Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 707. máls.

Þskj. 1226  —  707. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar
á villtum fuglum og villtum spendýrum, með síðari breytingum (hreindýraveiðar).

(Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)



1. gr.

    Í stað 9. mgr. 14. gr. laganna koma sex nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Enginn má stunda hreindýraveiðar nema hann hafi til þess veiðileyfi og sé í fylgd með leiðsögumanni. Áður en veiðimaður fer til hreindýraveiða skal hann hafa staðist verklegt skotpróf á síðustu tólf mánuðum. Veiðimaður þarf að skila inn staðfestingu á að hann hafi lokið verklegu skotprófi fyrir 1. júlí ár hvert. Skili veiðimaður ekki inn staðfestingu skal veiðileyfi hans úthlutað að nýju.
    Enginn getur tekið að sér leiðsögn með hreindýraveiðum nema hann hafi til þess leyfi Umhverfisstofnunar. Leyfi skal veitt til allt að fjögurra ára í senn og miðast við tiltekin veiðisvæði. Til að geta hlotið leyfi sem leiðsögumaður þarf umsækjandi að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
     1.      Hafa skotvopnaleyfi (B-flokk) og veiðikort.
     2.      Hafa staðfestingu á að hann hafi staðist verklegt skotpróf á síðustu tólf mánuðum.
     3.      Hafa þekkingu og reynslu af veiðum, fláningu og meðferð afurða hreindýra.
     4.      Hafa staðfestingu á þátttöku í námskeiðum Umhverfisstofnunar og að hann hafi lokið prófi í kjölfar þeirra með fullnægjandi árangri í:
                  a.      líffræði, sýklafræði, vistfræði og náttúruvernd með sérstöku tilliti til hreindýra,
                  b.      líffærafræði, þekkingu á helstu sjúkdómum og sníkjudýrum sem finnast á Íslandi og töku sýna,
                  c.      náttúruverndarlögum, lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, reglugerð um hreindýraveiðar og öðrum lögum sem máli skipta,
                  d.      leiðsögn,
                  e.      meðferð skotvopna,
                  f.      meðferð og notkun áttavita og GPS-staðsetningartækja,
                  g.      veiði villtra dýra og siðfræði og siðareglum veiðimanna,
                  h.      staðháttum á viðkomandi veiðisvæði.
     5.      Hafa tvisvar á sama veiðitímabili leiðsagt með hreindýraveiðum undir handleiðslu starfandi leiðsögumanns sem valinn er af Umhverfisstofnun.
     6.      Hafa sótt skyndihjálparnámskeið á síðustu tveimur árum.
    Umhverfisstofnun, í samráði við hreindýraráð, heldur námskeið skv. 4. tölul.10. mgr. og skal Umhverfisstofnun meta þörf á að halda slík námskeið. Umhverfisstofnun er heimilt að innheimta gjald fyrir námskeið á vegum hennar, prófa í kjölfar námskeiða, verkleg skotpróf og fyrir útgáfu eða endurnýjun leyfa fyrir leiðsögumenn. Gjöld skulu aldrei vera hærri en sem nemur rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu. Ráðherra setur að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar gjaldskrá fyrir námskeið á vegum hennar, prófa í kjölfar námskeiða, verklegra skotprófa og fyrir útgáfu eða endurnýjun leyfa fyrir leiðsögumenn.
    Til að fá endurnýjun leyfis sem leiðsögumaður þarf umsækjandi að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
     1.      Hafa skotvopnaleyfi (B-flokk) og veiðikort.
     2.      Hafa staðfestingu á að hann hafi staðist verklegt skotpróf á síðustu tólf mánuðum.
     3.      Hafa staðfestingu á þátttöku í endurmenntunarnámskeiði Umhverfisstofnunar.
     4.      Hafa sótt skyndihjálparnámskeið á síðustu tveimur árum.
Vilji leiðsögumaður bæta við sig veiðisvæðum hvort sem er við endurnýjun eða í öðrum tilvikum þarf hann að auki að standast próf í staðháttum á viðkomandi veiðisvæði.
