Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 857. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1813  —  857. mál.




Svar


velferðarráðherra við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um umönnunargreiðslur.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Kemur til greina af hálfu ráðherra að beita sér fyrir því að umönnunarbótum verði skipt á milli foreldra ef þeir fara sameiginlega með forræði?
     2.      Ef svo er, mun ráðherra beita sér í því og þá hvernig? Ef ekki, af hverju ekki?

    Umönnunarmat og afgreiðsla umönnunargreiðslna byggist á 4. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, og reglugerð nr. 504/1997, um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna, með síðari breytingum. Þar segir að Tryggingastofnun sé heimilt að inna af hendi umönnunargreiðslur til framfærenda fatlaðra og langveikra barna og taka aukinn þátt í greiðslu sjúkrakostnaðar ef andleg eða líkamleg hömlun barns hefur í för með sér tilfinnanleg útgjöld og sérstaka umönnun eða gæslu. Í lögunum kemur þannig skýrt fram að hér er um að ræða greiðslur vegna umönnunar og tilfinnanlegra útgjalda vegna barns.
    Þegar skilyrði til umönnunargreiðslna eru uppfyllt samkvæmt áðurnefndu lagaákvæði er greidd aðstoð til framfærenda barnsins. Framfærandi er talinn vera sá aðili sem hefur með höndum meginábyrgð á daglegri umönnun barnsins og hefur með höndum meginútgjöld vegna meðferðar þess. Þannig er litið á framfæranda sem þann aðila sem annast reglulega framfærslu barnsins, hefur meginumsjón með barninu og sér til þess að það sæki skóla. Við umönnunarmat er metið, með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum, hvernig þessum þáttum er háttað og ákvarðað í samræmi við það. Í flestum tilvikum er um það að ræða að barn hefur formlega búsetu og lögheimili hjá þeim sem hefur með höndum áðurnefnda framfærslu og sami aðili sækir um umönnunargreiðslur.
    Það verður að hafa hugfast í þessu sambandi að umönnunargreiðslur eru ekki aðstoð vegna hefðbundins framfærslukostnaðar barns heldur aðstoð vegna viðbótarkostnaðar sem fellur til vegna sjúkdóms eða hömlunar barnsins. Talið hefur verið mikilvægt að einhver einn ákveðinn aðili sé ábyrgur fyrir því gagnvart barni að umönnunargreiðslur séu nýttar í þjónustu, stuðning, þjálfun, lyf og annan þann viðbótarkostnað sem fellur til vegna veikinda eða fötlunar barnsins. Með því móti er tryggt að greiðslurnar nýtist sem best til að mæta þeim viðbótarútgjöldum sem af veikindunum eða fötluninni stafa.
    Umönnunargreiðslur taka mið af umönnun, meðferð, þjónustu og útlögðum kostnaði vegna veikinda eða fötlunar barna. Matskerfið getur verið afar flókið og hætta er á að tvískiptar greiðslur geti gert það enn flóknara. Það getur til dæmis verið vandasamt við endurmat umönnunargreiðslna ef staðfesting á útlögðum kostnaði vegna barnsins skilar sér ekki eða ef annað foreldrið staðfestir kostnað en hitt ekki. Þá geta vaknað upp spurningar um það hvernig greiðslur ættu að skiptast milli foreldranna, þ.e. í jöfnum hlutföllum, eftir staðfestingu á útlögðum kostnaði eða eftir viðveru barna hjá foreldri. Aðstæður fólks eru afar mismunandi og viðbúið er að upp geti komið vandkvæði þegar kostnaður fellur til á ólíkum tíma, til að mynda einungis hjá öðru foreldrinu, eða foreldrar ekki samstíga um það hvernig nýta ætti umönnunargreiðslur í þágu barnsins.
    Reynslan af núverandi fyrirkomulagi hefur verið góð og ekki verður séð að sérstök ástæða sé til að gera breytingar á því. Almennt hefur verið sátt milli foreldra, sem fara með sameiginlega forsjá barna, hvernig farið verði með umönnunargreiðslur vegna barna þeirra. Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins hafa stofnuninni einungis borist þrjár óskir um skiptingu umönnunargreiðslna á undanförnum sjö árum. Einstaka dæmi eru þó til um að foreldrar, sem eru ekki í samvistum en eru með sameiginlega forsjá barns, hafi óskað eftir upplýsingum frá Tryggingastofnun um fjárhæðir umönnunargreiðslna og hvernig þeim skuli ráðstafað. Í þeim fáu tilvikum er til staðar ósætti milli foreldra og andstæð sjónarmið sem erfitt getur verið að leggja mat á hverju sinni.
    Það þykir hins vegar fátt mæla gegn því að foreldrar sem hafa sameiginlega forsjá barns komi sér saman um skiptingu umönnunargreiðslna sín á milli, til dæmis þegar barn er til skiptis í viku og viku hjá hvoru foreldri, eftir að Tryggingastofnun hefur greitt umönnunargreiðslurnar til þess foreldris sem telst framfærandi. Telja verður þó að það eigi frekar við þegar um vægari sjúkdóma eða fötlun barnanna er að ræða þar sem reynslan sýnir að börn með mjög alvarlega fatlanir eða veikindi eru oftast í fullri búsetu hjá öðru foreldrinu. Í þeim tilvikum þykir það fyrirkomulag sem nú er við lýði hafa gefist vel og full sátt verið um það hjá langflestum foreldrum.