóðskjalasafni. Hér er á ferðinni gríðarlega mikið verkefni enda skipta kirkjubækur þúsundum. Enn er verið að meta umfang verksins sem mun taka mörg ár og þyrfti sérstakar fjárveitingar til (sjá nánar stafræn verkefni á Norðaustur- og Austurlandi). Árið 2010 voru skannaðar 75 kirkjubækur alls 18.000 síður.

Stafræn verkefni á Norðaustur- og Austurlandi.
    Á fjárlögum 2009 og 2010 fékk Þjóðskjalasafn sérstaka fjárveitingu til þess að standa fyrir stafrænni vinnu í fjarvinnslu á Norðaustur- og Austurlandi, 9 millj. kr. hvort ár. Til þess að hægt væri að semja við fyrirtæki um slíka vinnslu var nauðsynlegt að komast hjá því að flytja dýrmæt frumrit út á land þar sem ekki voru aðstæður til að geyma þau tryggilega. Ráðist var í að skilgreina fjarvinnsluverkefni sem gætu farið fram hvar sem var á umræddu svæði. Niðurstaðan varð sú að skipuleggja skráningu persónuupplýsinga í sóknarmannatölum sem varðveitt eru frá því síðari hluta 18. aldar. Upplýsingarnar eru að mörgu leyti hliðstæðar því sem manntölin geyma en sá munur er á að sóknarmannatöl voru skráð árlega og því fylla þau í eyður sem eru á milli manntala.
    Sóknarmannatöl eru eins konar árleg manntöl í hverri sókn landsins. Hófst gerð þeirra um miðja 18. öld og voru þau tekin saman fram á miðja 20. öld. Þau innihalda nöfn bæja, fólks, heimilisstöðu, aldur og á tímabili einnig vitnisburð um menntun. Þjóðskjalasafn vinnur nú að verkefni sem felst í því að skrá tilteknar upplýsingar (heiti bæja, nöfn manna, heimilisstöðu og aldur) úr íslenskum sóknarmannatölum í gagnagrunn. Upplýsingarnar eru skráðar eftir stafrænum myndum af frumritum sóknarmannatala sem varðveitt eru í Þjóðskjalasafni.
Þessar mikilvægu heimildir eru mikið notaðar en þær eru afar óaðgengilegar. Frumritin eru í Þjóðskjalasafni í Reykjavík en hluti sóknarmannatala er svo til á míkrófilmum í sumum héraðsskjalasöfnum.
    Markmið verkefnisins er að skapa ný atvinnutækifæri sem hrinda má í framkvæmd hvar sem er og að auka aðgengi fólks að kirkjubókum með því að birta myndir af þeim á netinu. Þannig voru tvær flugur slegnar í einu höggi og hleypt af stokkunum rafrænni skráningu til atvinnusköpunar og menningarmiðlunar. Með myndunum verður leitarbær skrá og því hægt að leita að einstaklingum og bæjum landsins.
    Verkið felur í sér að taka myndir af öllum sóknarmannatölum og skrá hluta upplýsinganna í þeim eftir myndunum. Skönnunin fer fram í Þjóðskjalasafni en skráning þar sem henta þykir hverju sinni. Síðar verða upplýsingarnar og myndirnar birtar á vefnum. Fé fékkst á fjárlögum 2009 til stafrænnar skráningar á Norðausturlandi með það markmið að styrkja atvinnulíf þar. Þá var skilgreint umfang skráningarinnar og hannaður gagnagrunnur og skráningarviðmót og skráning hófst. Miðað var við að hægt væri að skrá í grunninn um netið þannig að hægt væri að vinna við skráninguna hvar sem er og hvenær sem er. Jöfnum höndum verða svo teknar myndir af sóknarmannatölum. Seinni hluta árs 2009 var unnið við skráningar sóknarmannatala á Seyðisfirði og árið 2010 einnig á Vopnafirði, Húsavík, Sauðárkróki og Hvammstanga.

