Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 777. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1686  —  777. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur um sæstrengi.

     1.      Hverjir eru eigendur sæstrengjanna Danice, Farice, Cantat-3 og Greenland Connect og í hvaða hlutföllum er eignarhaldið?
    Farice og Danice sæstrengirnir eru í eigu Farice ehf. en hluthafar þess félags eru íslenska ríkið, Landsvirkjun, Arion banki, Landsbanki Íslands hf. og Glitnir banki. Eignarhlutföll Farice ehf. eru þessi:
    Íslenska ríkið          28,07%     A- og B-hlutir
    Landsvirkjun          26,69%     A- og B-hlutir
    Arion banki hf.          43,47%     B-hlutir
    Landsbanki Íslands hf.          1,05%     B-hlutir
    Glitnir banki hf.          0,71%     B-hlutir
    Þegar tekið er tillit til mismunandi atkvæðavægis á milli A- og B-hlutabréfa, þar sem A- hlutir hafa fimmfalt vægi á móti B-hlutum, þá er atkvæðavægi á hluthafafundum þannig að íslenska ríkið er með 58,2%, Landsvirkjun 21,4% og Arion banki 19,7%.
    Rekstri Cantat-3 sæstrengsins var hætt um síðustu áramót en strengurinn var tekinn í notkun 1994. Cantat-3 var í eigu síma- og fjarskiptafélaga í nokkrum löndum og áttu íslenskir aðilar rúmlega 5% hlut.
    Greenland Connect sæstrengurinn er í 100% eigu Tele Greenland.

     2.      Er ríkisábyrgð á sæstrengjunum? Hefur þurft að afskrifa skuldir vegna þeirra?
    Ríkisábyrgð er á hluta þeirra veðtryggðu langtímalána Farice ehf. sem til var stofnað vegna lagningar Farice og Danice sæstrengjanna. Alls nema veðtryggðar skuldir með ríkisábyrgð 7 milljörðum kr. en heildarskuldir félagsins eru um 9,3 milljarðar kr.
    Í viðskiptaáætlun fyrir lagningu Danice sæstrengsins var gert ráð fyrir að gagnaver mynduðu kjölfestuna í tekjum af þeirri fjárfestingu. Uppbygging á þeirri starfsemi hefur hins vegar verið hægari en áætlanir gerðu ráð fyrir sem hefur raskað forsendum viðskiptaáætlunarinnar. Við fjárhagslega endurskipulagningu Farice lagði íslenska ríkið og Landsvirkjun félaginu til nýtt hlutafé í A-flokki að fjárhæð 11 millj. evra. Stærstu óveðtryggðu kröfuhafar félagsins samþykktu að breyta sínum kröfum í hlutabréf í B-flokki í félaginu, samtals að fjárhæð 52,7 millj. evra. Hlutafé félagsins hefur því verið aukið um samtals 63,7 millj. evra og er eftir endurskipulagninguna um 75,5 millj. evra. Veðtryggðir lánveitendur Farice ehf. hafa samþykkt að endurfjármagna skuldir félagsins. Heildarskuldir eftir endurskipulagningu nema um 56,5 millj. evra. og eiginfjárhlutfall félagsins er 45,5% í árslok 2010.

     3.      Hver er bandbreidd sæstrengjanna?
    Uppsett bandbreidd Farice og Danice sæstrengjanna er 100 Gbit/s á hvorum streng. Hægt er að auka flutningsgetuna með uppsetningu endabúnaðar í landtökustöðvum. Slíkar fjárfestingar munu fylgja aukningu viðskipta í framtíðinni.


    Fjármálaráðuneytið býr ekki yfir upplýsingum um hver bandbreidd sæstrengja í eigu annarra er.

     4.      Hversu hátt hlutfall af hverjum þeirra um sig er í notkun og hverjir kaupa þjónustuna?
    Meðfylgjandi tafla sýnir hvernig nýting sæstrengjanna Farice og Danice er í maí 2011, miðað við þá bandvídd sem er til reiðu í dag:

Sæstrengur Bandvídd til reiðu í maí 2011 Hlutfall bandvíddar í notkun samkvæmt samningum
FARICE 100 Gbit/s 45%
DANICE 100 Gbit/s 55%

    Bandvídd sú sem seld er samkvæmt framangreindu skiptist á núverandi viðskiptavini í eftirfarandi hlutföllum:
     *      Íslensk síma- og fjarskiptafélög 41%,
     *      Erlend síma- og fjarskiptafélög 15%,
     *      Aðilar sem reka rannsókna- og háskólanet 17%,
     *      Gagnaver og erlendir viðskiptavinir gagnavera 27%.
    Fjármálaráðuneytið býr ekki yfir upplýsingum um hvert nýtingarhlutfall sæstrengja í eigu annarra er.

     5.      Vita stjórnvöld til þess að áformað sé að leggja fleiri strengi til eða frá landinu? Ef svo er, hvaða aðilar standa að því?
    Erlendir aðilar hafa haft uppi áform um undirbúning að lagningu sæstrengs milli Íslands og Norður-Ameríku. Um er að ræða hóp manna, aðallega bandarískra, sem hafa þá trú að gagnaveraiðnaður muni vaxa hratt á Íslandi. Þeir hafa á síðustu missirum unnið að því að afla fjármagns til lagningar slíks sæstrengs. Í þessu sambandi er vert að nefna að næg bandvídd er til í Farice og Danice sæstrengjunum til þess að þjóna íslenskum almenningi, gagnaverum og öðrum um langa framtíð.