Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 609. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1631  —  609. mál.




Svar



velferðarráðherra við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um greiðsluaðlögun.

    Hversu margir hafa lokið greiðsluaðlögun frá því að lög um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010, tóku gildi, sundurliðað eftir mánuðum?

    Embætti umboðsmanns skuldara hafa borist 2.813 umsóknir um greiðsluaðlögun og eru þar meðtaldar 278 umsóknir sem bárust Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna fyrir 1. ágúst 2010. Embættið hefur afgreitt samtals 896 umsóknir en þar af eru 719 mál til vinnslu hjá umsjónarmönnum. Ferlið hjá umsjónarmönnum tekur um þrjá mánuði frá því að umboðsmaður skuldara hefur veitt heimild til greiðsluaðlögunarumleitana.
    Enginn hefur lokið greiðsluaðlögun þar sem samningar um greiðsluaðlögun einstaklinga eru gerðir til eins til þriggja ára en innan við ár er frá því að lög um greiðsluaðlögun tóku gildi.
    Á myndinni hér á eftir gefur að líta fjölda umsókna sem borist hefur á mánuði hverjum. Fjöldinn hefur verið nokkuð stöðugur undanfarna mánuði eða tæpar 300 umsóknir á mánuði. Á bak við hverja umsókn getur verið annars vegar einstaklingur og hins vegar sambýlisfólk/hjón og eru því fleiri einstaklingar sem sótt hafa um greiðsluaðlögun en fjöldi umsókna segir til um.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



*Tölur fyrir maí 2011 ná til 27. þess mánaðar.
Mynd 1. Greiðsluaðlögun einstaklinga, fjöldi umsókna per mánuð.

    

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Eins og sjá má af eftirfarandi töflu hefur embættið samþykkt rúmlega 83% þeirra umsókna um greiðsluaðlögun sem hafa verið afgreiddar eða 745 umsóknir. Þar af hefur komist á samningur um greiðsluaðlögun í 22 tilfellum. Í fjórum tilfellum hafa kröfuhafar ekki fallist á frjálsa nauðasamninga. Samtals hefur 72 umsóknum verið synjað eða 8% umsókna. Þá hafa 79 umsækjendur afturkallað umsóknir sínar.

Greiðsluaðlögun einstaklinga — Afgreidd mál
Afturkallað 79
Synjað 72
Umsjónarmaður 719
Samningur 22
Nauðasamningur 4
Alls 896

Tafla 1. Afgreidd greiðsluaðlögunarmál 27. maí 2011.

    Afgreiðsla umsókna um greiðsluaðlögun einstaklinga fór hægt af stað hjá embætti umboðsmanns skuldara þar sem verkferlar voru í mótun samhliða því að embættið þurfti að ráða til starfa fjölda sérfræðinga til að sinna þessu ört vaxandi verkefni. Fjöldi afgreiddra umsókna hefur því aukist smám saman frá áramótum og er gert ráð fyrir að um 200 mál verði afgreidd í hverjum mánuði.
    Þess ber að geta að nýlega sendi umboðsmaður skuldara öllum umsækjendum um greiðsluaðlögun bréf þar sem þeim var bent á þann möguleika að sækja um niðurfærslu fasteignaveðskulda að 110% af verðmæti eignar. Tekið var fram að umboðsmaður skuldara byði fram aðstoð til þeirra sem þegar hafa sótt um greiðsluaðlögun við að kanna þennan möguleika. Jafnframt er sérstaklega verið að kanna áhrif niðurfærslu fasteignaveðskulda hjá þeim sem þegar hafa fengið heimild til greiðsluaðlögunarumleitana. Afgreiðsla um 40 greiðsluaðlögunarmála hjá umboðsmanni skuldara hefur tafist nokkuð frá í apríl, á meðan beðið er eftir niðurstöðum umsókna um niðurfærslu fasteignaveðskulda. Að auki er beðið niðurstöðu um 100 umsókna um niðurfærslu fasteignaveðskulda sem lagðar voru inn í maí. Að mati umboðsmanns skuldara er um að ræða mikið hagsmunamál fyrir skuldara að sem flestir kanni hvort þeir uppfylli skilyrði niðurfærslu áður en umsóknarfrestur rennur út 1. júlí nk.
                   













Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


*Tölur fyrir maí 2011 ná til 27. þess mánaðar.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


* Tölur fyrir maí 2011 ná til 27. þess mánaðar.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 2. Fjöldi innkominna og afgreiddra umsókna um greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara eftir mánuðum.