Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 697. máls.

Þskj. 1216  —  697. mál.



Frumvarp til laga

um breytingar á ýmsum lögum vegna þjónustuviðskipta
á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins.

(Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)




I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.
1. gr.

    Við a-lið 1. mgr. 8. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ríkisborgarar og lögaðilar annarra ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins og aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu, svo og Færeyingar og lögaðilar í Færeyjum, eru undanþegnir búsetuskilyrðinu.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 28/1998, um verslunaratvinnu, með síðari breytingum.
2. gr.

    1. mgr. 12. gr. laganna orðast svo:
    Hver sá sem vill reka verslun eða umboðssölu með notuð ökutæki skal hafa til þess leyfi sýslumanns. Efnahags- og viðskiptaráðherra er heimilt að ákveða að leyfisveitingar verði á hendi eins sýslumanns.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
     a.      Orðin „skal veitt til fimm ára í senn og“ í 1. málsl. 1. mgr. falla brott.
     b.      Við 1. tölul. 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Skilyrðið um búsetu á þó ekki við um ríkisborgara og lögaðila annarra aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins, aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyinga.
     c.      Í stað orðanna „viðurkenndu vátryggingafélagi“ í 5. tölul. 1. mgr. kemur: vátryggingafélagi sem hefur heimild til að veita þjónustu á Íslandi.
     d.      2. mgr. orðast svo:
                      Ef lögaðili á í hlut skulu allir stjórnarmenn fullnægja skilyrðum 1.–4. tölul. 1. mgr.

4. gr.

    2. mgr. 19. gr. laganna orðast svo:
    Sýslumaður heldur skrá yfir þá sem hafa leyfi til starfsemi samkvæmt þessum kafla. Efnahags- og viðskiptaráðherra er heimilt að ákveða að skráning leyfa sé á hendi eins sýslumanns.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 20. gr. laganna:
     a.      Orðin „í umdæmi því þar sem uppboð skal haldið hverju sinni“ í 1. málsl. falla brott.
     b.      Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Efnahags- og viðskiptaráðherra er heimilt að ákveða að leyfisveitingar verði á hendi eins sýslumanns.

6. gr.

    Orðin „í umdæmi sínu“ í 5. mgr. 23. gr. laganna falla brott.

III. KAFLI
Breyting á lögum nr. 146/1996, um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, með síðari breytingum.
7. gr.

    Orðið „tímabundna“ í 10. tölul. 2. mgr. 13. gr. laganna fellur brott.

8. gr.

    Í stað orðanna „verður að“ í 1. málsl. 13. gr. a, 1. málsl. 13. gr. b, 1. málsl. 1. mgr. 13. gr. c og 1. málsl. 1. mgr. 13. gr. d laganna kemur: skal, og við 13. gr. a, 13. gr. b, 1. mgr. 13. gr. c og 1. mgr. 13. gr. d kemur nýr töluliður, svohljóðandi: ekki hafa verið sviptur löggildingu Brunamálastofnunar til rafvirkjunarstarfa síðustu tólf mánuði.

IV. KAFLI
Breyting á lögum nr. 145/1994, um bókhald, með síðari breytingum.
9. gr.

    1. tölul. 2. mgr. 43. gr. laganna orðast svo: Vera búsettur hér á landi. Skilyrðið um búsetu á þó ekki við um ríkisborgara annarra aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins, aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyinga.

V. KAFLI
Breyting á lögum nr. 79/2008, um endurskoðendur.
10. gr.

    Í stað orðsins „starfsleyfi“ í 1. mgr. 6. gr. laganna kemur: heimild til að veita þjónustu.

VI. KAFLI
Breyting á húsaleigulögum, nr. 36/1994.
11. gr.

    1. tölul. 1. mgr. 74. gr. laganna fellur brott.

