Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 87. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1165  —  87. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur, lögum um Landsvirkjun, lögum um samvinnufélög og lögum um sameignarfélög (stjórnarformaður, kynjahlutfall í stjórn).

Frá minni hluta viðskiptanefndar.



    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 139/2001, um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur, lögum nr. 42/1983, um Landsvirkjun, lögum nr. 22/1991, um samvinnufélög, og lögum nr. 50/2007, um sameignarfélög. Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu er annars vegar lagt til að við lögin bætist ákvæði um hlutföll kynjanna í stjórnum Orkuveitu Reykjavíkur og Landsvirkjunar og í stjórnum samvinnufélaga og sameignarfélaga. Hins vegar mælir frumvarpið fyrir um að bætt verði við lögin ákvæði þess efnis að formaður stjórnar verði ekki það sem kallað er „starfandi stjórnarformaður“.
    Viðskiptanefnd bárust nokkrar umsagnir við frumvarp þetta, þar á meðal frá Orkuveitu Reykjavíkur og Reykjavíkurborg, en efni frumvarpsins varðar málefni Orkuveitunnar beint. Í umsögn Orkuveitu Reykjavíkur kemur fram að síðustu vikur hafi eigendur hennar unnið að viðamikilli stefnumörkun fyrir fyrirtækið. Sú vinna sé langt komin og taki meðal annars á hlutverki og stöðu formanns stjórnar Orkuveitunnar. Í umsögninni segir að líklega muni leiða af þeirri stefnumörkun að breyta þurfi lögum um Orkuveituna. Ekki verði séð að svo brýnt sé að kveða á um hlutverk formanns þess sameignarfyrirtækis í lögum að ekki sé unnt að gefa eigendum Orkuveitunnar færi á að ljúka stefnumörkunarvinnu sinni.
    Þá er upplýst í umsögn Orkuveitu Reykjavíkur, varðandi þann hluta frumvarpsins þar sem kveðið er á um að hlutföll kynja í stjórn Orkuveitunnar skuli vera jöfn, að stjórn fyrirtækisins sé skipuð þremur körlum og þremur konum og að skipan varafulltrúa í stjórn sé með sama hætti. Af þeim orsökum sjái Orkuveitan ekki að brýnt sé að afgreiða frumvarpið nú.
    Í framhaldinu ítrekar Orkuveitan í umsögn sinni að vinna eigenda við mörkun eigendastefnu fyrir fyrirtækið sé langt á veg komin og þess óskað að eigendum fyrirtækisins verði gefið ráðrúm til þess að ljúka þeirri vinnu. Í framhaldinu skuli síðan tekin afstaða til þess hvort þörf sé á því að breyta lögum um Orkuveitu Reykjavíkur og þá í samráði og samstarfi við eigendur og stjórn fyrirtækisins.
    Minni hlutinn bendir á að í umsögn Reykjavíkurborgar gerir borgarlögmaður alvarlegar athugasemdir við að hvorki hafi verið óskað umsagnar eigenda Orkuveitu Reykjavíkur, þ.e. Reykjavíkurborgar, Akranesbæjar og Borgarbyggðar, né Orkuveitunnar sjálfrar um frumvarp sem varðar fyrirtækið. Borgarlögmaður segir með ólíkindum að lagt sé fram frumvarp sem varðar beinlínis verkaskiptingu og umboð stjórnarformanns með þeim hætti sem lagt er til í frumvarpinu án þess að Alþingi hafi þótt svo mikið sem tilefni til að heyra sjónarmið eigenda fyrirtækisins eða fyrirtækisins sjálfs. Að öðru leyti er tekið undir framangreind sjónarmið Orkuveitu Reykjavíkur í umsögn Reykjavíkurborgar.