    Hlutverk leiðsögumanna með hreindýraveiðum er að fylgja veiðimanni um veiðisvæði, hjálpa honum að þekkja þau dýr sem hann má veiða, sjá til þess að veiðimaður fari rétt að við veiðarnar, skrái þær upplýsingar á veiðiskýrslur sem krafist er og skili inn veiðiskýrslum rétt útfylltum. Leiðsögumaður á að sjá til þess að veiðar séu í samræmi við lög og reglur. Brjóti leiðsögumaður gegn lögum og reglugerðum getur Umhverfisstofnun veitt honum áminningu eða svipt hann leyfi séu sakir alvarlegar eða ítrekaðar. Hafi leiðsögumaður verið sviptur leyfi getur hann öðlast slíkt leyfi á ný þegar fjögur ár eru liðin frá sviptingu enda fullnægi hann þeim kröfum sem gerðar eru þegar um nýtt leyfi er að ræða, sbr. 10. mgr. Ráðherra er heimilt að kveða nánar á í reglugerð um hlutverk og skyldur leiðsögumanna með hreindýraveiðum að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar og hreindýraráðs.
    Aðeins er heimilt að úthluta arði af hreindýraveiðum til þeirra sem heimila hreindýraveiðar á landi sínu allt veiðitímabilið. Eigandi eða ábúandi jarðar skal fyrir 1. júlí ár hvert tilkynna til Umhverfisstofnunar hvort hann heimili veiðar á landi sínu eður eigi. Eigandi eða ábúandi þarf þó ekki að tilkynna afstöðu sína árlega hafi hann gert það einu sinni og ekki orðið breyting á afstöðu hans. Umhverfisstofnun er heimilt að miða við afstöðu eiganda eða ábúanda frá fyrri veiðitímabilum hafi hann ekki tilkynnt um afstöðu sína fyrir 1. júlí.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Inngangur.
    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, hvað varðar reglur um hreindýraveiðar, leiðsögumenn með hreindýraveiðum og skiptingu arðs af hreindýraveiðum. Var frumvarp þetta samið í umhverfisráðuneytinu en byggt var á tillögum Umhverfisstofnunar um lagabreytingar og athugasemda sem stofnuninni bárust frá Seyðisfjarðarkaupstað, hreindýraráði, Félagi leiðsögumanna með hreindýraveiðum, Sveitarfélaginu Fljótsdalshéraði og Náttúrustofu Austurlands.

II. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Á undanförnum missirum hefur komið í ljós að reglur um útgáfu leyfa fyrir leiðsögumenn með hreindýraveiðum eru óskýrar. Á árinu 2008 kvað umhverfisráðuneytið upp úrskurð í máli nr. 07050187 þar sem ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 4. apríl 2007 um að synja útgáfu leyfis til leiðsögu með hreindýraveiðum var felld úr gildi. Hafði Umhverfisstofnun synjað kæranda um leiðsögumannaréttindi með hreindýraveiðum með vísan til þess að kærandi hefði ekki sótt námskeið Umhverfisstofnunar skv. 3. tölul. 2. mgr. 12. gr. reglugerðar um stjórn hreindýraveiða, nr. 486/2003, en að mati stofnunarinnar uppfyllti kærandi þess vegna ekki skilyrði reglugerðarinnar. Stofnunin gat ekki fallist á að unnt væri að túlka ákvæði 3. tölul. 2. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar þannig að unnt væri að leggja að jöfnu áunna þekkingu á ýmsum sviðum við það námskeið sem kveðið var á um í umræddri reglugerð að haldið skyldi sérstaklega fyrir tilvonandi leiðsögumenn með hreindýraveiðum. Í 3. tölul. 2. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar segir að til þess að geta hlotið starfsleyfi sem leiðsögumaður þurfi umsækjandi að uppfylla skilyrði um þátttöku í námskeiðum í ýmsu, eins og líffræði, lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, reglugerð um hreindýraveiðar, meðferð skotvopna, meðferð og notkun áttavita og GPS-staðsetningartækja og fleiru. Í 3. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar segir að Umhverfisstofnun, í samráði við hreindýraráð, haldi námskeið skv. 3. tölul. 2. mgr. og skuli Umhverfisstofnun að jafnaði á fjögurra ára fresti kanna þörf á að haldin verði slík námskeið. Í úrskurði sínum taldi ráðuneytið ekki unnt að útiloka að umsækjendur gætu aflað sér þeirrar þekkingar sem um geti í 3. tölul. 2. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar með öðrum hætti og væri Umhverfisstofnun og ráðuneytinu skylt að taka til skoðunar gögn um önnur námskeið sem umsækjandi kynni að hafa sótt. Sama ár komst Umhverfisstofnun að þeirri niðurstöðu að leiðsögumenn sem hafa fengið útgefið leyfi til leiðsagnar á einu svæði ættu rétt til útgáfu leyfis til leiðsagnar á öðrum svæðum.