VII. KAFLI
Breyting á lögum nr. 64/2000, um bílaleigur.
12. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      Við 1. tölul. 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Skilyrðið um búsetu á þó ekki við um ríkisborgara annarra aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins, aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyinga.
     b.      Í stað orðanna „viðurkenndu vátryggingafélagi“ í 2. mgr. kemur: vátryggingafélagi sem hefur heimild til að veita þjónustu á Íslandi.

VIII. KAFLI
Breyting á vopnalögum, nr. 16/1998.
13. gr.

    Við 1. mgr. 12. gr., 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Ef umsækjandi er ríkisborgari eða lögaðili annars ríkis innan Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildarríkis stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu skal umsókn um leyfi beint til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Hið sama gildir um ríkisborgara Færeyja og lögaðila þar í landi.

IX. KAFLI
Gildistaka.
14. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/123/EB frá 12. desember 2006, hér eftir nefnd þjónustutilskipunin eða tilskipunin, var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 45/2009 frá 9. júní 2009. Með frumvarpi til laga um þjónustuviðskipti á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins, sem lagt er fram samhliða frumvarpi þessu, eru efnisákvæði tilskipunarinnar innleidd. Með þessu frumvarpi eru hins vegar gerðar nauðsynlegar breytingar á gildandi lögum. Frumvarp þetta var lagt fram á 138. löggjafarþingi en hlaut þá ekki afgreiðslu og er nú endurflutt. Gerðar hafa verið breytingar á III. kafla frumvarpsins til leiðréttingar, en að öðru leyti er frumvarpið lagt fram óbreytt.
    Ákvæði tilskipunarinnar gera kröfu um að aðildarríkin yfirfari öll leyfisferli og einfaldi þau eins og kostur er. Samkvæmt ákvæðum hennar er aðildarríkjunum óheimilt að setja ákveðin skilyrði fyrir veitingu leyfa en eins er kveðið á um ákveðna málsmeðferð við leyfisveitingu.
    Í ljósi þessa voru öll ráðuneyti beðin um að yfirfara löggjöf á sínu sviði til að kanna hvort hún stangaðist á við ákvæði tilskipunarinnar og gera tillögu að breytingum. Niðurstöður þeirrar yfirferðar er að finna í frumvarpi þessu.
    Í 1. gr., b-lið 3. gr., 9. gr., a-lið 12. gr. og 13. gr. frumvarpsins er lagt til að breytingar verði gerðar á viðeigandi lögum á þann máta að skilyrði um búsetu nái ekki til ríkisborgara og lögaðila innan Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu né ríkisborgara og lögaðila í Færeyjum. Ástæða þess að lögaðilar og ríkisborgarar Fríverslunarsamtaka Evrópu og Færeyja eru einnig undanþegnir búsetuskilyrðum eru annars vegar Vaduz-samningurinn sem er hinn nýi stofnsamningur EFTA sem tók gildi 1. júní 2002 og hins vegar Hoyvíkursamningurinn sem er samningur milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og heimastjórnar Færeyja hins vegar. Samkvæmt Vaduz- samningnum hafa ríkisborgarar EFTA-ríkjanna rétt til komu, atvinnu og búsetu í öðrum aðildarríkjum samningsins og til að bjóða fram þjónustu sína í tiltekinn tíma og rétt til jafnræðis. Þá er markmið Hoyvíkursamningsins að koma á fót sameiginlegu efnahagssvæði á yfirráðasvæðum Íslands og Færeyja. Tekur samningurinn til vöruviðskipta, þjónustuviðskipta, frjálsrar farar fólks og búseturéttar, fjármagnsflutninga og fjárfestinga, staðfesturéttar, samkeppni, ríkiseinkasölu, ríkisaðstoðar og opinberra innkaupa og mælir samningurinn fyrir um bann við mismunun á grundvelli ríkisfangs og staðfestustaðar. Af fyrrgreindum sökum eru ríkisborgarar og lögaðilar Fríverslunarsamtaka Evrópu og Færeyja undanþegnir búsetuskilyrðum.
    Um nánari skýringar á þjónustutilskipuninni og skilyrðum hennar vísast til frumvarps til laga um þjónustuviðskipti á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í a-lið 1. mgr. 8. gr. laga nr. 85/2007 segir að til að öðlast rekstrarleyfi fyrir þeirri starfsemi sem fellur undir lögin sé skilyrði að hafa búsetu á Íslandi. Í greininni er lagt til að skilyrðið um búsetu nái ekki til ríkisborgara og lögaðila annarra ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu né ríkisborgara og lögaðila í Færeyjum, enda er slíkt skilyrði í andstöðu við ákvæði tilskipunarinnar.

