Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 854. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1716  —  854. mál.




Svar



efnahags- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um samskipti Seðlabanka Íslands við Moody's.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hver voru samskipti Seðlabankans við matsfyrirtækið Moody's frá 23. febrúar til 9. apríl sl.?

    Við undirbúning þessa svars var leitað upplýsinga hjá Seðlabanka Íslands.

Febrúar 2011.
    Matsfyrirtækið Moody's gaf út álit dagsett 23. febrúar sem bar titilinn „Iceland: Outcome of Referendum on Icesave Likely to Impact sovereign Raitings“. Í kjölfarið urðu nokkur samskipti milli Seðlabanka Íslands og Moody's um álitið og fyrirkomulag væntanlegrar þjóðaratkvæðagreiðslu.

Mars 2011.
    Í fyrstu viku marsmánaðar áttu sér stað samtöl milli Seðlabanka Íslands og Moody's í tengslum við endurmat á eignum þrotabús Landsbankans.
    Hinn 18. mars fór fram símafundur á milli Moody's, framkvæmdastjóra hjá Seðlabanka Íslands, lögmanni Landslaga og skrifstofustjóra efnahags- og viðskiptaráðuneytisins. Á fundinum var farið m.a. yfir helstu þætti Icesave-málsins og líklega framvindu þess í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu hvort sem um ,,já“ eða ,,nei“ niðurstöðu yrði að ræða. Í framhaldi var sent svar við fyrirspurn Moody's um málið.

Apríl 2011.
    Hinn 4. apríl var haldinn símafundur milli tveggja sérfræðinga hjá Seðlabanka Íslands og Moody's til að fara yfir stöðu mála varðandi efnahagsáætlun og þjóðaratkvæðagreiðslu og gera drög að fundi með Moody's í tengslum við áætlaðan vorfund Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Washington DC.
    Hinn 9. apríl sendi Seðlabanki Íslands minnisblað til Moody's þar sem rakið var í stuttu máli hver líkleg áhrif yrðu á efnahagsáætlun Íslands, eftir því í hvaða farveg deilan færi. Sama dag var minnisblaðinu fylgt eftir með símtölum og í vikunni á eftir áttu sér stað fleiri samtöl, m.a. um afstöðu norrænu ríkjanna varðandi áframhaldandi lánveitingar.

     Seðlabanki Íslands ber ábyrgð á samskiptum við matsfyrirtæki fyrir hönd ríkissjóðs. Starfsmenn Seðlabankans eiga í samskiptum við matsfyrirtæki í viku hverri í gegnum síma eða með tölvupósti til að fara yfir þróun efnahagsmála á Íslandi. Þá heimsækja matsfyrirtækin Ísland árlega og eiga viðræður við fulltrúa stjórnvalda, atvinnulífs og vinnumarkaðs og aðra hagsmunaaðila.