Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 831. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1784  —  831. mál.




Svar



mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn Árna Johnsens um aðgengi nemenda að Fjölbrautaskóla Suðurnesja.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvernig ætlar ráðherra að tryggja aðgengi allra þeirra nýju framhaldsskólanema sem munu óska eftir skólavist við Fjölbrautaskóla Suðurnesja næsta haust?

    Nýir framhaldsskólanemendur sem munu sækja um Fjölbrautaskóla Suðurnesja eru annars vegar nemendur sem koma beint úr grunnskólum á svæðinu eða eru á fræðsluskyldualdri, þ.e. yngri en 18 ára, og hins vegar eldri nemendur.
    Hvað varðar yngri hópinn hefur ráðuneytið þegar gert ráðstafanir til að gera Fjölbrautaskólanum kleift að taka við auknum fjölda nemenda. Þannig hafa fjárheimildir til skólans verið hækkaðar um sem nemur 42 ársnemendum á árinu 2011, úr 898 í 940, og gert er ráð fyrir að þessi hækkun haldist áfram árið 2012.
    Nýlega samþykkti ríkisstjórnin að veita aukið fjármagni til að opna aðgang að framhaldsskólum fyrir atvinnuleitendur og fólk yngra en 25 ára. Mun Fjölbrautaskóli Suðurnesja fá auknar fjárveitingar til þess að koma til móts við óskir þessa hóps um skólavist.
    Með þessum ráðstöfunum ætti skólinn að geta brugðist við væntanlegri fjölgun næsta haust og veitt fleiri nemendum skólavist.