Framhald.
    Auk þeirra verkefna sem hafa verið nefnd eru fleiri brýn skönnunarverkefni sem þarf að ráðast í á næstu árum. Þar má nefna veðmálabækur og vísitasíubækur biskupa. Manntöl 18. og 19. aldar þarf einnig að skanna og leggja á manntalsvefinn til rannsókna á t.d. örnefnum og til þess að sannreyna vafaatriði í uppskrift manntalanna. En kirkjubókaverkefnið sem er nýhafið er viðamest og á langt í land. Rétt er að benda á að viss skráning (metadata) þarf að fara fram samhliða skönnun (eða eftir á) og sú skráning tekur viðlíka tíma og skönnunin og þarf að gera ráð fyrir henni í kostnaðarmati. Ef Alþingi og ríkisstjórn vilja sjá góðan gang í skönnun og miðlun menningararfsins um vefinn er nauðsynlegt að gera um það áætlanir og verja til þess sérstökum fjármunum. Án þess vinnast slík verkefni seint eins og reyndin sýnir.

Kvikmyndasafn Íslands.
    Kvikmyndasafnið hefur undanfarin ár sett talsverða vinnu og fjármuni í að endurheimta kvikmyndaefni frá framköllunarfyrirtækjum erlendis. Þetta er gert í ljósi þess að þessi fyrirtæki eru að hverfa af vettvangi með nýrri tækni; sum fara hreinlega á hausinn og komið hefur fyrir að heilu bíómyndirnar hafa glatast af þeim sökum.
    Oft á tíðum er um að ræða talsvert samningaþref og eftirgangsmuni og eru peningamálin oftar en ekki ástæða þess að fyrirtækin vilja ekki láta frummyndirnar af hendi. Oft er þetta vegna þess að erlendur samstarfsaðili framleiðenda hefur ekki gert upp skuldir frá vinnslu kvikmyndanna en einnig er um að ræða gamlar skuldir íslenskra framleiðenda.
    Þessi heimflutningur kvikmyndaefnis gerir íslenskum framleiðendum kleift að koma verkum sínum yfir á stafrænt form til útgáfu á diskum (eða öðrum miðlum) og til sýningar á stafrænu formi í kvikmyndahúsum. Auk þess mun Kvikmyndasafnið síðan varðveita efnið við bestu aðstæður til framtíðar. Kvikmyndasafn Íslands hefur af fremsta megni unnið að því að endurgera gamlar kvikmyndafilmur sem það varðveitir og fer sú vinna að mestu leyti fram erlendis. Slík aðstaða er ekki fyrir hendi á Íslandi og verður varla héðan af. Ávallt er kappkostað að setja þessar myndir jafnframt yfir á stafrænt form. Vegna þess hve litlu fé hefur verið veitt til Kvikmyndasafnsins á undanförnum árum hefur þó grátlega lítið af menningararfinum verið endurgert á þennan hátt.
    Yfirfærsla eldra kvikmyndaefnis sem af einhverjum orsökum er tekið fram til skoðunar eða notkunar utan safnsins er yfirleitt gerð í safninu á stafrænu formi. Þó á tiltölulega ódýran hátt. Talsvert hefur verið rætt um framtíðarvarðveislumöguleika á stafrænu formi í safninu en engin niðurstaða liggur fyrir, enda ekkert fé handbært til að vinna að málinu eða koma upp aðstöðu, innan húss eða utan.
    Starfsmenn safnsins hafa aflað upplýsinga frá kvikmyndasöfnum erlendis og spurst fyrir hjá öðrum menningarstofnunum innan lands og hjá fyrirtæki sem annast gagnavörslu á stafrænu formi. Sú leið yrði þó safninu áreiðanlega ofviða, jafnvel þótt einhver fjárveiting væri fyrir hendi.
    Hvorki er nægur mannafli eða tækjakostur í safninu til að takast á við viðameira átak á stafrænni yfirfærslu. Engin útgáfa hefur farið fram á stafrænu efni á vegum safnsins og ekki verið samið um útgáfurétt á efni við rétthafa, enda engin fjárveiting til slíkrar útgáfu. Þá hafa ekki heldur verið efni til að setja kvikmyndir á veraldarvefinn eins og nú er gert í einhverjum mæli af kvikmyndasöfnum í sumum nágrannalandanna.

