Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 334. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1430  —  334. mál.




Breytingartillögur



við till. til þál. um áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára.

Frá félags- og tryggingamálanefnd.



     1.      Á eftir orðinu „móti“ í 1. málsl. 1. mgr. 3. tölul. komi: í samstarfi við Jafnréttisstofu.
     2.      1. mgr. 7. tölul. orðist svo:
             Ráðuneytin fylgi lögbundnu 40:60 viðmiði við skipun í nefndir, ráð og stjórnir og viðhaldi því, sbr. 15. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Jafnréttisstofa og ráðuneytin birti upplýsingar um hlut kynjanna a.m.k. árlega á vef stofunnar og allra ráðuneyta, sundurgreindar eftir ráðuneytum.
     3.      Við 1. málsl. 1. mgr. 8. tölul. bætist: í samráði við Jafnréttisstofu.
     4.      Við 1. mgr. 9. tölul. bætist nýr málsliður, svohljóðandi. Fagráð skipað m.a. sérfræðingum á sviði kynjafræða leggi faglegt mat á umsóknir.
     5.      Á eftir 9. tölul. komi tveir nýir töluliðir, svohljóðandi:
         10. Kynjagreining upplýsinga.
                     Tryggt verði að farið sé eftir 16. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, við opinbera hagskýrslugerð og í viðtals- og skoðanakönnunum með því að upplýsingar verði greindar eftir kyni, þar sem það á við. Upplýsingar í stjórnsýslunni verði kyngreindar eftir 1. janúar 2012. Í samræmi við ákvæði laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna verði þeir áminntir sem bera ábyrgð á því að ekki er farið eftir þessu markmiði.
                     Tímaáætlun: 2011–2014.
                     Kostnaðaráætlun: Innan fjárheimilda.
                     Ábyrgð: Velferðarráðuneyti/forsætisráðuneyti í samvinnu við önnur ráðuneyti.
         11. Jafnréttismat á frumvörpum.
                     Við endurskoðun á reglum um undirbúning og meðferð stjórnarfrumvarpa verði tryggt að frumvörpum fylgi gátlisti um jafnréttismál þar sem farið er yfir það hvort og þá hvernig frumvarp hefur áhrif á jafnrétti. Endurskoðuðum reglum og gátlista verði fylgt eftir með kynningu og fræðslu.
                     Tímaáætlun: 2011–2014.
                     Kostnaðaráætlun: Innan fjárheimilda.
                     Ábyrgð: Velferðarráðuneyti/forsætisráðuneyti í samvinnu við önnur ráðuneyti.
     6.      Við 10. tölul.
                  a.      Í stað 1. málsl. 1. mgr. komi tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Gerð verði heildstæð framkvæmdaáætlun til fjögurra ára um aðgerðir gegn launamisrétti kynjanna með það að markmiði að útrýma því. Framkvæmdaáætlunin feli m.a. í sér eftirfarandi.
                  b.      Í stað orðanna „kynbundnum launamun“ í 1. tölul. 1. mgr. og fyrirsögn komi: launamisrétti kynjanna.
                  c.      Í stað orðsins „launamun“ í 4. tölul. 1. mgr. komi: launamisrétti.
                  d.      Við 5. tölul. 1. mgr. bætist: og þróaðar verði áfram hugmyndir um jafnréttisvottun.
     7.      Við 11. tölul.
                  a.      Í stað orðsins „launamunar“ og orðsins „launamun“ í 1. málsl. 1. mgr. komi: launamisréttis; og: launamisrétti.
                  b.      Í stað orðanna „Kynbundinn launamunur“ í fyrirsögn komi: Launamisrétti kynjanna.
     8.      Í stað orðsins „launamun“ í fyrirsögn 12. tölul. komi: launamisrétti.
