Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 397. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1128  —  397. mál.



                                  

Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Sigurðar Inga Jóhannssonar um gagnaver og tekjur ríkisins af þeim.

     1.      Hve umfangsmikil telur ráðherra að hýsing gagna í fyrirhuguðum gagnaverum hérlendis verði og hverjar eru tekjur ríkisins af þeirri starfsemi áætlaðar?
    Til að svara þessar spurningu er nauðsynlegt að gera grein fyrir ýmsum þeim skilgreiningum sem notast verður við þegar fjallað er um gagnaver og efni þeim tengt. Þær skilgreiningar sem hér eru notaðar byggjast á fylgigögnum vegna undirbúnings breytinga sem nú hafa verið lögfestar og varða þá atvinnustarfsemi sem hér um ræðir.
    Gagnaver er almennt heiti á sérbyggðri aðstöðu sem hýsir upplýsingavinnslu- og fjarskiptabúnað. Hugtakið nær yfir húsnæði ásamt raflögnum, kælingu, netkerfi og fjarskiptatengingar en getur einnig átt við þá upplýsingavinnslu og aðra starfsemi sem fram fer í húsnæðinu, sérfræðiþjónustu sem veitt er af starfsmönnum gagnaversins og rafræna þjónustu sem afhent er til þeirra sem tengjast kerfum í gagnaverinu.
    Gagnaver eru mjög mismunandi í útfærslu og stærð og fer það mest eftir þeirri þjónustu sem veitt er og þeim öryggis- og rekstrarkröfum sem uppfylla þarf. Í sumum tilvikum er þjónusta fjölþætt og þá er almennt vísað til þeirra sem hefðbundinna gagnavera. Mörg gagnaver eru hins vegar sérhæfð í starfsemi og þjónustu. Í greinargerð með frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sem lagt var fram á yfirstandandi þingi (208. mál á þskj. 227) er fjallað um ýmis hugtök sem tengjast þessari atvinnugrein.
    Almennt er unnt að skipta þjónustu gagnavera í átta þætti sem eru eftirfarandi:
     1.      Hýsing (e. Hosting and colocation).
     2.      Kerfisveita (e. application services).
     3.      Gagnavistun (e. data storage).
     4.      Afritunarþjónusta (e. data backup services).
     5.      Endurreisnarþjónusta (e. disaster recovery).
     6.      Tengiþjónusta (e. connectivity services).
     7.      Rekstrarþjónusta (e. managed services).
     8.      Sérhæfð þjónusta (e. professional services).
    Af framansögðu er ljóst að hýsing gagna er einungis einn af fjölmörgum þjónustuþáttum sem gagnaver annast, enda er fyrirspyrjandanum ekki ætlað að hafa verið að spyrjast fyrir um þann þátt starfseminnar sérstaklega.
    Hugtakið rafrænt afhent þjónusta (e. electronically supplied services) er skilgreint þannig að það feli í sér sérstaklega fimm þætti sem hafa má til hliðsjónar við túlkun hugtaksins. Þessir þættir eru í fyrsta lagi afhending á vefseturshýsingu og viðhald á forritum og búnaði í gegnum fjarvinnslu, í öðru lagi afhending hugbúnaðar og uppfærslur á honum, í þriðja lagi afhending mynda, texta og upplýsinga og veitt aðgengi úr gagnagrunnum, í fjórða lagi afhending tónlistar, kvikmynda og leikja og útsendingar og viðburðir tengdir stjórnmálum, menningu, listum, íþróttum, vísindum og afþreyingu og í fimmta lagi veitt fjarkennsla.
    Nú þegar framangreint frumvarp hefur orðið að lögum sem tekið hafa gildi er tiltekin þjónusta gagnavera skilgreind sem rafrænt afhent þjónusta.
    Ísland hefur marga kosti til að bera til þess að hér geti eflst og dafnað sú margþætta þjónusta sem tengist gagnaverum. Notkun endurnýjanlegrar orku sem ekki losar gróðurhúsalofttegundir skiptir miklu fyrir ímynd margra stórfyrirtækja. Hér á landi er hagstætt skattaumhverfi fyrir þau fyrirtæki sem kjósa að hafa starfsstöð hér á landi en síðar verður vikið að sérstöðu gagnavera í skattalegu samhengi. Staðsetning á Íslandi er talin mjög örugg, landrými mikið og ódýrt, og loftslag er mjög hagstætt fyrir það jafna hitastig innan húss sem gagnaver þurfa.
    Fjármálaráðuneytið hefur ekki gert sjálfstæðar athuganir á því hversu umfangsmikil starfsemi gagnavera gæti orðið. Fyrirtækið International Data Corporation, sem annast markaðsrannsóknir í upplýsingatækni, telur að gagnageymslumarkaðurinn í heiminum muni vaxa úr 32,4 milljörðum USD árið 2010 í 40,2 milljarða árið 2014 (sjá:
http://www.idc.com/research/viewdocsynopsis.jsp?containerId=226280&sectionId=null&e lementId=null&pageType=SYNOPSIS).
    Gagnaver eru talin mjög eftirsótt og hefur verið mikil samkeppni milli landa og landsvæða um að fá slíka starfsemi til sín. Þannig hafa einstök fylki Bandaríkjanna boðið eigendum slíkra fyrirtækja skattaafslætti og þau hafa getað valið á milli staða enda virðast þau ekki gera mjög miklar kröfur varðandi staðsetningu.
    Hlutur Íslands í framtíðarvexti gagnavera og þjónustu þeirra fer eftir ýmsu. Fjármálaráðuneytið hefur ekki gert sérstakar athuganir á því en telur að allar forsendur séu til þess að þessi atvinnugrein geti eflst og dafnað hér á landi. Eins og málum er nú komið er þurfa þeir sem kaupa þjónustu af gagnaverum ekki að hafa starfsstöð hér á landi og í þeim tilvikum munu tekjur ríkissjóðs einskorðast við skatttekjur af launum þeirra starfsmanna sem vinna þjónustustörf fyrir viðskiptavini gagnaveranna, af orkusölu til þeirra auk tekjuskatts af gagnaversfyrirtækjunum sjálfum. Kjósi þjónustuaðilar að hafa starfsstöð hér á landi bætast við tekjur af þeim hagnaði sem hér verður til. Skattaumhverfi hér er hagstætt miðað við það sem gerist í Evrópu að minnsta kosti og því ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að fyrirtæki kjósi að reka starfsstöðvar hérlendis.