Náttúruminjasafn Íslands.
    Varðandi skilgreiningu á orðunum menning og menningararfur er litið til skilgreiningar Menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO þar sem menning er sögð vera: „… samsafn þeirra trúarlegu, efnislegu, vitrænu og tilfinningalegu þátta sem einkenna hvert samfélag eða samfélagshóp. Listir og bókmenntir teljast til menningar, en einnig lífsstíll, sambúðarform, mannleg gildi, hefðir og skoðanir.“
    Með hliðsjón af þessu teljast náttúruminjar sem slíkar ekki til menningararfsins, enda ekki gerðar af mönnum. Söfn eru hins vegar mikilvæg grein menningar og einnig það hvernig náttúran og náttúruminjar eru greindar, flokkaðar, vistaðar, nýttar, rannsakaðar og niðurstöðum miðlað til almennings og fræðimanna. Þá verður að telja upplýsingar um ferla náttúrunnar til menningar, þ.e. samsafn vitrænna þátta, enda væri lítið mannlíf á jörðunni án þeirra ferla.
    Náttúruminjar er ekki unnt að varðveita á stafrænu formi. Hins vegar eru upplýsingar um þær og ferla náttúrunnar, ljósmyndir, teikningar og niðurstöður rannsókna yfirleitt varðveittar á stafrænu formi í dag.
    Á Náttúruminjasafni Íslands eru gögn um t.d. íslenska fiska, steina og skeljar varðveitt í stafrænum gagnasöfnum og svo er einnig um aðra náttúrugripi sem safnið hefur umráð yfir. Upplýsingar um t.d. nýtingu náttúruauðlinda, ferla náttúrunnar, efnasamsetningu og annað slíkt eru varðveittar í ritum og að hluta til í stafrænum gagnasöfnum hérlendis og erlendis. Stafræn gagnasöfn og upplýsingasöfn sem safnið mun byggja upp verða í framtíðinni aðgengileg gegnum vefsíðu safnsins.

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
    Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum varðveitir handritasafn, þjóðfræðisafn, orðasöfn og örnefnasöfn. Stofnunin hefur sett sér þá stefnu að vinna að því að frumheimildir stofnunarinnar verði aðgengilegar í opnum aðgangi. Á öllum sviðum stofnunarinnar er unnið kappsamlega að því að koma þjóðararfinum á stafrænt form. Öll þessi söfn eru opin almenningi á vef stofnunarinnar.
    Handritasafnið hefur að hluta til verið myndað á stafrænt form í samvinnu við Árnastofnun í Kaupmannahöfn og Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, bæði með þáttöku í Sagnanetinu og síðan með vefnum www.handrit.is. Unnið er að því að skrá safnið jafnhliða og birta myndirnar á netinu en fjárskortur tefur verkefnið eins og er.
    Þjóðfræðisafnið hefur verið skráð stafrænt og stafrænar hljóðskrár úr safninu fluttar yfir á Ísmús vefinn (www.ismus.is). Ýmislegt efni úr safninu hefur verið gefið út stafrænt á diskum, oft í samvinnu við aðra.
    Orðasöfnin birtast í Ritmálssafninu, Orðanetinu, Orðabankanum, Orðstöðulyklum, Orðasambandaskrá, Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls, Textasafni og Málfarsbankanum. Unnið hefur verið að skönnun bréfa heimildarmanna Orðabókar HÍ Auk þess er Stafsetningarorðabókin og Beygingarlýsingin sem stofnunin hefur gefið út á vefnum www.snara.is og þar er líka að finna fleiri orðabækur sem starfsmenn hafa unnið að og gefnar hafa verið út af öðrum útgefendum.
    Á nafnfræðisviði er unnið að skönnun og skráningu örnefnaskráa og á vef þess og á Vísindavefnum birtast ítarlegar upplýsingar um örnefni. Nafnfræðisvið á einnig aðild að Sarpi (www.sarpur.is) og örnefnagögn eru aðgengileg þar.
    Auk þessa má nefna að á vef stofnunarinnar er opinn aðgangur að óðfræðivefnum Braga og fræðsluefni um handritin og bókmenningu fyrri tíma, sem birtist á www.handritinheima.is. Á vef stofnunarinnar birtast líka Orð vikunnar, Örnefni mánaðarins og Handrit mánaðarins.
Alþjóðasvið á þátt í verkefninu Icelandic Online (www.icelandiconline.is) ásamt öðrum.
    Unnið er að því að opna aðgang að ritum stofnunarinnar og nú þegar eru nokkrir árgangar tímaritsins Griplu opnir á vef stofnunarinnar og eldri árgangar munu verða á www.timarit.is. Fréttabréf og ýmsir bæklingar sem málræktarsvið hefur gefið út er einnig á vefnum.

