Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 730. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
2. uppprentun.

Þskj. 1254  —  730. mál.
Leiðréttur texti.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um meðferð sakamála og lögum um meðferð einkamála (endurupptökunefnd).

Flm.: Álfheiður Ingadóttir, Eygló Harðardóttir,


Birgitta Jónsdóttir, Árni Þór Sigurðsson.



I.     KAFLI
Breyting á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, með síðari breytingum.
1. gr.

    1.–3. mgr. 215. gr. laganna orðast svo:
    Endurupptökunefnd getur leyft samkvæmt beiðni að mál, sem dæmt hefur verið í Hæstarétti, verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 211. gr.
    Beiðni um endurupptöku skal vera skrifleg og henni beint til endurupptökunefndar. Í henni skal ítarlega rökstutt hvernig skilyrðum til endurupptöku telst fullnægt. Gögn því til stuðnings skulu fylgja beiðninni. Ef dómfelldi leitar endurupptöku og hann er sviptur frelsi er yfirmanni fangelsis skylt að koma beiðni hans á framfæri. Ef beiðni um endurupptöku er bersýnilega ekki á rökum reist hafnar endurupptökunefnd henni þegar í stað. Um beiðni um endurupptöku máls og meðferð hennar gilda ákvæði 215. gr. a.
    Endurupptökunefnd tekur ákvörðun um hvort mál verði endurupptekið. Ákvarðanir nefndarinnar eru teknar með meiri hluta atkvæða fulltrúa í nefndinni. Sé beiðni tekin til greina skal fyrri dómur í málinu falla úr gildi nema nefndin ákveði að réttaráhrif hans haldist þar til nýr dómur hefur verið kveðinn upp, en að öðru leyti þarf ekki að færa fram ástæður sem ákvörðun um endurupptöku er reist á. Sé beiðni hafnað skal í ákvörðun greint í meginatriðum frá ástæðum sem sú niðurstaða er reist á. Ákvarðanir endurupptökunefndar skulu birtar opinberlega.

2. gr.

    Á eftir 215. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, 215. gr. a og 215. gr. b, sem orðast svo:

    a. (215. gr. a.)
    Endurupptökunefnd úrskurðar um hvort heimila skuli endurupptöku dómsmáls sem dæmt hefur verið í Hæstarétti.
    Endurupptökunefnd skipa fimm fulltrúar og þrír fulltrúar til vara. Einn þeirra skal uppfylla hæfisskilyrði hæstaréttardómara og er hann jafnframt formaður nefndarinnar. Þá skulu varaformaður, einn aðalfulltrúi og tveir varamannanna vera löglærðir.
    Formaður nefndarinnar er skipaður af ráðherra til sjö ára í senn og ekki er heimilt að skipa sama aðila í starfið oftar en einu sinni. Aðrir fulltrúar í nefndinni eru skipaðir af ráðherra til þriggja ára í senn og er heimilt að skipa viðkomandi aðila á ný í nefndina í eitt skipti.
    Fulltrúar í nefndinni mega ekki taka þátt í afgreiðslu hennar á tilteknu máli ef viðkomandi hefði talist vanhæfur á grundvelli stjórnsýslulaga.
    Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um störf nefndarinnar og starfsskilyrði.

    b. (215. gr. b.)
    Verði beiðni um endurupptöku ekki hafnað þegar í stað á grundvelli 3. mgr. 215. gr. skulu hún og gögnin sem henni fylgdu send til gagnaðila og hann krafinn um skriflega greinargerð um viðhorf sín til hennar innan tiltekins frests. Hafi dómfelldi borið fram beiðnina og staðið sjálfur að henni getur þó endurupptökunefnd fyrst skipað honum verjanda og gefið honum kost á að gera beiðni á nýjan leik. Skylt er endranær að skipa dómfellda eða ákærða verjanda vegna beiðni um endurupptöku ef hann óskar eftir því.
    Endurupptökunefnd getur ákveðið að beiðni um endurupptöku fresti réttaráhrifum dóms meðan á meðferð hennar stendur.
    Við meðferð á beiðni um endurupptöku getur endurupptökunefnd beint því til ríkissaksóknara að hann hlutist til um rannsókn á nánar tilgreindum atriðum eða að aflað verði sönnunargagna fyrir héraðsdómi. Dómfelldi eða ákærði getur jafnframt krafist þess að gagna verði aflað fyrir dómi. Um slíka gagnaöflun fer skv. XXI. kafla eftir því sem við getur átt.
    Endurupptökunefnd getur gefið aðilum kost á að tjá sig munnlega um beiðni um endurupptöku á fundum sínum.
    Ef í ljós er leitt að beiðni um endurupptöku hafi gengið of skammt getur sá sem hana ber fram breytt henni því til samræmis.

