Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 835. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1785  —  835. mál.




Svar



mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar um varðveislu minja um seinni heimsstyrjöldina.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Telur ráðherra ástæðu til að gera ráðstafanir til að varðveita minjar um seinni heimsstyrjöldina á Íslandi?

    Seinni heimsstyrjöld og hersetan á Íslandi markaði á margan hátt þáttaskil í sögu þjóðarinnar og minjar um herinn vekja oft forvitni og áhuga Íslendinga og erlendra gesta sem sækja okkur heim. Stríðsminjarnar eru hluti af heimssögulegum atburðum sem réðu örlögum og lífskjörum fólks um allan heim. Þessar minjar eru menningarverðmæti sem ber að hlúa að og varðveita og miðla til komandi kynslóða. Ef það á að takast er ljóst að ráðast þyrfti í sérstakt átaksverkefni því þjóðminjalög miða við að fornleifar 100 ára og eldri njóti verndunar. Yngri minjar falla utan verndunarákvæða laganna þó svo að skv. 9. gr. þjóðminjalaga segi að friðlýsa megi yngri minjar. Markvisst átaksverkefni af þessu tagi yrði upplagt verkefni fyrir hina nýju stofnun á sviði minjaverndar sem lagt er til að stofnuð verði í frumvarpi til laga um menningarminjar, sem nú er til meðferðar í þinginu.
    Þótt ekki hafi verið ráðist í markvissa skráningu stríðsminja hafa verið gerðar ýmsar ráðstafanir til að vernda slíkar minjar. Stofnanir ríkisins á sviði minjavörslu, þ.e. Fornleifavernd ríkisins, húsafriðunarnefnd og Þjóðminjasafn Íslands, hafa allar bent á mikilvægi þess að huga að verndun yngri minja en þeirra sem 100 ára reglan nær til.
    Fornleifaverndin hefur friðlýst sérstaklega tvær minjar sem falla utan 100 ára reglunnar. Önnur þeirra er flugvélaflak úr seinni heimsstyrjöld af gerðinni Northorp N-3PB Torpedo bomber sem var friðlýst árið 2002, en það fannst á botni Skerjafjarðar 27. ágúst það sama ár. Er hún nokkuð heilleg og er önnur tveggja sem til eru í heiminum. Þessi gerð véla var notuð af norskri flugsveit sem hafði aðstöðu í Skerjafirði og voru einungis 24 slíkar vélar smíðaðar.
    Þá hefur ráðherra samþykkt tillögu húsafriðunarnefndar um að friða gamla flugturninn á Reykjavíkurflugvelli og var friðunarbréfið undirritað 18. maí sl.
    Á minjasöfnum landsins er nokkuð varðveitt af gripum sem tengjast síðari heimsstyrjöldinni og sérsafn um stríðsárin, Íslenska stríðsminjasafnið, er á Reyðarfirði. Það var sett á laggirnar árið 1995. Er það eina safnið sem hefur að meginmarkmiði að skrá og miðla sögu hernámsáranna 1939–1945. Það er til húsa í bragga frá stríðsárunum en á Reyðarfirði reis braggahverfi fyrir um 4.000 hermenn auk þjónustubygginga og varnarmannvirkja. Á safninu hefur verið lögð áhersla á söfnun og miðlun ljósmynda en einnig eru þar varðveitt farartæki og ýmsir munir. Gestir geta fengið stríðsárakort af Reyðarfirði í hendurnar sem vísar á minjar sem enn standa í þorpinu.
    Upplýsingar í gagnagrunninum Sarpi nýtist vel til þess að fá yfirlit yfir gripavarðveislu í þeim söfnum sem eru aðilar að Sarpi, m.a. yfir gripi tengda stríðinu.
    Á vísindavefnum er til gott yfirlit yfir stríðsáraminjar hér á landi en Skúli Sæland sagnfræðingur svaraði fyrirspurn þar að lútandi í nóvember árið 2004. Það yfirlit gæti reynst mikilvægt verkfæri í átaki við varðveislu þessara minja.
    Minna má á að meðal þess sem ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum sem haldinn var í Reykjanesbæ 9. nóvember sl. var að fela Þróunarfélagi Keflavíkur að setja á stofn hersetusafn á gamla varnarsvæðinu í einu af fjölmörgum húsum félagsins. Safninu er ætlað að kynna merkilega og umdeilda sögu bandarísks herliðs á Íslandi allt frá síðari heimsstyrjöld. Hér er að vísu aðallega um yngri minjar að ræða en þó vottur um að reynt sé að halda á lofti mikilvægum hluta íslenskrar síðaritímasögu.
    Einnig má geta þess að til er fallbyssuhreiður frá seinni heimsstyrjöldinni rétt við hliðina á Garðskagavita og í lok maí 2011 hófst hreinsun þess í samstarfi Fornleifaverndar ríkisins og Sveitarfélagsins Garðs.