    Gerði Umhverfisstofnun tillögur til ráðuneytisins um breytingar á lögum nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum, og voru tillögurnar afmarkaðar við eftirfarandi þætti:
     1.      Leyfi fyrir leiðsögumenn. Að sett yrðu skilyrði fyrir leyfi í lög og að þau tækju til atriða varðandi námskeið, próftökuheimild eftir setu á námskeiðum og endurmenntunarnámskeiðum Umhverfisstofnunar. Enn fremur að gerð yrði krafa um þekkingu á staðháttum, færni í skotfimi, að leiðsögumenn hefðu leiðsagt undir handleiðslu starfandi leiðsögumanna og áréttað yrði að leiðsögumenn ættu að sjá til þess að veiðar færu fram samkvæmt lögum og reglugerðum.
     2.      Arður. Að óheimilt yrði að láta arð af hreindýraveiðum ganga til þeirra sem ekki heimila hreindýraveiðar á landi sínu.
     3.      Skotpróf. Að hreindýraveiðimenn hefðu staðist verklegt skotpróf á síðustu 12 mánuðum.
     4.      Gjöld til Umhverfisstofnunar. Að tekið yrði gjald fyrir útgáfu og endurnýjun leyfa fyrir leiðsögumenn.
    Yrði markmið lagasetningarinnar að gera meiri kröfur til veiðimanna hreindýra, styrkja lagastoð ákvæða sem kveðið hefur verið á um í reglugerðum varðandi leiðsögumenn og skýra betur kröfur um þekkingu þeirra og enn fremur að styrkja lagastoð ákvæða um arðsúthlutun til landeigenda ásamt því að gera auknar kröfur þar að lútandi.

III. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir breytingu á 14. gr. laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Breyting verður á 9. mgr. 14. gr. laganna, þar sem gerð verður krafa um skotpróf fyrir veiðimenn hreindýra, ásamt því að bætt verður við greinina fimm nýjum málsgreinum er fjalla um kröfur til þekkingar leiðsögumanna með hreindýraveiðum, ákvæði um námskeið fyrir verðandi leiðsögumenn með hreindýraveiðum og heimild til gjaldtöku fyrir námskeið, kröfur um endurmenntun leiðsögumanna með hreindýraveiðum, hlutverk leiðsögumanna hreindýraveiða og reglur varðandi arðsúthlutun. Reglur um leiðsögumenn hefur verið að finna í reglugerð nr. 486/2003 og reglur um arðsúthlutun hefur verið að finna í reglugerð nr. 487/2003. Fyrirmynd að kröfu um skotpróf veiðimanna hreindýra er sótt til Norðurlandanna.

IV. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Ekkert í frumvarpinu gaf tilefni til að skoða samræmi við stjórnarskrá né alþjóðlegar skuldbindingar.

V. Samráð.
    Frumvarpið mun fyrst og fremst snerta leiðsögumenn með hreindýraveiðum en einnig hafa ákvæði um skotveiðipróf áhrif á veiðimenn hreindýra og ákvæði varðandi arð mun hafa áhrif á landeigendur. Tillögur Umhverfisstofnunar um breytingar á lögunum voru sendar nokkrum hagsmunaaðilum til umsagnar en þar á meðal voru níu sveitarfélög á Austurlandi, hreindýraráð, Félag leiðsögumanna með hreindýraveiðum, Náttúrustofa Austurlands og Skotvís. Umsagnir bárust frá sveitarfélögunum Fljótsdalshéraði og Seyðisfjarðarkaupstað, hreindýraráði, Félagi leiðsögumanna með hreindýraveiðum og Náttúrustofu Austurlands. Frumvarpið hefur ekki áhrif á önnur ráðuneyti og því hefur ekkert samráð farið fram á þeim vettvangi.