II.      KAFLI
Breyting á lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991, með síðari breytingum.
3. gr.
    

    Eftirfarandi breytingar verða á 169. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Endurupptökunefnd getur leyft samkvæmt umsókn aðila að mál, sem dæmt hefur verið í Hæstarétti, verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef eftirfarandi skilyrðum er fullnægt:
                  a.      sterkar líkur eru leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós í Hæstarétti þegar málið var þar til meðferðar fyrra skiptið og aðilanum verður ekki kennt um það,
                  b.      sterkar líkur eru leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum,
                  c.      önnur atvik mæla með því að leyfið verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir aðilans séu í húfi.
     b.      3. mgr. orðast svo:
                  Skriflegri beiðni um endurupptöku skal beint til endurupptökunefndar. Í henni skal rökstyðja ítarlega þær ástæður sem þykja standa til endurupptöku og skulu gögn fylgja henni eftir þörfum. Ef beiðni er bersýnilega ekki á rökum reist synjar endurupptökunefnd þegar í stað um endurupptöku. Að öðrum kosti verða beiðnin og fylgigögn send gagnaðila og hann krafinn um skriflega greinargerð um viðhorf sín innan tiltekins frests.

4. gr.

    Á eftir 169. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, 169. gr. a og 169. gr. b, sem orðast svo:

    a. (169. gr. a.)
    Endurupptökunefnd úrskurðar um hvort heimila skuli endurupptöku dómsmáls sem dæmt hefur verið í Hæstarétti.
    Endurupptökunefnd skipa fimm fulltrúar og þrír fulltrúar til vara. Einn þeirra skal uppfylla hæfisskilyrði hæstaréttardómara og er hann jafnframt formaður nefndarinnar. Þá skulu varaformaður, einn aðalfulltrúi og tveir varamannanna vera löglærðir.
    Formaður nefndarinnar skal skipaður af ráðherra til sjö ára í senn og ekki er heimilt að skipa aðila í starfið nema einu sinni. Aðrir fulltrúar í nefndinni skuli skipaðir af ráðherra til þriggja ára í senn og heimilt er að skipa viðkomandi aðila á ný í nefndina í eitt skipti.
    Fulltrúar í nefndinni mega ekki taka þátt í afgreiðslu hennar á tilteknu máli ef viðkomandi hefði talist vanhæfur á grundvelli stjórnsýslulaga.
    Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um störf nefndarinnar, verkefni hennar, valdsvið og starfsskilyrði.

    b. (169. gr. b.)
    Endurupptökunefnd ákveður hvort af endurupptöku verði. Fallist endurupptökunefnd á beiðni skal hún um leið taka afstöðu til þess hvort áhrif fyrri dóms falli niður meðan málið er rekið. Endurupptaka hindrar ekki aðför eftir dómi nema áhrif hans séu felld niður með þessum hætti. Ákvarðanir endurupptökunefndar skulu birtar opinberlega.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á tveimur lagabálkum, lögum um meðferð sakamála og lögum um meðferð einkamála. Markmið frumvarpsins er að innleiða nýtt fyrirkomulag við mat á endurupptöku mála sem dæmd hafa verið í Hæstarétti, hvort sem um er að ræða opinber mál eða einkamál. Er gert ráð fyrir að ákvörðun um endurupptöku verði tekin af sérstakri endurupptökunefnd en ekki af Hæstarétti sjálfum, enda má efast um að slíkt fyrirkomulag sé heppilegt.
    Endurupptökunefndir eða sérstakir dómstólar sem taka ákvarðanir um endurupptöku þekkjast á Norðurlöndum. Í Noregi er starfandi sérstök nefnd á grundvelli norsku dómstólalaganna sem hefur það hlutverk að ákvarða um endurupptöku. Í Danmörku er starfandi sérstakur dómstóll, Den Særlige Klageret, en hann fjallar meðal annars um beiðnir um endurupptöku í refsimálum. Önnur verkefni hans felast meðal annars í því að úrskurða í málum vegna vanhæfis dómara eða mistaka þeirra í embætti.
    Í svari innanríkisráðherra við fyrirspurn fyrsta flutningsmanns frumvarps þessa (þskj. 909 í 409. máli 139. löggjafarþings) kemur fram að Hæstiréttur hafi aðeins í þremur tilfellum samþykkt beiðni um endurupptöku frá árinu 2000. Beiðnir voru 41 talsins en í fimm tilfellum var beiðni afturkölluð. Þá kemur þar fram að algengast sé að þrír dómarar Hæstaréttar fjalli um beiðnir um endurupptöku máls, en í einstaka tilfellum hafi fleiri dómarar tekið þátt í meðferð slíkra mála. Ákvarðanir Hæstaréttar eru skráðar í gerðabók og umsækjendum og gagnaðilum sent endurrit í pósti en ákvörðunin ekki birt opinberlega líkt og tíðkast með dóma Hæstaréttar.
    Með frumvarpi þessu er lögð til stofnun endurupptökunefndar að norskri fyrirmynd. Gert er ráð fyrir því að um störf nefndarinnar gildi ákvæði stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og að staða nefndarinnar verði með sama hætti og staða annarra úrskurðar- eða áfrýjunarnefnda sem starfandi eru. Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru aðallega orðalagsbreytingar þar sem efnislegum skilyrðum endurupptöku er ekki breytt heldur einungis skipt út þeim aðila sem taka skal ákvörðun um endurupptöku. Þó felast í frumvarpinu ný ákvæði um endurupptökunefndina sjálfa, skipan hennar og starfshætti. Þar á meðal er gert ráð fyrir því að ákvarðanir nefndarinnar verði birtar opinberlega en það eru ákvarðanir Hæstaréttar um endurupptöku ekki. Gert er ráð fyrir að hana skipi fimm aðilar og að formaður hennar uppfylli hæfisskilyrði hæstaréttardómara og hluti nefndarmanna sé löglærðir aðilar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 1. mgr. er endurupptökunefnd skipt út í stað Hæstaréttar í ákvæðinu nú. Í 2. mgr. er kveðið á um hvernig beiðni um endurupptöku skuli gerð og hvert henni skuli beint. Ákvæðið er að mestu samhljóða 212. gr. laganna. Þá er í 3. mgr. fjallað um ákvarðanir endurupptökunefndar og réttaráhrif viðkomandi dóms sem óskað er endurupptöku á. Ákvæðið er að mestu samhljóða 214. gr. laganna. Þó er þar einnig að finna nýmæli sem felst í því að endurupptökunefndinni er gert skylt að birta niðurstöður sínar líkt og nú er gert með dóma Hæstaréttar. Þykir birting ákvarðana endurupptökunefndar að engu leyti ósamrýmanleg birtingu dóma Hæstaréttar hvað vernd persónuupplýsinga varðar.

