Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 662. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1367  —  662. mál.




Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur um eftirlit Umhverfisstofnunar.

     1.      Með hversu mörgum fyrirtækjum og stofnunum hafði Umhverfisstofnun eftirlitsskyldu á árunum 2005–2010?
    Á árinu 2005 hafði Umhverfisstofnun eftirlitsskyldu með 82 fyrirtækjum. Árið 2006 voru fyrirtækin orðin 118, en það ár bættust olíubirgðastöðvar við sem starfsleyfis- og eftirlitsskyld fyrirtæki. Á árunum 2007 og 2008 voru fyrirtækin 121, 120 árið 2009 og 121 árið 2010.
    Stofnunin hefur framselt eftirlit með 29 fyrirtækjum (árið 2010) til heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga.

     2.      Hversu oft fór Umhverfisstofnun í undirbúið eftirlit til þeirra fyrirtækja?
    Umhverfisstofnun fer að jafnaði í um 85 fyrirtæki til eftirlits á ári.
    Árið 2010 var farið í fyrir fram tilkynnt eftirlit í 78 fyrirtæki og árið 2009 í fyrir fram tilkynnt eftirlit í 91 fyrirtæki. Árið 2008 var farið í fyrir fram tilkynnt eftirlit í 80 fyrirtæki og árið 2007 í fyrir fram tilkynnt eftirlit í 93 fyrirtæki. Árið 2006 var farið í fyrir fram tilkynnt eftirlit í 81 fyrirtæki og árið 2005 var farið í fyrir fram tilkynnt eftirlit í 57 fyrirtæki.
Samkvæmt flokkun í reglugerð nr. 786/1999, um mengunareftirlit, eru fyrirtæki flokkuð eftir stærð og eðli þeirrar starfsemi sem um er að ræða. Í reglugerðinni er tilgreind tíðni og umfang eftirlits eftir því í hvaða flokk fyrirtæki falla. Þar er kveðið á um að fyrirtæki í 1. eftirlitsflokki fái eftirlit tvisvar sinnum á ári, fyrirtæki í 2. og 3. flokki einu sinni á ári og fyrirtæki í 4. flokki fá eftirlit annað hvert ár. Tilgangur þess að tilkynna um eftirlit fyrir fram er að tryggja að búið sé að taka saman upplýsingar sem ekki fást með öðrum hætti þegar eftirlitð fer fram. Einnig er mikilvægt að tengiliður sé til staðar til að svara spurningum sem upp koma í eftirliti. Eftirlit byggist m.a. á mælingum á virkni mengunarvarnarbúnaðar, slíkar mælingar krefjast oftast mikils undirbúnings og ekki er unnt að koma slíkum búnaði upp eða láta framkvæma mælingarnar með örskömmum fyrirvara.

     3.      Hversu oft fór Umhverfisstofnun í óundirbúið eftirlit til þeirra fyrirtækja?
    Stofnunin fór í öllum tilvikum í fyrir fram tilkynnt eftirlit tilgreind ár, nema í eitt skipti árið 2008 og þrjú skipti árið 2010. Í þessum tilvikum var um að ræða aukaeftirlit vegna kvartana eða ábendinga um hugsanleg brot á ákvæðum starfsleyfa.