Blindrabókasafnið.
    Á Blindrabókasafni Íslands eru til um 6.000 bókatitlar á stafrænu formi, hljóðformi, sem er vel varðveitt. Frumform er geymt í eldfastri geymslu í kjallara og afrit af bókakosti tekið daglega. Jafnframt eru tekin ný heildarafrit tvisvar á ári sem eru geymd annars vegar á Blindrabókasafni og hins vegar á Borgarbókasafni, aðalsafni. Safnkosturinn er aðgengilegur skráðum lánþegum hvort tveggja í gegnum niðurhal og á geisladiskum.

Gljúfrasteinn, hús skáldsins.
    Munir á Gljúfrasteini hafa verið skráðir í Sarp. Í heild er skráningu lokið á tæplega 1.100 munum. Skráning innan húss er lokið en skráningu einhverra hundruð gripa í geymslum er ólokið. Eins og kunnugt er stendur yfir vinna vegna endurbóta á Sarpi og má gera ráð fyrir að nýtt og endurbætt kerfi verði komið í gagnið fljótlega. Þar er gert ráð fyrir miðlun á vef sem aðgengilegur er almenningi. Ljósmyndun á þegar skráðum munum er á byrjunarstigi en stefnt er að því að ljúka því verkefni á árinu. Skráning ljósmynda sem teljast í þúsundum er ekki hafin. Stefnt er að því að skanna og skrá allar ljósmyndir sem til eru í albúmum á safninu. Vakin er athygli á því að þegar er fjöldi ljósmynda aðgengilegur á vef safnsins. Sjá ljósmyndir á www.gljufrasteinn.is/is/myndir/.