    Minni hlutinn tekur undir athugasemdir Orkuveitu Reykjavíkur og Reykjavíkurborgar. Telur minni hlutinn eðlilegt og sanngjarnt að fyrirtækinu og eigendum þess verði gert kleift að ljúka sinni vinnu varðandi endurskoðun á eigendastefnu fyrirtækisins og stefnumörkun til framtíðar að öðru leyti áður en Alþingi tekur fram fyrir hendurnar á þeim sem að þeirri vinnu koma. Því sé eðlilegt að fresta efnislegri umfjöllun um málið og afgreiðslu þess þar til afrakstur þessarar stefnumörkunarvinnu liggur fyrir.
    Minni hlutinn vekur jafnframt athygli á athugasemdum sem fram koma í umsögn Seðlabanka Íslands um þann þátt frumvarpsins sem lýtur að starfandi stjórnarformönnum. Í umsögninni kemur fram að Seðlabankinn telji að slík ákvæði kunni að vera eðlileg hvað varðar Landsvirkjun og Orkuveitu Reykjavíkur og ítrekar bankinn þá skoðun sína að slík ákvæði séu gagnleg hvað varðar fjármálafyrirtæki. Þrátt fyrir það telji Seðlabankinn ekki rétt að láta slíkt gilda almennt um sameignar- og samvinnufélög. Bankinn segir að slík félög séu gjarnan í eigu eins aðila eða þétts eigendahóps, og stjórn þar af leiðandi með mikil tengsl við framkvæmdastjórn, og því ekki knýjandi nauðsyn að tryggja vernd hluthafa með þessum hætti, sem hljóti að vera markmiðið. Þá segir Seðlabanki Íslands að ekki verði séð að slík ákvæði skuli gilda um einkahlutafélög.
    Í ljósi þess sem að framan greinir telur minni hlutinn að ekki sé tímabært að ráðast í þær lagabreytingar sem frumvarpið mælir fyrir um.
    Verði hins vegar ekki fallist á að fresta afgreiðslu málsins í ljósi þeirra sjónarmiða sem að framan greinir leggur minni hlutinn til að gerðar verði frekari breytingar á lögum um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur, nr. 139/2001, með síðari breytingum, og lögum um Landsvirkjun, nr. 42/1983, með síðari breytingum.
    Þær breytingar lúta að því að þrengja núgildandi ákvæði laga um orkufyrirtækin tvö er varða tilgang og fjárfestingarheimildir þeirra. Samkvæmt núgildandi ákvæðum laganna eru heimildir fyrirtækjanna til að stunda eða taka þátt í starfsemi á ólíkum sviðum mjög víðtækar þar sem tilgangur þeirra er m.a. sagður vera „viðskipta- og fjármálastarfsemi“. Því miður hefur reynslan sýnt að ekki fer vel á því að orkufyrirtæki taki þátt í starfsemi sem er óskyld orkurekstri.
    Mismunandi er með hvaða hætti fyrirtæki á orkusviði hafa nýtt þessar rúmu lagaheimildir til reksturs og fjárfestingar. Segja má að eitt þeirra, Orkuveita Reykjavíkur, hafi gengið hættulega langt í þeim efnum og farið út í alls kyns óskyldan rekstur og greitt fyrir dýru verði. Dæmi um slíkar fjárfestingar Orkuveitu Reykjavíkur eru rekstur net- og fjarskiptafyrirtækja, fiskeldi, risarækjueldi, hörverksmiðja og ljósmyndabanki.
    Verði breytingartillögur minni hlutans samþykktar verður starfssvið Orkuveitu Reykjavíkur og Landsvirkjunar þrengt. Í framhaldinu telur minni hlutinn ástæðu til þess að farið verði yfir sambærileg lagaákvæði sem gilda um önnur orkufyrirtæki svo að samræmis verði gætt í löggjöfinni, þótt flest þeirra hafi haldið sig við rekstur sem samræmist vel ákvæðum þeirra laga sem gilda um rekstur þeirra.
    Þess skal sérstaklega getið að þrátt fyrir framangreindar breytingartillögur leggur minni hlutinn til að fyrirtækjum verði eftir sem áður heimilað að eiga áfram þær eignir sem þau hafa þegar keypt á grundvelli gildandi laga. Við sölu slíkra eigna og endurfjárfestingar yrði fyrirtækjunum þó gert skylt að fylgja gildandi lögum á hverjum tíma.

Alþingi, 29. mars 2011.



Guðlaugur Þór Þórðarson,


frsm.


Sigurður Kári Kristjánsson.