Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 859. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1740  —  859. mál.




Svar



velferðarráðherra við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um breytingar á sjúkrahúsinu á Húsavík.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Af hverju hefur ekki verið hafist handa um breytingar á sjúkrahúsinu á Húsavík þrátt fyrir 50 millj. kr. framlag til verksins í fjárlögum 2010 og 15 millj. kr. framlag í fjárlögum 2011?

    Sú starfsemi sem rekin er í húsakynnum Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga á Húsavík hefur breyst verulega síðan húsin voru hönnuð og á enn eftir að breytast á komandi árum. Yngri hluti sjúkrahússins á Húsavík var tekinn í notkun á miðju ári 1970 og hafði undirbúningur og bygging þess staðið yfir í rúman áratug. Áfast við sjúkrahúsið er nýleg heilsugæslustöð frá 1992 og elsta sjúkrahúsbyggingin sem tekin var í notkun í nóvember 1936. Öll eru þessi hús samtengd og innangengt milli þeirra. Síðastnefndi hlutinn, sá elsti, hefur ekki verið mikið notaður undanfarin ár. Ástand eldri hlutanna beggja er orðið mjög slæmt, vegna lítils viðhalds og einnig vegna þess að komið er að lokum endingartíma vatnslagnakerfa húsanna og nauðsynlegt að endurvinna þau í heild. Brunavarnir í húsunum eru í ólestri og vinnuaðstaða starfsfólks og aðbúnaður notenda ekki í takt við kröfur tímans. Áður en vinna við endurbyggingu, og breytingar á húsnæðinu hefst þarf að endurskipuleggja þá starfsemi sem á að vera í framtíðinni í húsnæði Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga á Húsavík. Unnið hefur verið að þeirri endurskipulagningu undanfarin ár og er nú verið að ljúka því verki. Um eða upp úr miðju sumri mun vinna hefjast við forhönnun endurbóta og breytingar húsnæðisins. Það fer síðan eftir því hve hratt það verk vinnst hvenær unnt verður að hefja gerð útboðsgagna vegna endurbóta og bjóða út framkvæmdir. Gangi allt að óskum gæti því verki lokið öðru hvorum megin áramóta 2013 og 2014.
    Undirbúningur þessa verks er því kominn vel á rekspöl og er þess vænst að senn verði hægt að hefja langþráðar endurbætur á sjúkrahúsinu á Húsavík.