Fornleifavernd ríkisins.
    Ýmislegt hefur áunnist í þessum málaflokki hjá Fornleifavernd ríkisins undanfarin missiri sem má rekja til þess að stofnunin hefur fengið utanaðkomandi styrki til ýmissa verkefna.
Árið 2010 fékkst styrkur vegna átaksverkefnis á vinnumarkaði til að ráða námsmann í þrjá mánuði til að skrá friðlýsta kirkjugripi í gagnagrunninn Sarp. Mikið á enn eftir að skrá af kirkjugripum en þetta verkefni markaði visst upphaf í þeirri skráningu hjá Fornleifavernd ríkisins. Eftir því sem við best vitum er stefnt að því að gera Sarpinn aðgengilegan almenningi á allra næstu missirum.
    Árið 2010 fékkst styrkur vegna átaksverkefnis á vinnumarkaði til að ráða tvo námsmenn í þrjá mánuði til að skrá í kortavefsjá Fornleifaverndar ríkisins. Í kortasjánni verður hægt að sjá hvaða svæði er búið að skrá, hver sá um skráninguna og hvenær skráningin fór fram. Ef skýrsluhöfundar leyfa verður hlekkur í skráningarskýrsluna sjálfa. Verkefnið fólst í því að færa inn þær skýrslur sem Fornleifavernd hefur í sínum fórum. Stefnt er að því að kortasjáin verði öllum aðgengileg á nýrri heimasíðu Fornleifaverndar sem ætlunin er að opna sumarið 2011.
    Fornleifavernd ríkisins, ásamt Húsafriðunarnefnd ríkisins, tekur þátt í Evrópuverkefninu CARARE (www.carare.eu) en verkefnið hófst árið 2010 og stendur yfir í þrjú ár. Í CARARE-verkefninu taka 29 aðilar þátt frá 20 löndum. Hugmyndin er að finna leið til að samhæfa gögn um fornleifar og byggingararf og þar með gera þau aðgengileg í gegnum evrópsku vefgáttina Europena (sjá www.europeana.eu) en það verkefni hefur mun víðari samhæfingu sem markmið. Fornleifavernd ætlar að leggja fram í verkefnið gagnagrunn yfir fornleifauppgrefti á Íslandi en sú skrá mun einnig verða aðgengileg á kortasjá stofnunarinnar sumarið 2011. Húsafriðunarnefnd ríkisins leggur fram skrá yfir friðuð hús á Íslandi en sú skrá er nú þegar aðgengileg á kortasjá Húsafriðunarnefndar. Árið 2010 fékkst styrkur vegna átaksverkefnis á vinnumarkaði til að ráða námsmann í þrjá mánuði til að skrá í gagnagrunninn um fornleifarannsóknir. Sama ár fékkst einnig styrkur frá nýsköpunarsjóði til að ráða tölvunarfræðinema í fjóra mánuði til að vinna að gagnaskránum. Verkefni þetta er afar mikilvægt fyrir stofnunina. Hér höfum við tækifæri til byggja upp skrá yfir fornleifarannsóknir á Íslandi en einnig og ekki síst til að þróa lýsigögn (metadata) fyrir landupplýsingakerfi stofnunarinnar sem er lykillinn að því að geta miðlað gögnunum til annarra vefgátta og gagnagrunna.
    Undanfarin ár hafa starfsmenn Fornleifaverndar ferðast um landið og gert úttekt á friðlýstum fornleifum. Minjarnar eru allar mældar upp með nákvæmum staðsetningartækjum og skráð eftir skráningarstöðlum Fornleifaverndar ríkisins. Nú er unnið að því að gera þessa gagnaskrá aðgengilega í gegnum kortasjá Fornleifaverndar. Einnig er farið að huga að því, í samvinnu við Landmælingar Íslands, að gera gagnaskrána aðgengilega í gegnum vefgátt opinberra stofnanna með hliðsjón af INSPIRE-tilskipuninni.
    Allir þessir þættir eru mikilvægir í uppbyggingu landupplýsingakerfis Fornleifaverndar ríkisins. Einn mikilvægur og stór þáttur er hér þó undanskilinn en það er gagnaskrá yfir allar skráðar fornleifar á landinu. Stærsta vandamálið hér er ekki tæknilegt og jafnvel ekki fjárhagslegt heldur setur lagaumhverfið sem við búum við okkur verulegar skorður. Í dag leggur Fornleifavernd kvaðir á sveitarfélög að skrá fornleifar fyrir skipulag en sveitarfélögin uppfylla þær kvaðir með því að ráða sjálfstætt starfandi fornleifafræðinga til verksins. Enn eru engar lagalegar kvaðir á fornleifafræðingunum um að skrá eftir ákveðnum skráningarstöðlum, að skrá gögnin inn í gagnagrunn Fornleifaverndar né að gera þessi gögn opinber. Þessi atriði standa frekari þróun landupplýsingakerfis Fornleifaverndar fyrir þrifum og mun gera stofnuninni erfitt fyrir að uppfylla skyldur sínar gagnvart INSPIRE-tilskipuninni. Miklar vonir eru því bundnar við að hið nýja lagafrumvarp um menningarminjar sem nú er í smíðum muni taka á þessu máli. Annað og stærra vandamál er svo fjármögnun skráningar fornleifa á vettvangi en ljóst er að okkur miðar hægt í þeim málaflokki, þar sem aðeins um 25% fornleifa landsins hafa verið skráðar á vettvangi.
    Að endingu hefur Fornleifavernd ríkisins verið fulltrúi mennta- og menningarmálaráðuneytisins í verkefninu Herein, en það er gagnagrunnur á vegum Evrópuráðsins með upplýsingum um stjórnsýslustofnanir og stjórnsýslu minjaverndar í Evrópu, samheitaorðabók og fleira.