V. Mat á áhrifum.
    Afleiðingar af samþykkt frumvarpsins eru fyrst og fremst auknar kröfur til leiðsögumanna með hreindýraveiðum. Í þeim felst að leiðsögumenn þurfa að hafa staðist verklegt skotveiðipróf, hafa sótt námskeið Umhverfisstofnunar, staðist próf í námskeiðslok og hafi leiðsagt undir handleiðslu starfandi leiðsögumanns. Fyrir veiðimenn hreindýra eru afleiðingar af samþykkts frumvarpsins þær að gerðar eru kröfur um að þeir standist verklegt skotpróf árlega. Afleiðingar af samþykkt frumvarpsins fyrir landeigendur tengjast arðsúthlutun en ef frumvarpið verður samþykkt eiga landeigendur ekki rétt á greiddum arði af hreindýraveiðum nema að þeir leyfi veiðar allt veiðitímabilið á landi sínu. Ef frumvarpið verður samþykkt mun það gera Umhverfisstofnun auðveldara með að gera skýrar kröfur til leiðsögumanna og um þekkingu þeirra. Þrátt fyrir að í frumvarpinu séu íþyngjandi ákvæði sem ekki hefur verið að finna í núgildandi lögum og reglum hvað varðar verklegt skotveiðipróf fyrir veiðimenn er það talin eðlileg krafa að veiðimaður hafi færni til að fella hreindýr. Fyrirmynd ákvæðisins er sótt til annarra Norðurlanda þar sem krafa er gerð um verklegt skotpróf en einnig er horft til dýraverndunarsjónarmiða. Einnig er talið sanngjarnt að aðeins þeir landeigendur sem leyfa veiðar á landi sínu allt veiðitímabilið fái úthlutað arði.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    1. málsl. 1. mgr. er samhljóða gildandi 1. málsl. 9. mgr. 14. gr. laganna, þar sem kveðið er á um að hreindýraveiðimenn skuli hafa veiðileyfi og vera í fylgd með leiðsögumanni, en í fimm nýjum málsliðum er fjallað um verkleg skotpróf veiðimanna hreindýra. Það er talin eðlileg krafa að sá sem ætlar að veiða hreindýr hafi færni til að fella hreindýr. Annars staðar á Norðurlöndum er gerð krafa um að veiðimenn sem skjóta „stóra“ villibráð (rádýr, krónhirti, elgi og hreindýr) gangist undir skotpróf árlega áður en haldið er til veiða. Með tilliti til dýraverndarsjónarmiða er mikilvægt að veiðimaður hafi færni til að fella dýrið á réttan hátt og án óþarfa þjáninga. Því er lagt til að hreindýraveiðimenn þurfi að gangast undir verklegt skotpróf áður en þeir fara til veiða. Frestur til að skila inn staðfestingu á verklegu skotprófi er til 1. júlí ár hvert. Undanfarin ár hefur eftirspurn eftir veiðileyfum verið meiri en framboð. Með því að gera kröfu um að veiðimaður skili ekki inn verklegu skotprófi fyrr en 1. júlí ár hvert verður komið í veg fyrir að þeir veiðimenn sem ekki hafi fengið úthlutað veiðileyfum hafi gengist undir skotpróf að óþörfu. Einnig er miðað við það tímamark svo hægt sé að úthluta veiðileyfinu aftur skili veiðimaður ekki inn verklegu skotprófi.