     2.      Hvert er umfangið eða þörfin fyrir hýsingu innlendra aðila?
    Fjármálaráðuneytið hefur ekki forsendur til þess að gera sér grein fyrir því hvert umfang eða þörf fyrir hýsingu er hér á landi. Vísað er til svars við spurningu 3 hér á eftir.
                   
     3.      Hverjar eru tekjur ríkisins af hýsingu gagna í gagnaverum hérlendis?
    Fjármálaráðuneytið hefur aflað gagna um virðisaukaskattstekjur af starfsemi af þeim toga sem hér er til umræðu. Í atvinnugreinaflokkun Hagstofu Íslands er til atvinnugreinin gagnavinnsla, hýsing og tengd starfsemi (nr. 63110). Samkvæmt upplýsingum ríkisskattstjóra skiluðu 48 fyrirtæki í þeirri atvinnugrein framtölum fyrir árið 2009. Þau greiddu samtals 81,8 millj. kr. í tryggingargjald og 44,8 millj. kr í tekjuskatt. Samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrám greiddu starfsmenn fyrirtækja í þessari atvinnugrein 129,3 millj. kr. í staðgreiðslu útsvars og tekjuskatts árið 2009. Tölum um fjölda fyrirtækja sem teljast til atvinnugreinarinnar ber ekki alveg saman. Í svari við spurningu 4 er gerð grein fyrir þeim vandkvæðum sem eru á flokkun starfsemi á þessu sviði eftir atvinnugreinum.
    
     4.      Hverjar eru virðisaukaskattstekjur af hýsingu innlendra aðila í gagnaverum hérlendis?
    Fjármálaráðuneytið hefur kannað tekjur af virðisaukaskatti í atvinnugreininni 63110 sem fyrr er nefnd. Árið 2008 var um að ræða 33 aðila með nettóálagningu sem nam 73,2 millj. kr. Að baki álagningunni var heildarvelta sem nam 689 millj. kr. Árið eftir voru aðilarnir 31, nettóálagningin nam 82,5 m.kr og veltan 656 millj. kr. Á fyrstu 10 mánuðum nýliðins árs voru aðilarnir 30, nettóálagningin 78,2 m.kr og veltan var 556 millj. kr.
    Ráðuneytið kannaði einnig á vefnum hvaða aðilar byðu upp á hýsingu í lýsingu á starfsemi sinni. Sú athugun leiddi í ljós allmörg fyrirtæki, sem meðal annars var vitað að mundu ekki hafa skráð starfsemi sína í þá atvinnugrein sem ofangreindar upplýsingar ná til. Þær upplýsingar voru síðan bornar saman við lista yfir fyrirtæki í atvinnugrein 63110 (ráðuneytið hefur einungis aðgang að nöfnum fyrirtækja en ekki neinum upplýsingum um umfang starfseminnar) og þá kom í ljós að í atvinnugreinina eru skráð fyrirtæki sem tæpast eiga þar heima en einnig að á listann vantar fyrirtæki sem að mestu eða að hluta veita þjónustu við hýsingu gagna.
    Niðurstaða þessara athugana er að hýsing gagna í innlendum fyrirtækjum fyrir innlenda aðila fer fram í fyrirtækjum sem einnig veita fjölþætta aðra þjónustu. Upplýsingar um veltu og afkomu fyrirtækja í þeirri atvinnugrein sem gagnaver ættu að teljast til (og munu gera það ef þau stunda þá starfsemi að mestu eða öllu leyti) innhalda upplýsingar um fyrirtæki sem ekki starfa einvörðungu við hýsingu. Því er ekki hægt á þessu stigi málsins að svara spurningunni þannig að fullnægjandi megi teljast.