Húsafriðunarnefnd.
    Unnið hefur verið markvisst að því undanfarin ár að gera varðveislu byggingararfsins aðgengilegan fyrir almenning á heimasíðu Húsafriðunarnefndar.
    Á heimasíðu Húsafriðunarnefndar er listi yfir öll friðuð hús á Íslandi með lýsingu á hvaða hluta bygginga friðun tekur til, lýsingu á húsunum, ljósmynd af hverju húsi og loftmynd af Íslandi þar sem hægt er að skoða staðsetningu allra friðaðra húsa. Í því sambandi var gerður samningur við Loftmyndir ehf.
    Á heimasíðunni hafa einnig öll leiðbeiningarrit Húsafriðunarnefndar um viðhald og endurbætur á eldri húsum verið gerð aðgengileg almenningi, svo sem gluggar, gömul timburhús- útveggir grind og klæðning, steining húsa, uppmæling húsa og ágrip af byggingarsögu Íslands. Þá hafa nýlega verið unnar nýjar leiðbeiningar um gerð bæja- og húsakannana auk skráningarblaðs á tölvutæku formi sem sendar hafa verið fjölmörgum sveitarfélögum sem vinna bæja- og húsakannanir í sínu sveitarfélagi. Þessar upplýsingar um byggingararf þjóðarinnar munu síðan verða settar inn í Sarp.
    Úthlutanir úr Húsafriðunarsjóði undanfarinna 17 ára hafa verið gerðar aðgengilegar á heimasíðunni og er stefnt að því að allar úthlutanir frá upphafi, árið 1976, verði aðgengilegar þar, auk þess sem verið er að vinna að því að gera allar fundargerðir Húsafriðunarnefndar frá upphafi, 1970, aðgengilegar á stafrænu formi á heimasíðunni.
    Þá hefur ferli umsókna í Húsafriðunarsjóð verið einfaldað til muna með stafrænu umsóknareyðublaði á heimasíðu Húsafriðunarnefndar.
    Útbúið hefur verið Gagnasafn Húsafriðunarnefndar á stafrænu formi (Filemaker) þar sem allar afgreiðslur og umsagnir varðandi byggingararf þjóðarinnar eru skráðar.
    Þá hafa Húsafriðunarnefnd og Fornleifavernd ríkisins sameinast um að taka þátt í CARARE-verkefninu ásamt 28 aðilum tengdum minjavörslu í 20 löndum. Markmið verkefnisins er að finna leið til að samhæfa gögn um fornleifar og byggingararf og þar með gera þau aðgengileg í gegnum Europena, en það verkefni hefur mun víðari samhæfingu sem markmið.

Þjóðleikhúsið.
    Allar frumsýningar í Þjóðleikhúsinu hafa verið hljóðritaðar á segulbönd frá upphafi. Mikið safn segulbanda er til og eru þau varðveitt í Þjóðleikhúsinu. Það safn hefur ekki verið yfirfært á stafrænt form. Fyrir um tuttugu árum var farið að taka allar sýningar upp á myndbönd. Þær upptökur eru einnig til í safni leikhússins, en hafa ekki verið yfirfærðar á stafrænt form. Þessar upptökur er takmörkuð heilmynd þar sem tekið er upp frá einum vinkli aftast í salnum.
    Árið 2007 var farið að taka sýningar upp á stafrænu formi og lögðust sérstakar hljóðupptökur þá af. Þær upptökur eru varðveittar í húsinu.
    Tekin hefur verið upp sú stefna á síðari árum að vanda upptökur á nýjum íslenskum verkum. Verktakar hafa verið fengnir sérstaklega til að vinna slíkar upptökur auk þess sem efnt hefur verið til samstarfs við Kvikmyndaskóla Íslands og kvikmyndadeildir framhaldsskóla. Upptökur sem unnar hafa verið fyrir sjónvarpið á undanförnum árum eru til á stafrænu formi.
Ljósmyndasafn Þjóðleikhússins er nú hýst hjá Ljósmyndasafni Íslands, sem vinnur að því að koma því á stafrænt form. Nýrri ljósmyndir eru allar á stafrænu formi og varðveittar á netþjóni Þjóðleikhússins. Sama á við um nýrri handrit og leikskrár.
    Unnið hefur verið að því að skrá upplýsingar um allar sýningar hússins rafrænt, þ.e. upplýsingar um alla aðstandendur og ýmsa tölfræði tengda sýningunum. Lokahnykkurinn á þeirri vinnu hefur tafist vegna fjárskorts.

Íslenski dansflokkurinn.
    Frá upphafsdögum stafrænnar tækni hafa allar uppfærslur Íslenska dansflokksins verið teknar upp á slíkt form. Rétt er að árétta að mikið magn af efni á VHS spólum, meðal annars frá tíð Íslenska dansflokksins í Þjóðleikhúsinu, hefur því miður ekki verið fært yfir á stafrænt form. Óskað hefur verið eftir fjárstuðningi í samvinnu við Listaháskóla Íslands til að koma því efni yfir á stafrænt form, en markmiðið með slíku er meðal annars auðvelda aðgengi að eldri uppfærslum á vegum Íslenska dansflokksins.

    Eftirfarandi fylgigögn fylgdu svari Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.







Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.