Um 2. gr.

    Samkvæmt núgildandi lögum um verslunaratvinnu veita sýslumenn, hver í sínu umdæmi, leyfi til verslunar með notuð ökutæki. Í þessari grein er lagt til að efnahags- og viðskiptaráðherra geti ákveðið að það verkefni verði fært í hendur einu sýslumannsembætti. Breytingin er til þess fallin að einfalda leyfisveitingarferlið en á undanförnum árum hefur færst í vöxt að ákveðnir sýslumenn taki að sér verkefni sem áður heyrðu undir alla sýslumenn, sbr. löggildingu fasteignasala sem nú fer alfarið fram hjá sýslumanninum í Hafnarfirði, óháð því hvar á landinu fasteignasalinn hyggst starfa.

Um 3. gr.

    Um a-lið.
    Samkvæmt núgildandi lögum eru leyfi til sölu notaðra ökutækja veitt til fimm ára í senn. Hér er lagt til að þau tímamörk verði felld úr gildi og að leyfin verði ótímabundin. Í 9. gr. frumvarps til laga um þjónustuviðskipti er kveðið á um í hvaða tilfellum er heimilt að tímabinda leyfi, sbr. 11. gr. þjónustutilskipunarinnar. Þar segir að óheimilt sé að veita leyfi til takmarkaðs tíma nema:
     1.      leyfið endurnýist sjálfkrafa eða endurnýjun sé aðeins háð því að skilyrði séu áfram uppfyllt,
     2.      fjöldi tiltækra leyfa sé takmarkaður með vísan til brýnna almannahagsmuna,
     3.      hægt sé að rökstyðja takmarkaðan gildistíma með vísan til brýnna almannahagsmuna.
    Í þessu tilfelli er ekki talið nauðsynlegt að tímabinda leyfið með vísan til fyrrgreindra sjónarmiða, nægjanlegt sé að hafa eftirlit með starfseminni.
     Um b-lið.
    Í 1. tölul. 1. mgr. 13. gr. núgildandi laga segir að til að öðlast heimild til að versla með notuð ökutæki sé skilyrði að hafa búsetu á Íslandi. Hér er lagt til að skilyrðið um búsetu nái ekki til ríkisborgara og lögaðila annarra aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins, aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyja, enda er slíkt skilyrði í andstöðu við ákvæði tilskipunarinnar.
     Um c-lið.
    Samkvæmt núgildandi lögum verður aðili að hafa starfsábyrgðartryggingu hjá viðurkenndu vátryggingafélagi til að geta öðlast leyfi til sölu notaðra ökutækja. Hér er lagt til að í stað orðanna „viðurkenndu vátryggingafélagi“ komi: vátryggingafélagi sem hefur heimild til að veita þjónustu á Íslandi. Með þessari breytingu er tekinn af allur vafi um það að hér er átt við íslensk vátryggingafélög, vátryggingafélög sem hafa starfsstöðvar hér á landi sem og vátryggingafélög sem hafa heimild til að veita þjónustu á Íslandi án starfsstöðvar, í samræmi við lög nr. 56/2010, um vátryggingastarfsemi.
    Um d-lið.
    Í 2. mgr. 13. gr. núgildandi laga er tekið fram að stjórnarmenn lögaðila skuli uppfylla skilyrði 1.–4. tölul. 1. mgr. sömu greinar. Í þessum lið er verið að laga orðalag 2. mgr. 13. gr. ásamt því að fella niður vísun til þess að búsetuskilyrði 1. tölul. 1. mgr. 13. gr. eigi ekki við um stjórnarmenn sem búsettir eru á Evrópska efnahagssvæðinu, í aðildarríkjum stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum en skv. b-lið 3. gr. frumvarps þessa er sams konar undanþága frá búsetuskilyrði nú tekin fram í 1. tölul. 1. mgr. 13. gr. laganna og því óþarfi að hún sé endurtekin í 2. mgr. 13. gr.