     9.      Við 13. tölul.
                  a.      1. mgr. orðist svo:
                     Gerð verði könnun á töku foreldra á fæðingarorlofi og áhrifum þess á verkaskiptingu þeirra á heimilum og atvinnuþátttöku kvenna og karla. Þá verði könnuð staða mæðra og feðra eftir að fæðingarorlofstímabili lýkur. Sérstaklega verði könnuð áhrif niðurskurðar á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði á töku foreldra á fæðingarorlofi. Upplýsingar verði greindar eftir kyni, aldri og stöðu foreldra. Verkefnið verði unnið í samvinnu við Jafnréttisstofu.
                  b.      Orðið „feðra“ í fyrirsögn falli brott.
     10.      Á eftir orðunum „kærunefnd jafnréttismála“ í 1. mgr. 17. tölul. komi: og í dómum Hæstaréttar Íslands.
     11.      Fyrirsögn B-hluta orðist svo: Vinnumarkaður – launamisrétti kynjanna.
     12.      Við 19. tölul.
                  a.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Grunnurinn verði þróaður áfram í samvinnu við sveitarfélögin og nýtist til að leggja mat á stöðu jafnréttismála í sveitarfélögunum og sem hvatning til góðra verka.
                  b.      Í stað orðsins „sveitarstjórnum“ í fyrirsögn komi: sveitarfélögum.
     13.      Á undan 1. mgr. 20. tölul. komi ný málsgrein, svohljóðandi:
             Staðið verði fyrir upplýsingagjöf og samið kynningarefni til að vekja athygli á gildistöku laga nr. 13/2010 sem kveða á um að í hlutafélögum og einkahlutafélögum þar sem starfa fleiri en 50 starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli skuli hvort kyn eiga fulltrúa í stjórn þegar stjórn er skipuð þremur mönnum. Þegar stjórn er skipuð fleiri en þremur verði tryggt að hlutfall annars kyns sé ekki lægra en 40%.
     14.      Við 1. mgr. 23. tölul. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þá verði úrræðið árangursmetið og árangur borinn saman við sambærileg verkefni erlendis.
     15.      Á eftir 24. tölul. komi nýr töluliður, svohljóðandi:
         27. Staða kvenna sem búa við fötlun.
             Könnuð verði staða þeirra kvenna sem búa við fötlun með það að markmiði að greina stöðu þessara einstaklinga sem eru í áhættuhóp hvað varðar ofbeldi, misnotkun og misneytingu og hvort grípa þurfi til sértækra aðgerða til að tryggja að konurnar njóti mannréttinda og mannfrelsis til fulls í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
             Tímaáætlun: 2012–2013.
             Kostnaðaráætlun: 1,5 millj. kr.
             Ábyrgð: Velferðarráðuneyti.
     16.      Við 1. mgr. 26. tölul. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Verkefnið verði unnið í samráði við sérfræðinga í kynjafræðum og sveitarfélög.
     17.      Við 3. málsl. 1. mgr. 27. tölul. bætist: á sviði jafnréttismála.
     18.      Á eftir 27. tölul. komi nýr töluliður, svohljóðandi:
         31. Jafnrétti í háskólum.
             Fræðslu í jafnréttismálum verði komið á innan háskóla. Skipaður verði starfshópur til að skipuleggja og innleiða slíkt ferli, en í hópnum eigi sæti fulltrúar háskóla og mennta- og menningarmálaráðuneytis og sérfræðingar í kynjafræðum. Reynslu verði miðlað milli skóla með kynningum, fundum og samstarfi. Árin 2013 og 2014 verði veitt jafnréttisverðlaun til þeirra þátttakenda sem sýnt hafa mestan árangur á sviði jafnréttismála.
             Tímaáætlun: 2012–2014.
             Kostnaðaráætlun: 500.000 kr.
             Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.
     19.      1. mgr. 28. tölul. orðist svo:
             Þátttaka pilta og stúlkna í félagslífi verði könnuð með það að markmiði að stuðla að jöfnum tækifærum pilta og stúlkna. Út frá þeirri vinnu verði skoðað, í samráði við nemendafélög, hvort grípa þurfi til sértækra aðgerða til að hvetja annað kynið til frekari þátttöku. Birtingarmyndir framhaldsskólans í ríkisfjölmiðlum (RÚV) verði skoðaðar sérstaklega til að tryggja að ekki halli óeðlilega á annað kynið.