    Í 2. mgr., sem verður 10. mgr. 14. gr. laganna, er kveðið á um ábyrgð leiðsögumanna og þau skilyrði sem umsækjendur verða að uppfylla til að geta orðið leiðsögumenn með hreindýraveiðum. Ábyrgð leiðsögumanna er mikil þar sem þeir eiga að leiðbeina veiðimönnum um landsvæði, við ýmsar aðstæður, sem veiðimenn þekkja sjaldnast vel. Þá þurfa leiðsögumenn að sjá til þess að rétt sé staðið að veiðum, þ.m.t. að fylgt sé gildandi lögum um náttúrvernd, þeir þurfa að þekkja bráðina og geta gripið inn í og fellt dýr ef veiðimaður hefur sært dýrið en ræður ekki við að fella það. Það er því mikilvægt að gengið sé úr skugga um hæfni leiðsögumanna áður en þeir hefja störf, sem og við endurnýjun leyfis sem fara skal fram á fjögurra ára fresti. Talin er þörf á að kveða nánar um skilyrði fyrir útgáfu leyfa fyrir leiðsögumenn með hreindýraveiðum í lögum. Hefur ráðherra haft heimild til að kveða á um réttindi og skyldur leiðsögumanna, sbr. núverandi 14. gr. laganna, og hefur í ákvæðinu falist nánast takmarkalaust framsal lagasetningarvalds til ráðherra. Þannig hefur 14. gr. ekki kveðið á um meginreglur um takmörk og skilyrði fyrir útgáfu leyfa né heldur hefur hún haft að geyma viðmið varðandi þær takmarkanir eða skilyrði sem ráðherra hefur verið eftirlátið að kveða á um.
    Í 1. tölul. er gerð krafa um að umsækjandi skuli hafa gilt skotvopnaleyfi og veiðikort sem gefi rétt til hreindýraveiða enda geti komið upp sú staða að leiðsögumaður þurfi að grípa inn í og aflífa dýr sem veiðimaður hefur sært.
    Í 2. tölul. er gerð krafa um að umsækjandi hafi staðist verklegt skotpróf. Veiðimaður á að fella hreindýrið sjálfur en upp geta komið tilvik þar sem veiðimaður særir dýrið og nær ekki að fella það. Þá þarf leiðsögumaður að geta gripið inn í og er því mikilvægt að leiðsögumenn séu hæfir til þess að aflífa hreindýr sem veiðimaður hefur sært. Þessi krafa kemur til af dýraverndarsjónarmiðum til þess að tryggja að bráðin sé rétt skotin og felld án óþarfa þjáninga. Til að tryggja að leiðsögumaður sé hæfur er rétt að gera kröfu um að hann sýni fram á færni sína í verklegu skotprófi. Þá er gerð krafa um að skotprófið sé ekki eldra en 12 mánaða gamalt. Það er tilkomið vegna þess að leiðsögumenn fá útgefið leyfi til fjögurra ára í senn og því eðlileg krafa að skotprófið sé ekki eldra þar sem skotfimi manna getur hrakað sé henni ekki viðhaldið.
    Í 3. tölul. er gerð krafa um að umsækjandi hafi öðlast reynslu af veiðum, fláningu og meðferð afurða hreindýra. Gert er ráð fyrir að umsækjandi hafi öðlast þá reynslu á meðan á námskeiði stendur en einnig þegar hann hefur leiðsagt með hreindýraveiðum undir handleiðslu starfandi leiðsögumanns.
    Í 4. tölul. er tiltekin sú menntun sem umsækjendur þurfa að hafa til að geta hlotið leyfi sem leiðsögumenn. Gert er ráð fyrir að námskeið verði á vegum Umhverfisstofnunar og að umsækjendur ljúki prófi í kjölfar þátttöku í námskeiðunum með fullnægjandi árangri. Ábyrgð leiðsögumann á hreindýraveiðum er mikil. Þeir þurfa að þekkja veiðisvæðið og veiðidýrin, ásamt því að leiðbeina veiðimönnum svo að rétt dýr séu skotin á réttan hátt. Leiðsögumenn eiga að sjá til þess að hreindýraveiðar fari fram í samræmi við lög og reglur. Leiðsögumenn þurfa því að búa yfir ágætis þekkingu á öllum þeim atriðum varðandi hreindýraveiðar svo framkvæmd þeirra verði með réttum hætti. Það er t.d. mikilvægt að þeir hafi þekkingu á staðháttum veiðisvæða ásamt þekkingu á áttavita og GPS-staðsetningartækjum og einnig þurfa leiðsögumenn að staðsetja hvar dýrið er fellt vegna útreiknings felligjalda. Nauðsynlegt er að ganga úr skugga um að leiðsögumaður hafi þessa þekkingu áður en honum er veitt leyfi. Tryggja þarf öryggi veiðimanna sem best enda treysta þeir á að leiðsögumenn búi yfir þessari þekkingu og þar að auki greiða þeir fyrir þjónustu leiðsögumanna.
