Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 894. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1834  —  894. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um framlög ríkisins til SpKef og Byrs.

     1.      Hver hafa framlög ríkisins verið til SpKef?
    
22. apríl 2010 tók Fjármálaeftirlitið yfir vald stofnfjáreigendafundar í Sparisjóðnum í Keflavík á grundvelli heimildar í VI. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. IV. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009, vék stjórn sparisjóðsins frá í heild sinni og skipaði bráðabirgðastjórn. Einnig tók FME ákvörðun um að ráðstafa eignum Sparisjóðsins í Keflavík til nýs sparisjóðs, SpKef sparisjóðs, og kvað á um yfirtöku SpKef sparisjóðs á nánar tilgreindum innstæðum.
    Ráðuneytið stofnaði nýjan sparisjóð á grundvelli heimildar í 1. gr. laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitinga úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Ráðuneytið lagði nýja sparisjóðnum til 900 millj. kr. eiginfjár framlagi úr ríkissjóði og voru allar innstæður og eignir gamla sparisjóðsins fluttar yfir í hinn nýja að undanskildu lítils háttar rekstrarfé sem skilið var eftir í gamla sparisjóðnum.
    Í samræmi við ákvörðun FME skyldi fara fram uppgjör milli gömlu og nýju fjármálastofnananna og að því loknu yrði nýja sparisjóðnum lagt til eigið fé sem uppfyllir skilyrði FME um starfsleyfi. Miðað við bráðbirgðatölur um eignaverðmæti á þeim tíma var áætlað að stofnframlag þyrfti að nema um 13 milljörðum kr.
    Frá því að FME yfirtók rekstur Sparisjóðsins í Keflavík og færði innstæður og eignir hans yfir í SpKef sparisjóð, hélt ráðuneytið áfram að vinna að fjárhagslegri endurskipulagningu sparisjóðsins. Sú vinna tók langan tíma vegna óvissu um eignamat, m.a. í kjölfar dóma Hæstaréttar í gengistryggingarmálum. Það er svo með bréfi stjórnarformanns og sparisjóðsstjóra SpKef dagsettu 25. febrúar 2011 til fjármálaráðuneytisins að upplýst er um það mat stjórnenda sparisjóðsins að áætluð fjárþörf vegna fjármögnunar á sparisjóðnum sé 19,4 milljarðar kr. Þar af skorti 11,2 milljarða kr. á að eignir sparisjóðsins dugi fyrir innstæðum. Á tímabilinu frá stofnun SpKef, þ.e. frá apríl 2010, og þar til Fjármálaeftirlitið tók ákvörðun um samruna SpKef og Landsbankans 5. mars 2011 hafði ráðuneytið veitt sparisjóðnum heimild til að nýta allt að 6 milljarða kr. af áætluðu eiginfjárframlagi ríkisins sem tryggingu fyrir lausafjárfyrirgreiðslu af hálfu Seðlabanka Íslands.
    Bankasýsla ríkisins hafði kynnt þau sjónarmið að þar sem veruleg óvissa væri um rekstrarhæfi SpKef sparisjóðs til framtíðar yrði tekinn til skoðunar möguleiki á sameiningu við Landsbankann hf. Starfshópi skipuðum fulltrúum Bankasýslu og ráðuneytisins sem var falið að meta kosti og galla við fjármögnun sparisjóðsins úr ríkissjóði og við samruna við Landsbankann lagði til að gengið yrði til samninga við Landsbankann um samruna. 5. mars 2011 var undirritaður samningur við Landsbankann um yfirtöku og samruna hans við SpKef. Samningurinn var með fyrirvara um samþykki skilanefndar Lansbanka Íslands og um að FME féllist á að taka ákvörðun á grundvelli VI. bráðabirgðaákvæðis við lög nr. 161/2002. Samkvæmt ákvæðum samkomulagsins mun Landsbankinn vinna áreiðanleikakönnun á eignum og skuldum og skuldbindingum sparisjóðsins. Niðurstaða áreiðanleikakönnunar Landsbankann er að verðmæti eigna séu um 20 milljörðum kr. lægra en fyrrnefnt mat stjórnenda. Ráðuneytið vinnur nú að greiningu á fráviki mats Landsbankans og stjórnenda sparisjóðsins og mun í kjölfarið taka upp viðræður við bankann um lausn á ágreiningi um uppgjör. Leiði viðræður aðila ekki til lausnar getur hvor aðili um sig farið fram á að ágreiningur aðila verði lagður fyrir úrskurðarnefnd.