     20.      1. mgr. 29. tölul. orðist svo:
             Kannaðar verði ástæður þess að stúlkur leita fremur í starfsgreinar sem skilgreindar hafa verið sem hefðbundnar kvennagreinar og piltar í þær sem hafa verið skilgreindar sem hefðbundnar karlagreinar. Enn fremur verði kannað hvernig opna megi aðgang að þeim starfsgreinum sem virðast lokaðar ýmist körlum eða konum. Með samstilltu átaki starfsgreinaráða, skóla og atvinnufyrirtækja verði leitast við að nemendur hafi jöfn tækifæri til að velja sér nám og störf óháð kyni.
     21.      Í stað orðsins „námskeið“ í 1. málsl. 1. mgr. 30. tölul. komi: skyldunámskeið.
     22.      Við 31. tölul.
                  a.      1. mgr. orðist svo:
                     Kannað verði hvers vegna konur sækja síður en karlar um styrki úr kvikmyndasjóði. Fundin verði leið til þess að hvetja konur reglulega til að sækja um styrki fyrir eigið efni til handritsgerðar og framleiðslu kvikmynda, heimildarmynda og sjónvarpsþátta. Leitað verði leiða til þess að viðfangsefni með kvenlægum gildum njóti viðurkenningar til jafns við karllæg viðmið í mati á umsóknum. Markmiðið verði að fá fleiri myndir og þætti unna út frá kvenlægum sjónarhornum. Fundin verði leið til að hvetja skólastúlkur frá unga aldri til að skapa og miðla sínu sjónarhorni með kvikmyndasköpun ekki síður en pilta. Grunn- og framhaldsskólar verði hvattir til að standa fyrir átaksverkefnum í stuttmyndagerð stúlkna.
                  b.      2. mgr. orðist svo:
                     Tímaáætlun: 2011–2014.
     23.      Á eftir 31. tölul. komi nýr töluliður, svohljóðandi:
         36. Aðgengi kvenna og karla að fjármagni til vísindarannsókna.
             Sjóðir sem heyra undir mennta- og menningarmálaráðuneytið og starfa á grundvelli laga um opinberan stuðning við vísindarannsóknir haldi kerfisbundið til haga upplýsingum um kynjaskiptingu fagráða, umsækjenda og styrkþega, og styrkupphæðir í öllum styrkjaflokkum fyrir árið 2012. Þannig verði á árinu 2013 unnt að leggja mat á hvernig starfsemi sjóðanna nýtist hvoru kyni fyrir sig. Komi í ljós að halli á annað kynið meðal styrkþega verði kannað hvort grípa skuli til aðgerða til að rétta þann halla, t.d. með því að gera styrkumsóknir aðgengilegri eða endurskoða úthlutunarreglur. Upplýsingar og viðeigandi aðgerðir nái jafnframt til verkefna sem Rannís styrkir til endurúthlutunar.
             Tímaáætlun: 2012–2014.
             Kostnaðaráætlun: Rúmast innan fjárheimilda sjóðanna.
             Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.
     24.      1. mgr. 33. tölul. orðist svo:
             Áætlun Íslands um framkvæmd ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna númer 1325 frá árinu 2000 um konur, frið og öryggi verði endurskoðuð með framsetningu skýrra og tímasettra markmiða. Tekið verði mið af öðrum ályktunum öryggisráðsins sem samþykktar hafa verið með skírskotun til ályktunar 1325 (ályktanir nr. 1820 (2008), 1888 (2009), 1889 (2009) og 1960 (2010)). Ísland efli jafnframt stöðu sína sem málsvari málaflokksins á alþjóðavettvangi bæði í marghliða og tvíhliða starfi með frumkvæði, sterkum áherslum og eftirfylgni á grundvelli framkvæmdaáætlunarinnar. Markvisst verði unnið að því að fræða starfsfólk utanríkisráðuneytisins og friðargæsluliða í málefnum öryggisráðsályktunar 1325 og tengdra ályktana.
     25.      Í stað orðanna „öll ráðuneyti“ í 4. mgr. 37. tölul. komi: í samvinnu við önnur ráðuneyti.