Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 316. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1116  —  316. mál.




Svar



sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Sigurðar Inga Jóhannssonar um viðbótartryggingar vegna salmonellu í fuglakjöti og kampýlóbakter-sýkinga.

     1.      Hvað líður vinnu við að hægt sé að krefjast viðbótartryggingar vegna salmonellu í fuglakjöti?
    Þegar sótt er um viðbótartryggingar vegna salmonellu þarf að senda gögn um niðurstöður úr salmonellueftirliti vegna síðustu tveggja ára vegna viðkomandi afurðar. Forsenda þess að unnt sé að fá viðbótartryggingar vegna salmonellu í fuglakjöti er sú að tíðni salmonellugreininga á öllum stigum framleiðslunnar hafi verið minni en 1% undangengin tvö ár. Tíðni salmonellugreininga í alifuglum hefur aukist frá seinni hluta ársins 2008 og fór yfir 1% mörkin á síðasta ári. Á árunum 2005, 2006 og 2007 greindist salmonella alls ekki í alifuglaeldi, en tíðnin árið 2008 var 0,7%, árið 2009 var tíðnin 0,8% og árið 2010 var tíðnin 5,2%.

     2.      Hvað þarf til að hægt sé að krefjast sömu viðbótartryggingar vegna kampýlóbakter- sýkinga og hvernig hyggst ráðherra beita sér fyrir að það nái fram að ganga?
    Í matvælalöggjöf Evrópusambandsins er ekki gert ráð fyrir viðbótartryggingum vegna kampýlóbakter í alifuglakjöti. Markmið Íslands er engu að síður að tryggja að gerðar verði sambærilegar kröfur fyrir innfluttar afurðir og innlenda framleiðslu á alifuglakjöti.