Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 570. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1318  —  570. mál.




Nefndarálit



um frv. til lokafjárlaga fyrir árið 2009.

Frá 2. minni hluta fjárlaganefndar.


    Annar minni hluti bendir á að hér er um að ræða uppgjör á hrunfjárlögum sem hann vill ekki láta bendla sig við þar sem þau eru afrakstur stjórnsýslu sem hrundi eins og fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og því er fráleitt að aðrir en þau sömdu skrifi upp á þau.
    Annar minni hluti minnir á að nú eru liðnir um 14 mánuðir síðan nefndin samþykkti að undirhópur á hennar vegum tæki fjárlagaferlið og verklag við eftirlit með framkvæmd fjárlaga til endurskoðunar. Hópurinn var skipaður og hefur hist einu sinni en langt er síðan. Því hafa vinnubrögð fjárlaganefndar ekki batnað og er útséð um að svo verði fyrr en þessari vinnu lýkur. Þó samþykkti nefndin á fundi sínum í dag að leggja fram sameiginlega skýrslu um skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings 2009 enda er mikið um alvarlegar ábendingar og athugasemdir í skýrslunni. Með skýrslu nefndarinnar eru bundnar vonir við að Alþingi taki á þeim vandamálum sem lengi hefur verið glímt við í ríkisrekstrinum og að fyrrgreindur vinnuhópur taki af krafti til við að skýra verkferla, útbúa verklagsreglur og fleira sem bætir eftirlit með framkvæmd fjárlaga og styrkir fjárlagaferlið. 2. minni hluti mun taka þátt í þessari vinnu af heilum hug. Jafnframt munu sjónarmið 2. minni hluta á því sem aflaga hefur farið koma fram í skýrslunni.
    Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings árið 2009 kemur fram að ríkissjóður hafi á árinu 2009 tekið þátt í fjárhagslegri endurskipulagningu vátryggingafélagsins Sjóvár með 11,6 milljarða kr. eiginfjárframlagi til SAT eignarhaldsfélags. Ríkisendurskoðun telur ekki ljóst við hvaða lagaheimild fjármálaráðherra studdist þegar ákvörðun um framlagið var tekin. Skýrsla stofnunarinnar var birt 6. desember 2010 en við netútgáfu hennar var bætt eftirfarandi athugasemd 16. desember sl. „Þess ber að geta að í tölvuskeyti til Ríkisendurskoðunar, dags. 10. nóvember 2010, tók ráðuneytið fram að byggt hefði verið á lið 7.20 í 6. gr. fjárlaga 2009 sem veitir fjármálaráðherra heimild til að „kaupa af Seðlabanka Íslands þau viðskiptabréf sem bankanum hafa verið afhent til tryggingar veðlánum bankans og annast uppgjör þeirra krafna eins og hagkvæmast þykir.“ Ríkisendurskoðun leit svo á að í umræddu skeyti kæmi ekki fram efnislegt svar við fyrirspurninni. Því er ekki alls kostar rétt að ráðuneytið hafi ekki upplýst um á hvaða heimild ákvörðunin byggðist, eins og segir í textanum hér að ofan. Af þessu leiðir einnig að Ríkisendurskoðun telur ekki lengur óljóst á hvaða heimild ráðuneytið byggði ákvörðun sína, eins og jafnframt segir í textanum.“ Það er mat 2. minni hluta að hér sé ekki um efnislegt svar við athugasemdinni að ræða og verður ekki ráðið annað af því en að ábendingin standi. Samþykki Alþingi lokafjárlög án athugasemda verður þessi aðgerð samþykkt af Alþingi án þess að sótt hafi verið um heimild í fjárlögum eða fjáraukalögum. 2. minni hluti mun því ekki samþykkja aðgerðina.
     Íslandsbanki hf. tók yfir skuldbindingar Straums-Burðaráss fjárfestingarbanka hf. vegna innlána í höfuðstöðvum bankans á Íslandi. Jafnframt var gert samkomulag við fjármálaráðuneytið um að Íslandsbanki skuldbyndi sig til að fjármagna greiðslur Straums-Burðaráss á innlánum bankans í Danmörku sem námu 45 millj. evra. Fjármálaráðuneytið skuldbatt sig til að afhenda Íslandsbanka ríkisskuldabréf í skiptum fyrir skuldabréf Straums-Burðaráss vegna þessara innlána. Útgefið skuldabréf nemur 43,7 milljörðum kr. og er með lokagjalddaga 31. mars 2013. Hafi Íslandsbanki ekki fengið fullnaðargreiðslu þann dag er bankanum heimilt að halda eftirstandandi skuldabréfum. Í framangreindu samkomulagi felst ákveðin skuldbinding af hálfu ríkissjóðs sem gæti leitt til útgjalda á næstu árum. Hér er formgerð ábyrgð á innstæðum sem gengur lengra en pólitískar yfirlýsingar um ábyrgð á innstæðum Íslendinga á Íslandi. Því styður 2. minni hluti þetta samkomulag ekki.
    Ríkissjóður ber fjárhagslega ábyrgð gagnvart Nýja Kaupþingi banka verði greiðslufall af skuldabréfi sem gefið var út vegna samnings milli Nýja Kaupþings banka og Dróma um endurgreiðslu veðsamninga, skuldar og skuldbindinga samkvæmt ákvörðun FME. Í samningi fjármálaráðherra við skilanefnd Kaupþings banka frá 17. júlí 2009 er því lýst yfir að stjórnvöld muni halda Kaupþingi banka og Nýja Kaupþingi banka skaðlausum vegna kröfu þess síðarnefnda á hendur Dróma. Samkvæmt bréfinu er skuldbinding ríkissjóðs byggð á ákvæðum 1. gr. laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., svokölluðum neyðarlögum.
    Loks minnir 2. minni hluti á að ekki liggja enn fyrir traustar upplýsingar um heildarskuldastöðu ríkissjóðs og telur að úr því verði að bæta. Þá telur 2. minni hluti að taka þurfi tillit til skulda sveitarfélaganna þannig að yfirlit yfir skuldir hins opinbera verði aðgengilegar reglulega í heildstæðum yfirlitum.

Alþingi, 7. apríl 2011.



Þór Saari,


frsm.


Höskuldur Þórhallsson.