Um 4. gr.

    Eins og fram kemur í athugasemdum við 2. gr. frumvarpsins er lagt til að efnahags- og viðskiptaráðherra geti ákveðið að veiting leyfis til verslunar með notuð ökutæki verði hjá einum sýslumanni, óháð því hvar á landinu bílasalan hyggst starfa. Af þeim sökum er lagt til að efnahags- og viðskiptaráðherra geti einnig ákveðið að skráning leyfa sé hjá einum sýslumanni, en samkvæmt núgildandi lögum eru það lögreglustjórar sem halda skrá yfir þá sem hafa leyfi til sölu notaðra bifreiða. Eftirlit með starfsemi bílasala er eftir sem áður í höndum lögreglustjóra í því umdæmi þar sem starfsemin fer fram.

Um 5. og 6. gr.

    Samkvæmt núgildandi lögum um verslunaratvinnu hafa þeir sem eru með skráðan verslunarrekstur samkvæmt lögunum heimild til að selja lausafjármuni á frjálsu uppboði en frjáls uppboð utan fastrar starfsstöðvar eru háð leyfi sýslumanns í því umdæmi sem uppboðið skal haldið hverju sinni. Í þessari grein er lagt til að efnahags- og viðskiptaráðherra geti ákveðið að sú leyfisveiting verði færð til eins sýslumanns. Breytingin er til þess fallin að einfalda leyfisveitingarferlið en á undanförnum árum hefur það færst í vöxt að ákveðnir sýslumenn taki að sér verkefni sem áður hafa heyrt undir alla sýslumenn og má í því sambandi nefna löggildingu fasteignasala sem nú fer alfarið fram hjá sýslumanninum í Hafnarfirði, óháð því hvar á landinu fasteignasalinn hyggst starfa.

Um 7. gr.

    Í 13. gr. laga nr. 146/1996, um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, er kveðið á um að setja eigi í reglugerð um raforkuvirki ákvæði til varnar hættu og tjóni af rafmagni og til varnar truflunum á starfrækslu raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga sem fyrir eru eða síðar kunna að koma til. Í reglugerðinni skal m.a. kveða á um starfsleyfi tilnefndra ábyrgðarmanna rafveitna, starfsleyfi rafskoðunarstofa og tímabundna löggildingu rafverktaka. Vegna frumvarps til laga um þjónustuviðskipti er í 7. gr. frumvarpsins lagt til að orðið „tímabundna“ sé fellt brott.
    Í 9. gr. frumvarps til laga um þjónustuviðskipti er kveðið á um í hvaða tilfellum heimilt er að tímabinda leyfi og er þar verið að innleiða 11. gr. þjónustutilskipunarinnar. Þar segir að óheimilt sé að veita leyfi til takmarkaðs tíma nema
     1.      leyfið endurnýist sjálfkrafa eða endurnýjun sé aðeins háð því að skilyrði séu áfram uppfyllt,
     2.      fjöldi tiltækra leyfa sé takmarkaður með vísan til brýnna almannahagsmuna eða
     3.      hægt sé að réttlæta takmarkaðan gildistíma með vísan til brýnna almannahagsmuna.
    Í þessu tilfelli er ekki talið nauðsynlegt að tímabinda gildistíma löggildingar með vísan til fyrrgreindra sjónarmiða heldur er talið nægjanlegt að eftirlit sé með starfseminni.

Um 8. gr.

