Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 749. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1536  —  749. mál.




Svar



velferðarráðherra við fyrirspurn Bjarna Benediktssonar um heyrnartæki og kostnaðarþátttöku ríkisins.

     1.      Hver hefur verið þróun verðs á algengum heyrnartækjum frá árinu 2007?
    Söluaðilar heyrnartækja hér á landi eru fjórir, Heyrnar- og talmeinastöð Íslands, sem er ríkisstofnun og þrjú einkafyrirtæki, Heyrn ehf., Heyrnartækni ehf. og Heyrnarstöðin ehf. Vegna fyrirspurnarinnar var aflað upplýsinga hjá öllum þessum aðilum.
    Til að auðvelda samanburð á verði og gæðum heyrnartækjanna sem í boði eru hafa seljendur skipt þeim í þrjá flokka, sem sýndir eru í eftirfarandi töflu. Flokkur I sýnir einföldustu tækin, síðan eru tæki í milliflokki og neðst eru þróuðustu tækin. Þróunin í hönnun og framleiðslu tækjanna er mjög hröð, en verð þeirra ræðst m.a. af því hversu vel þau nýtast við að sía umhverfishljóð sem valda truflunum frá öðrum hljóðum og fjölda hlustunarkerfa sem hægt er að velja um. Verð í töflunni miðast við kaup á tækjum í bæði eyru og er með afslætti þar sem um hann er að ræða, en oftast eru keypt tæki í bæði eyru í einu. Þá skal haft í huga að hjá einkafyrirtækjunum er nauðsynleg þjónusta eins og stilling og kennsla í notkun þeirra innifalin í verðinu. Hjá Heyrnar- og talmeinastöð er verð tækjanna með umsýslukostnaði en án þjónustunnar sem greidd er af fjárveitingum.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Þróuðustu tækin styðja almennt best við félagslega virkni notenda og eru nú flest tæki seld úr þeim flokki að sögn seljenda.

     2.      Hve hátt hlutfall af endanlegu verði heyrnartækja rennur til ríkisins í formi tolla, gjalda og skatta?
    Eingöngu er greiddur virðisaukaskattur af heyrnartækjum, hvorki tollar né önnur gjöld. Því renna 20,3% af endanlegu verði tækjanna í ríkissjóð.
    Ekki á að greiða virðisaukaskatt af þjónustu sem veitt er vegna tækjanna þar sem litið er á hana sem heilbrigðisþjónustu, en eins og fram kom í svari við 1. tölul. er nauðsynleg þjónusta við heyrnartækin innifalin í verði þeirra hjá einkafyrirtækjunum. Tvö af þremur einkafyrirtækjum skipta reikningum annars vegar í verð tækis og hins vegar í kostnað vegna þjónustu og reikna þá eingöngu virðisaukaskatt á tækjahlutann. Hjá einu þeirra var virðisaukaskattur reiknaður af samanlögðu verði tækja og þjónustu. Verð heyrnartækja hjá Heyrnar- og talmeinastöð miðast við verð tækja auk umsýslukostnaðar, en þjónustan sem stofnunin veitir vegna tækjanna er notendum að kostnaðarlausu og greidd af fjárveitingum.

     3.      Hver er kostnaðarþátttaka ríkisins í kaupum einstaklinga á heyrnartækjum og hvernig hefur hlutur ríkisins við kostnaðinn fylgt verðlagi?
    Kostnaðarþátttaka ríkisins í heyrnartækjum er skilgreind í tveimur reglugerðum, annars vegar reglugerð nr. 146/2007, um styrki vegna kaupa á heyrnartækjum hjá öðrum en Heyrnar- og talmeinastöð, og hins vegar í reglugerð nr. 1118/2006, með áorðnum breytingum, um greiðsluþátttöku ríkisins í hjálpartækjum sem Heyrnar- og talmeinastöð útvegar.
    Kostnaðarþátttaka vegna kaupa á heyrnartækjum hjá öðrum en Heyrnar- og talmeinastöð nær eingöngu til 18 ára og eldri sem falla í vægari flokk heyrnarskerðingar (milli 30 og 70dB á verra eyra). Kostnaðarþátttaka ríkisins samkvæmt reglugerðinni nemur 30.800 kr. með hverju heyrnartæki, þ.e. 61.600 kr. þegar keypt eru tæki í bæði eyru. Kostnaðarþátttakan hefur verið óbreytt frá því í janúar 2006 og hefur því ekki fylgt verðlagi. Fram að efnahagshruni hjálpaði gengi íslensku krónunnar við að halda verði tækjanna í skefjum, en eftir það hefur föst fjárhæð greiðsluþátttöku ríkisins rýrnað með aukinni verðbólgu.
    Reglugerð nr. 1118/2006, með áorðnum breytingum, um greiðsluþátttöku ríkisins í hjálpartækjum sem Heyrnar- og talmeinastöð útvegar, nær til sama hóps og fellur undir reglugerð nr. 146/2007. Af faglegum ástæðum er börnum og þeim sem taldir eru eiga við alvarlega heyrnarskerðingu að etja beint til stofnunarinnar hyggist þeir njóta greiðsluþátttöku ríkisins, en á Heyrnar- og talmeinastöðinni starfar læknir sérmenntaður í heyrnarfræðum. Greiðsluþátttaka ríkisins hjá þessum viðbótarhópum er ýmist hundrað prósent eins og hjá börnum eða hlutfallsleg og hefur því fylgt verðlagi og er skilgreind í reglugerðinni með eftirfarandi hætti:
     *      Börn yngri en 18 ára sem fá heyrnartæki greidd að fullu.
     *      Þeir sem falla í flokk alvarlegri heyrnarskerðingar (heyrn verri en 70 dB á verra eyra) fá greitt 80% af verði heyrnartækis.
     *      Þeir sem þurfa kuðungsígræðslutæki fá greitt 90% af verði heyrnartækis og þeir sem þurfa beinskrúfutæki fá greitt 80% af verði heyrnartækis.
    Lífeyrisþegar sem hafa tekjur undir ákveðnum mörkum og keypt hafa heyrnartæki geta sótt um uppbót á lífeyri hjá Tryggingastofnun ríkisins vegna kostnaðar við kaup á heyrnartækjunum. Á árinu 2010 áttu 230 einstaklingar rétt á slíkum bótum og námu þær um 90 þús. kr. á mann að meðaltali, en líta má á þessa endurgreiðslu sem eins konar greiðsluþátttöku ríkisins í tækjum þeirra sem lægstar tekjurnar hafa.