Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 593. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1233 —  593. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Kristjáns Þórs Júlíussonar um ríkisábyrgð á skuldbindingum Íslandsbanka hf., Straums-Burðaráss fjárfestingarbanka hf.

     1.      Hvers vegna var veitt ríkisábyrgð á skuldbindingum Íslandsbanka hf., Straums-Burðaráss fjárfestingarbanka hf., sbr. samkomulag sem Íslandsbanki hf. og fjármálaráðuneytið gerðu með sér 3. apríl 2009 og fól m.a. í sér að ráðuneytið skuldbatt sig til að taka við skuldabréfi Straums-Burðaráss til Íslandsbanka hf. vegna innlána í höfuðstöðvum Straums-Burðaráss á Íslandi og vegna innlána bankans í Danmörku?

    Þáverandi ríkisstjórn gaf haustið 2008 yfirlýsingu um að innstæður í bönkum væru tryggðar að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Núverandi ríkisstjórn hefur gefið sambærilega yfirlýsingu. Þegar stjórn Straums óskaði eftir því við Fjármálaeftirlitið að það tæki yfir rekstur Straums á grundvelli neyðarlaganna tók stjórn Fjármálaeftirlitsins þá ákvörðun varðandi innstæður Straums að leita eftir því við Íslandsbanka að þeir tækju við innstæðum Straums í því skyni að tryggja aðgang innstæðueigenda að fjármunum sínum. Á móti gaf Straumur út skuldabréf sem tryggt var með veði í öllum eignum gamla Straums. Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um flutning innstæðna var formgerð með þeim hætti að slitastjórn Straums gaf út skuldabréf á Íslandsbanka fyrir hinum yfirfærðu innstæðum að fjárhæð 43,7 milljarðar kr. sem tryggðar voru með eignum þrotabúsins. Samkvæmt síðasta mati slitastjórnar eru þær taldar vera tæplega þrefalt virði skuldarinnar. Á grundvelli ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins um að færa þessar innstæður Straums til Íslandsbanka gerði bankinn hins vegar kröfur til ríkissjóðs að hann staðfesti að ábyrgð ríkisins væri á þessum innstæðum, eins og á öðrum innstæðum í íslenskum bönkum, ef svo færi að verðmæti veðsettra eigna stæðu ekki undir yfirfærðum innstæðum til Íslandsbanka. Ráðuneytið hefur ekki skuldbundið sig til að taka við þessu skuldabréfi. Þessir gjörningar eru milli tveggja lögaðila, þ.e. Straums og Íslandsbanka, og færast því ekki í bækur ríkissjóðs.

     2.      Hvers vegna eru þessar skuldbindingar ekki tilgreindar í ríkisreikningi fyrir árið 2009?
    Þar sem ríkissjóður hefur með almennri yfirlýsingu lýst því yfir að hann ábyrgist allar innstæður í íslenskum bönkum, og þar með talið þessar, var það álitamál hvort sérstaklega skyldi tiltaka ábyrgð á þessum innstæðum í skýringum með ríkisreikningi en ekki tiltaka ábyrgð á öðrum innstæðum. Á vegum ríkisreikningsnefndar er verið að fara með heilstæðum hætti yfir hvernig gerð verði grein fyrir ábyrgðaskuldbindingum í ríkisreikningi.

     3.      Á hvaða heimild byggðist afhending ráðuneytisins á ríkisskuldabréfum til Íslandsbanka hf. til tryggingar innlánum Straums-Burðaráss í Danmörku að fjárhæð 43,7 milljarðar kr.?

    Framangreindar ákvarðanir voru gerðar á grundvelli neyðarlaganna. Ríkissjóður hefur ekki afhent ríkisskuldabréf til tryggingar innlánum Straums í Danmörku. Hvað þau innlán varðar þá kyrrsettu dönsk stjórnvöld 1. apríl 2009 eignir Staums í Danmörku til tryggingar innstæðuskuldbindingum þar. Straumur náði hins vegar samkomulagi við danska Fjármálaeftirlitið og innstæðutryggingarsjóð um að leysa þær eignir undan kyrrsetningu. Sömuleiðis gekk Straumur frá greiðslu eða tryggingum fyrir áföllnum og áhvílandi innstæðuskuldbindingum í Danmörku. Þá var jafnframt gengið frá greiðslum til innstæðueigenda í Tékklandi sem námu lágum fjárhæðum. Ríkissjóður hafði enga aðkomu að þessum greiðslum en var upplýstur um þær.

     4.      Hver var fjárhæð ríkisskuldabréfa sem ráðuneytið afhenti Íslandsbanka hf. samkvæmt fyrrnefndu samkomulagi 3. apríl 2009 vegna innlána Straums-Burðaráss á Íslandi?

    Ríkissjóður hefur ekki afhent Íslandsbanka ríkisskuldabréf til tryggingar innlánum á Íslandi.

     5.      Var innheimt ábyrgðargjald samkvæmt lögum um ríkisábyrgðir?

     6.      Hvert er áhættumat ráðuneytisins á því að ábyrgðin falli á ríkissjóð að hluta eða í heild? Um hvaða fjárhæðir er að ræða og á hvaða tímapunktum kunna þær að falla til?
    Sjá svar við 1. tölul.

     7.      Getur ráðherra aflað upplýsinga um að hve stórum hluta bankinn hefur nýtt þessi ríkisskuldabréf í endurhverfum viðskiptum við Seðlabanka Íslands og þegar lausafjárþörf myndast hjá Íslandsbanka hf. vegna þessara innlánsskuldbindinga?

    Íslandsbanki fékk útgefið skuldabréf frá slitastjórn Straums til greiðslu fyrir yfirtekin innlán en ekki ríkisskuldabréf. Íslandsbanki getur samkvæmt reglum sem Seðlabanka Íslands setur nýtt þau bréf til endurhverfra viðskipta. Samkvæmt upplýsingum frá Íslandsbanka hefur bankinn ekki nýtt skuldabréfið til endurhverfra viðskipta.

     8.      Hvað má gera ráð fyrir að ríkissjóður beri ábyrgð á háum innlánum í Danmörku í dag?

    Innlán Straums í Danmörku eru að fullu uppgerð.