Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 795. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1714  —  795. mál.




Svar



efnahags- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn Birgittu Jónsdóttur um eftirlit með greiðslukortafærslum.

    Við undirbúning þessa svars var leitað upplýsinga hjá Seðlabanka Íslands.

     1.      Fer fram eftirlit í Seðlabanka Íslands með erlendum færslum á íslensk greiðslukort? Ef svo er, á hvaða lagagrundvelli fer slíkt eftirlit fram og hver eru rökin fyrir eftirlitinu?

    Já, Seðlabanki Íslands hefur eftirlit með erlendum færslum á íslensk greiðslukort.
    Slíkt eftirlit er í samræmi við lög nr. 87/1992, um gjaldeyrismál. Í 14. gr. laganna er kveðið á um að skylt sé að veita Seðlabankanum allar þær upplýsingar um gjaldeyrisviðskipti sem hann kann að óska eftir. Auk þess segir í 15. gr. e sömu laga að í tengslum við rannsókn mála sé Seðlabanka Íslands heimilt að krefja einstaklinga og lögaðila um allar upplýsingar og gögn sem hann telur nauðsynleg. Skiptir ekki máli í því sambandi hvort upplýsingarnar varða þann aðila sem beiðninni er beint til eða þau skipti annarra aðila við hann er hann getur veitt upplýsingar um og varða athuganir og eftirlit Seðlabankans. Jafnframt segir í 15. gr. laganna að í tengslum við athuganir tiltekinna mála sé Seðlabanka heimilt að afla upplýsinga og gagna frá öðrum stjórnvöldum óháð þagnarskyldu þeirra.
    Rétt er að geta þess að samkvæmt ákvörðun Persónuverndar frá 3. mars sl. í máli nr. 2010/610, styðst vinnsla Seðlabankans á persónuupplýsingum í þágu gjaldeyriseftirlitsins við fullnægjandi lagaheimildir.
    Rökin fyrir eftirlitinu eru eftirfarandi:
     1.      Að hafa eftirlit með því að notkun greiðslukorta og útflæði erlends gjaldeyris vegna þeirra sé í samræmi við lög og reglur um gjaldeyrismál, þ.e. að greitt sé fyrir vöru- og þjónustu.
     2.      Eftirlitinu er ætlað að bera kennsl á og hindra sniðgöngu, enda er ljóst að þennan greiðslumiðil er unnt að nota í þeim tilgangi. Hefur eftirlit Seðlabankans leitt í ljós fjölmörg dæmi notkunar greiðslukorta, bæði á vegum korthafa og söluaðila, einstaklinga og fyrirtækja, sem gefa tilefni til gruns um ítrekuð og langvarandi brot er varða umtalsverðar fjárhæðir, hvort sem horft er til reiðufjárúttekta úr bönkum/hraðbönkum eða úttekt hjá söluaðilum, óháð fjárhæðum.
     3.      Að mati Seðlabankans eru það helst tvær leiðir sem færar eru til að draga úr líkum á sniðgöngu. Annars vegar sérstakar takmarkanir á notkun greiðslukorta erlendis. Slíkt hefði í för með sér víðtæk og neikvæð áhrif á möguleika fyrirtækja og einstaklinga til viðskipta utan Íslands. Svo að slíkar takmarkanir samræmdust markmiðum reglna um gjaldeyrismál þyrftu þær að byggja á aðstæðum hvers og eins korthafa/greiðanda og mundu fjárhæðarmörk ein og sér ekki tryggja slíkt samræmi. Eins væri það afar flókið í framkvæmd, ef þá mögulegt, ef vel á að vera svo að ónauðsynleg óþægindi hlytust ekki af. Hins vegar að viðhafa virkt eftirlit með notkun þessa greiðslumiðils sem er sú leið sem Seðlabankinn hefur kosið að fara.

     2.      Er eftirlitið bundið við lágmarksfjárhæð og ef svo er, hver er hún?

    Nei, eftirlitið er ekki bundið við lágmarksfjárhæð. Með hliðsjón af reynslu Seðlabankans við eftirlit er það mat bankans að slíkt skilyrði mundi draga svo mjög úr gæðum eftirlitsins að bankinn teldi sig ekki vera að sinna, með fullnægjandi hætti, því lögboðna eftirlitshlutverki sem honum er falið. Þá getur Seðlabankinn ekki gefið það út að sniðganga upp að tilteknu fjárhæðarmarki sé heimil.
    Athygli er vakin á því að Seðlabankinn hefur haldið fundi með færsluhirðum greiðslukorta þar sem farið hefur verið yfir möguleika til eftirlits, bæði fyrir og eftir að gagnaöflun Seðlabankans hófst. Eftirlit sem miðar að því að greina sniðgöngu fer fram hjá Seðlabankanum í dag. Í skoðun er hvort unnt sé að hluti þess (forgreining gagna) fari fram hjá færsluhirðum.