Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 656. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1739  —  656. mál.




Svar



velferðarráðherra við fyrirspurn Þorgerðar K. Gunnarsdóttur um færslu öldrunarmála til sveitarfélaga.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Er unnið að færslu öldrunarmála til sveitarfélaga og ef svo er, hver er staða málsins?

    Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur meðal annars fram að stefnt skuli að því að færa málefni aldraðra til sveitarfélaga jafnhliða því að heilbrigðisráðuneytið og félags- og tryggingamálaráðuneytið hafa sameinast í velferðarráðuneytið.
    Færsla öldrunarmála var, ásamt flutningi þjónustu við fatlað fólk, hluti af endurskoðun á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga á sviði velferðarmála sem sett var af stað að tillögu Sambands íslenskra sveitarfélaga vorið 2007. Verkefninu var stýrt af verkefnisstjórn sem skipuð var fulltrúum ríkis, sveitarfélaga og heildarsamtaka fatlaðra.
    Verkefnisstjórnin vann grunnvinnu vegna yfirfærslunnar sem nýtist sameiginlega fyrir báða málaflokkana. Stefnan var sett á að þjónusta við fatlaða færðist yfir 1. janúar 2011 og öldrunarþjónusta ári síðar eða 1. janúar 2012.
    Undirbúningur flutnings öldrunarþjónustu tafðist á sínum tíma vegna vinnu við skiptingu verkefna á sviði öldrunarþjónustu milli heilbrigðisráðuneytis og félags- og tryggingamálaráðuneytis. Þrátt fyrir tafir á heildarverkinu var tekin saman greinargerð um stöðu öldrunarþjónustu og helstu þætti er koma til álita við yfirfærslu þjónustunnar frá ríki til sveitarfélaga. Einnig söfnuðu ráðgjafar á vegum verkefnisstjórnarinnar grunnupplýsingum um þjónustu við aldraða á vegum sveitarfélaga. Fjallað hefur verið um málið á ýmsum fundum og ráðstefnum meðal annars á vegum sveitarfélaga. Þessi vinna mun nýtast þegar verkefnið fer af stað að nýju.
    Í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar hefur velferðarráðherra nú ákveðið að skipa nefnd um flutning málefna aldraðra til sveitarfélaga. Nefndin verður skipuð einum fulltrúa fjármálaráðuneytis, innanríkisráðuneytis, samstarfsnefndar um málefni aldraðra, öldrunarráðs og samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu auk tveggja fulltrúa frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og frá Landssambandi eldri borgara. Einnig er gert ráð fyrir að stéttarfélög starfsmanna tilnefni sameiginlega einn fulltrúa í nefndina. Ráðherra skipar formann án tilnefningar.
    Sent hefur verið bréf til hlutaðeigandi aðila og vonast er til þess að tilnefningar berist sem fyrst og að nefndin geti tekið til starfa áður en langt um líður. Of snemmt er að fullyrða hvenær tilfærslan getur átt sér stað en óraunhæft er að áætla að það geti orðið fyrr en 1. janúar 2013.