Um 2. gr.


    Um a-lið (215. gr. a).
    Í ákvæðinu er fjallað um endurupptökunefndina og hvernig hún skuli skipuð. Ákvæðið á fyrirmynd sína í 394. gr. norsku dómstólalaganna. Gert er ráð fyrir að ráðherra skipi fulltrúa í nefndina og að seta þeirra sé til sjö ára í senn ef um formann ræðir en til þriggja ára ef um aðra meðlimi í nefndinni er að ræða. Þá er einnig fjallað um hæfi nefndarmanna til þess að taka þátt í afgreiðslu máls og tiltekið að við mat á vanhæfi skuli hafa til hliðsjónar almennar vanhæfisreglur í 3. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og skuli þá kalla til varamenn í nefndina. Þá er einnig í ákvæðinu að finna reglugerðarheimild fyrir ráðherra.
    Um b-lið (215. gr. b).
    Í ákvæðinu er fjallað um ferli beiðni um endurupptöku, meðferð beiðninnar hjá endurupptökunefnd, frestun réttaráhrif og fleira. Ákvæðið er að mestu samhljóða 213. gr. laganna.

Um 3. gr.


    Í a-lið er endurupptökunefnd skipt út í stað Hæstaréttar í ákvæðinu nú. Í b-lið er kveðið á um hvernig beiðni um endurupptöku skuli gerð og hvert henni skuli beint. Ákvæðið er að mestu samhljóða 1. og 2. mgr. 168. gr. laganna.

Um 4. gr.


    Um a-lið (169. gr. a).
    Í ákvæðinu er fjallað um endurupptökunefndina og hvernig hún skuli skipuð. Ákvæðið á fyrirmynd sína í 394. gr. norsku dómstólalaganna. Gert er ráð fyrir að ráðherra skipi fulltrúa í nefndina og að seta þeirra sé til sjö ára í senn ef um formann ræðir en til þriggja ára ef um aðra meðlimi í nefndinni er að ræða. Þá er einnig fjallað um hæfi nefndarmanna til þess að taka þátt í afgreiðslu máls og tiltekið að við mat á vanhæfi skuli hafa til hliðsjónar almennar vanhæfisreglur í 3. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og skuli þá kalla til varamenn í nefndina. Þá er einnig í ákvæðinu að finna reglugerðarheimild fyrir ráðherra.
    Um b-lið (169. gr. b).
    Í ákvæðinu er fjallað um meðferð beiðni um endurupptöku hjá endurupptökunefnd, frestun réttaráhrif og fleira. Ákvæðið er að mestu samhljóða 3. mgr. 168. gr. laganna. Þó er þar einnig að finna nýmæli sem felst í því að endurupptökunefndinni er gert skylt að birta niðurstöður sínar eins og nú er gert með dóma Hæstaréttar. Þykir birting ákvarðana endurupptökunefndar að engu leyti ósamrýmanleg birtingu dóma Hæstaréttar hvað vernd persónuupplýsinga varðar.

Um 5. gr.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.