    Í 5. tölul. er gerð krafa um að umsækjandi hafi tvisvar á sama veiðitímabili leiðsagt með hreindýraveiðum undir handleiðslu starfandi leiðsögumanns. Mikilvægt er að þjálfa verðandi leiðsögumann undir væntanlega sjálfstæða leiðsögn með því að hann leiðsegi undir handleiðslu starfandi leiðsögumanns sem valinn er af Umhverfisstofnun. Til að leiðsögumaður öðlist sem fjölbreyttasta reynslu er heppilegast að Umhverfisstofnun leitist við að velja tvo mismunandi leiðsögumenn samkvæmt tillögu frá Félagi leiðsögumanna um hreindýraveiðar til að öðlast fjölbreyttari reynslu. Með því fær verðandi leiðsögumaður leiðsögn frá starfandi leiðsögumanni um hvernig best er að haga leiðsögn sinni í framtíðinni og öðlast færni áður en hann leiðsegir sjálfstætt.
    Í 6. tölul. er gerð krafa um að umsækjandi hafi sótt skyndihjálparnámskeið á síðustu tveimur árum. Mikilvægt er að leiðsögumaður kunni skyndihjálp ef slys ber að höndum og hann hafi viðhaldið þeirri þekkingu.
    Nauðsynlegt er að hafa gjaldtökuheimild í lögum fyrir próf, námskeið, skotpróf og útgáfu leyfa sem og endurnýjun þeirra, sbr. 3. mgr. sem verður 11. mgr. 14. gr. laganna. Það felur í sér kostnað fyrir Umhverfisstofnun að halda námskeið og próf að þeim loknum, þ.m.t. talin skotpróf. Af því leiðir að skýr lagaheimild þarf að vera til staðar þannig að hægt sé að innheimta þann kostnað sem Umhverfisstofnun hefur af námskeiðum og skotprófum. Jafnframt er töluverð vinna fyrir Umhverfisstofnun að gefa út leyfi fyrir leiðsögumenn enda þarf að fara yfir allar umsóknir og meta hvort öll gögn séu til staðar. Það er því eðlilegt að innheimta gjald fyrir útgáfu leyfa fyrir leiðsögumenn. Sama gildir um endurnýjun leyfa fyrir leiðsögumenn.
    Í 4. mgr., sem verður 12. mgr. 14. gr. laganna, er kveðið á um þær kröfur sem gerðar eru til umsækjanda um endurnýjun leyfis sem leiðsögumaður með hreindýraveiðum. Mikilvægt er talið að leiðsögumenn viðhaldi þekkingu sinni, t.d. varðandi lög og reglugerðir, og skothæfni. Endurmenntunarnámskeið eru grundvöllur fyrir að kynna leiðsögumönnum breytingar á lögum og reglugerðum, sem og að rifja upp helstu þætti við hreindýraveiðar. Með þessu móti yrði tryggt að leiðsögumenn viðhaldi þekkingu sinni á hreindýraveiðum. Sömu sjónarmið eiga við 1., 2. og 4. tölul. málsgreinarinnar og fjallað er um við 1., 2. og 6. tölul. 2. mgr. hér að framan.
    Veiðisvæðin eru níu og ná þau yfir stórt landsvæði. Þau eru ólík og ekki er sjálfgefið að leiðsögumaður sem þekkir eitt veiðisvæði hafi þekkingu á öðru. Það er t.d. mikilvægt að þeir hafi þekkingu á staðþáttum viðkomandi veiðisvæða þegar þykk þoka leggst yfir. Nauðsynlegt er því að leiðsögumaður sýni fram á þekkingu sína á þeim svæðum sem hann vill leiðsegja á með því að standast próf í staðháttum á viðkomandi veiðisvæði en gert er ráð fyrir að Umhverfisstofnun sé falið að meta að öðru leyti hvort að þörf sé á að ljúka einstökum endurmenntunarnámskeiðum með prófi.
