Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 780. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1687  —  780. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Sigurðar Inga Jóhannssonar um ávinning af verkefninu „Allir vinna“.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hver er ávinningurinn af verkefninu „Allir vinna“ í ljósi skatttekna og fjölda ársverka?

    „Allir vinna“ er þjóðarátak til að vekja athygli á endurgreiðslu virðisaukaskatts og skattfrádrætti vegna framkvæmda við íbúðarhúsnæði og frístundahús þegar unnið er að viðhaldi eða endurbótum á húsnæðinu á byggingarstað. Að þessu átaki standa stjórnvöld í samvinnu við Alþýðusamband Íslands og aðildarfélög, VR, Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samtök verslunar og þjónustu og Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Þessir aðilar taka þátt í átakinu með það að leiðarljósi að leggja sitt af mörkum við að koma hjólum atvinnulífsins í gang.
    Sem fyrr segir er um tvíþætta aðstoð af hálfu stjórnvalda að ræða, annars vegar með endurgreiðslu á virðisaukaskatti af vinnu manna við íbúðarhúsnæði og frístundahús og hins vegar sérstakur skattfrádráttur, að hámarki 200.000 kr. hjá einstaklingi og 300.000 kr. hjá hjónum vegna viðhalds og endurbóta á eigin húsnæði.
    Á þskj. 790 í 488. máli, fyrirspurn Álfheiðar Ingadóttur um endurgreiðslu á virðisaukaskatti, er að finna sambærilega spurningu (4. tölul.): „Hversu mörg störf má ætla að átakið „Allir vinna“ hafi skapað á árunum 2009 og 2010?“ Í svari fjármálaráðherra segir m.a.: „Erfitt er að meta af einhverri nákvæmni hversu mörg störf hafa orðið til vegna þeirra atvinnuskapandi aðgerða í mannvirkjagerð sem stjórnvöld hafa gripið til og lýst er hér að framan. Óhætt er að fullyrða miðað við þær tölur sem fyrir liggja og fram koma í svörunum við 1.–3. tölul. að þær hafa dregið atvinnuleysi um einhver þúsund ársverka á árunum 2009 og 2010.“ Um nánari upplýsingar er vísað til svara fjármálaráðherra við framangreindri fyrirspurn.
    Rétt er að árétta að í svari ráðherra við fyrirspurn Álfheiðar Ingadóttur var fyrst og fremst verið að horfa til áhrifa á endurgreiðslu virðisaukaskattsins. Ekki er unnt að leggja mat á áhrif skattfrádráttarins á skatttekjur og fjölda ársverka fyrr en álagning opinberra gjalda á einstaklinga fyrir árið 2011 vegna tekna ársins 2010 liggur fyrir 1. ágúst nk.