Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 846. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1648  —  846. mál.




Svar



innanríkisráðherra við fyrirspurn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar um vegrið á milli akbrauta á Reykjanesbraut.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hafa viðeigandi aðilar kannað þörfina fyrir uppsetningu vegriðs á milli akbrauta á Reykjanesbraut (Keflavíkurvegi)?
     2.      Hefur þörfin fyrir vegrið á milli akbrauta á Reykjanesbraut (Keflavíkurvegi) verið metin með tilliti til umferðarslysa á Hafnarfjarðarvegi þar sem vegrið hefur verið sett upp á milli akbrauta?


    Í janúar 2010 tók til starfa vinnuhópur innan Vegagerðarinnar sem fékk eftirtalin verkefni:
     1.      Skoða hvar brýnast er að setja vegrið, þ.e. miðjuvegrið og kantvegrið, á þjóðvegum á höfuðborgarsvæðinu og hvaða tegund vegriðs hentar best á hverjum stað.
     2.      Skoða hvar brýnast er að setja vegrið, þ.e. miðjuvegrið og kantvegrið, á Reykjanesbraut milli Hafnarfjarðar og Keflavíkur og hvaða tegund vegriðs hentar best á hverjum stað.
    Ákveðið var að byrja á því að setja miðjuvegrið á þeim þjóðvegum á höfuðborgarsvæðinu þar sem hámarkshraði er 70 km/klst. eða meiri. Árið 2010 tókst að ljúka uppsetningu miðjuvegriðs á milli akbrauta á Hafnarfjarðarvegi milli Fossvogslækjar og Vífilsstaðavegar en á þeim vegarkafla er hámarkshraði 80 km/klst. Jafnframt tókst að ljúka uppsetningu miðjuvegriðs á Reykjanesbraut frá vegamótum við Bústaðaveg og suður fyrir mislæg vegamót Reykjanesbrautar og Breiðholtsbrautar. Á þessu ári verður uppsetningu miðjuvegriða á höfuðborgarsvæðinu haldið áfram og er unnið að gerð kostnaðaráætlana fyrir þá aðgerð á umferðarmesta hluta Nesbrautar (m.a. Ártúnsbrekku) og Hringvegi að Úlfarsfellsvegi en jafnframt á Reykjanesbraut, þ.e. frá þeim stað sem frá var horfið á síðasta ári, sunnan Breiðholtsbrautar og suður fyrir Vífilsstaðaveg. Stefnt er að því að halda verkefninu, og þ.m.t. uppsetning miðjuvegriða á Reykjanesbraut milli Hafnarfjarðar og Keflavíkur, áfram á næstu árum í samræmi við þær fjárveitingar sem fást. Í ljósi takmarkaðra fjármuna verða fyrst sett upp miðjuvegrið þar sem hættan er mest og jafnframt forgangsraðað miðað við umferð.