    Í 5. mgr., sem verður 13. mgr. 14. gr. laganna, er kveðið á um hlutverk leiðsögumanna með hreindýraveiðum. Ábyrgð leiðsögumanna er mikil þar sem þeir eru í reynd eftirlitsmenn með hreindýraveiðum. Ef veiðimaður brýtur af sér og leiðsögumaður tilkynnir það ekki til yfirvalda getur hann talist samsekur og það er því nauðsynlegt að árétta hlutverk leiðsögumanna við að veiðarnar fari fram í samræmi við lög og reglugerðir. Ef leiðsögumaður brýtur af sér getur Umhverfisstofnun veitt honum áminningu eða svipt hann leyfi séu sakir alvarlegar eða ítrekaðar.
    Í 6. mgr., sem verður 14. mgr. 14. gr. laganna, er fjallað um úthlutun arðs af hreindýraveiðum til landeigenda. Til þess að kerfið virki er nauðsynlegt að sem flestir landeigendur leyfi veiðar á landi sínu. Því þarf að vera skýrt að leyfi landeigandi ekki veiðar fái hann ekki arði úthlutað. Það er því hvati fyrir landeiganda að leyfa veiðar á landi sínu. Þá er tekið fram að leyfa þurfi veiðar allt veiðitímabilið til þess að fá greiddan arð. Ástæða þess er að dreifa þarf álagi á veiðisvæðin, veiðitímabilið er tiltölulega stutt og hreindýrakvóti getur verið stór þannig að nauðsynlegt er að hafa allt veiðitímabilið á sem flestum stöðum til þess að hægt sé að dreifa veiðunum skynsamlega á veiðitímabilinu. Það dregur líka úr líkum á því að fjöldi leiðsögumanna og veiðimanna séu á sama stað undir lok tímabilsins með tilheyrandi núningi milli hópa leiðsögumanna og veiðimanna. Þá er lagt til að ábúendur þurfi að tilkynna fyrir 1. júlí hvort þeir heimili veiðar eða ekki. Ábúendur þurfa ekki að skila inn afstöðu hafi ekki orðið breyting á afstöðu þeirra frá fyrri veiðitímabilum. Þá er heimild fyrir Umhverfisstofnun að miða við afstöðu ábúenda frá fyrra veiðitímabili hafi afstöðu ekki verið skilað inn fyrir 1. júlí. Það er til þess að Umhverfisstofnun geti með ákveðnum fyrirvara skipulagt komandi veiðitímabil í samstafi við leiðsögumenn þannig að veiðunum sé dreift sem best á veiðitímabilinu.

Um 2. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, með síðari breytingum (hreindýraveiðar).

    Meginefni frumvarpsins lýtur að því að auka og skýra kröfur sem gerðar eru til leiðsögumanna með hreindýraveiðum. Í því felst m.a. að leiðsögumenn þurfa að hafa sótt tiltekin námskeið Umhverfisstofnunar og staðist próf í námskeiðslok. Veiðimenn hreindýra þurfa einnig að hafa staðist verklegt skotpróf. Umhverfisstofnun verður heimilt að innheimta námskeiðagjöld, prófgjöld og gjöld vegna útgáfu eða endurnýjunar leyfa fyrir leiðsögumenn og veiðimenn og skulu gjöld aldrei vera hærri en sem nemur rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu. Framangreind ákvæði frumvarpsins eru mun ítarlegri en í gildandi lögum. Í frumvarpinu er einnig lögð til sú nýbreytni að einungis verði heimilt að úthluta arði af hreindýraveiðum til þeirra sem heimila hreindýraveiðar á landi sínu allt veiðitímabilið.
    Fjármálaráðuneytið telur að lögfesting frumvarpsins muni hafa óveruleg áhrif á útgjöld og tekjur ríkissjóðs.