    Í 13. gr. a – 13. gr. d í lögum nr. 146/1996 er fjallað um þau skilyrði sem aðilar er sækja um ákveðnar tegundir löggildingar til rafvirkjunarstarfa þurfa að uppfylla. Í 8. gr. frumvarpsins er lagt til að bætt verði við umræddar greinar nýju skilyrði sem kveður á um að umsækjandi um löggildingu megi ekki hafa verið sviptur löggildingu Brunamálastofnunar til rafvirkjunarstarfa síðustu tólf mánuði. Breytingin er lögð til í ljósi þess að með 7. gr. frumvarpsins er lagt til að leyfi verði ekki lengur tímabundin. Telja verður að breytingin hafi ákveðið forvarnagildi þar sem hið nýja skilyrði kemur í veg fyrir að aðili sem sviptur hefur verið löggildingu geti sótt strax um hana aftur.
    Einnig er lögð til orðalagsbreyting á inngangsmálsliðum sem nauðsynleg er vegna áðurnefndra breytinga.

Um 9. gr.

    Í 1. tölul. 2. mgr. 43. gr. núgildandi laga um bókhald segir að til að öðlast viðurkenningu sem bókari verði aðili að vera heimilisfastur á Íslandi. Með breytingunum er lagt til að í stað þess að kveða á um heimilisfesti verði kveðið á um búsetu og að skilyrðið um búsetu nái ekki til ríkisborgara annarra aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins, aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyinga.

Um 10. gr.

    Sjá athugasemdir við c-lið 3. gr. frumvarpsins.

Um 11. gr.

    Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 74. gr. núgildandi húsaleigulaga verður sá sem ætlar að reka leigumiðlun að eiga lögheimili á Íslandi. Það skilyrði stangast á við ákvæði þjónustutilskipunarinnar og því er lagt til að það verði fellt niður.

Um 12. gr.

    Hvað a-lið varðar, sjá athugasemdir við 1. gr., b-lið 3. gr. og 9. gr. frumvarpsins og hvað b-lið varðar, sjá athugasemdir við c-lið 3. gr. og 10. gr. frumvarpsins.

Um 13. gr.

    Samkvæmt núgildandi vopnalögum skal beina umsóknum um leyfi samkvæmt lögunum til lögreglustjóra í því umdæmi þar sem umsækjandi á lögheimili. Það gerir það að verkum að eingöngu þeir sem eiga lögheimili á Íslandi geta sótt um slíkt leyfi en það skilyrði er ósamrýmanlegt þjónustutilskipuninni. Af þeim sökum er lagt til að ef umsækjandi er ríkisborgari eða lögaðili ríkis innan Evrópska efnahagssvæðisins, Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum skuli beina umsókn um leyfi til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

Um 14. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna þjónustuviðskipta á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins.

    Markmið frumvarpsins er að gera nauðsynlegar breytingar á ýmsum lögum vegna innleiðingar tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2006/123 um þjónustu á innri markaðnum en frumvarp þetta er lagt fram samhliða frumvarpi til laga um þjónustuviðskipti á innri markaðnum. Við undirbúning frumvarpsins voru öll ráðuneyti beðin um að yfirfara löggjöf á sínu sviði til að kanna hvort hún stangaðist á við ákvæði þjónustutilskipunarinnar. Niðurstöðu þeirrar yfirferðar er að finna í þessu frumvarpi. Í frumvarpinu er m.a. gert ráð fyrir að lögum nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, verði breytt á þann veg að skilyrði sem kveður á um að búseta á Íslandi sé forsenda rekstrarleyfis samkvæmt lögunum gildi ekki um ríkisborgara og lögaðila innan EES, aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyinga. Sams konar breytingar eru lagðar til í lögum nr. 28/1998, um verslunaratvinnu, lögum nr. 145/1994, um bókhald, og lögum nr. 64/2000, um bílaleigur. Þá er lagt til að tímabinding leyfa samkvæmt lögum um verslunaratvinnu og samkvæmt lögum nr. 146/1996, um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, verði felld niður en þau eru nú veitt til fimm ára í senn.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.