     2.      Hver hafa framlög ríkisins verið til Byrs?
    
Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 22. apríl sl. tók eftirlitið yfir vald stofnfjáreigendafundar í Byr sparisjóði, vék stjórn sparisjóðsins frá, skipaði honum bráðabirgðastjórn og mælti fyrir um aðrar nauðsynlegar ráðstafanir. Stofnaður var nýr banki, Byr hf. með 900 millj. kr. eiginfjárframlagi úr ríkissjóði og voru allar innstæður og eignir gamla sparisjóðsins fluttar yfir í nýja bankann.
    Í samræmi við ákvörðun FME skyldi fara fram uppgjör milli gömlu og nýju fjármálastofnananna og að því loknu yrði bankanum lagt til eigið fé sem uppfyllir skilyrði FME um starfsleyfi. 14. október 2010 náðist samkomulag um drög að skipulagi Byrs hf. við slitastjórn Byrs sparisjóðs og kröfuhafa hans. Samkvæmt því samþykkti slitastjórn að breyta kröfu sinni á hendur Byr hf. í hlutafé en með því var áætlað að hún eignaðist um 95% alls hlutafjár. Á móti lofaði ríkið að veita Byr hf. víkjandi lán, allt að 5 milljörðum kr. Með samkomulaginu átti Byr hf. að uppfylla skilyrði FME um eigið fé og lausafjárkröfur. Á vormánuðum 2011 lá fyrir að áætlanir um fjárhagslega skipan Byrs hf. samkvæmt rammasamkomulaginu dygðu ekki og að hvorki ríkið né kröfuhafar Byrs sparisjóðs voru tilbúnir að leggja fram frekari fjármuni. Í ljósi stöðunnar ákvað stjórn Byrs hf. að leita eftir því að tryggja fjárhag bankans með því að bjóða til sölu nýtt hlutafé í bankanum.
    Í tengslum við söluna var krafa Byrs sparisjóðs metin til hlutafjár með sérfræðiskýrslu í samræmi við ákvæði hlutafélagalaga. Með samkomulagi frá 20. júní 2011 var síðan samið um það milli ríkisins, Byrs hf. og slitastjórnar Byrs sparisjóðs að breyta kröfunni í hlutafé á genginu 1. Eftir það skiptist hlutafé Byrs hf. þannig að ríkið fór með 900 millj. kr. og um 12% en Byr sparisjóður 6.862 millj. kr. og 88%. Með því samkomulagi var tryggt að báðir aðilar væru jafnstæðir sem hluthafar ef til sölu kæmi.
    Í skipulögðu söluferli var áhugasömum fjárfestum síðan boðið að kaupa nýtt hlutafé fyrir allt að 10 milljarða kr. og eignast með því meiri hluta hlutafjár í bankanum. Jafnframt lýstu bæði ríkið og slitastjórn Bys sparisjóðs því yfir að hlutir þeirra væru til sölu ef bjóðendur kysu að eignast allan bankann. Tveir aðilar skiluðu inn tilboðum og gerðu báðir kröfu um að kaupa allt hlutafé bankans og að Byr hf. yrði sameinaður við þá. Einnig gerðu báðir bjóðendur kröfu til þess að víkjandi lán það sem samið var um í rammasamkomulaginu stæði þeim til boða. Niðurstaða mats á framkomnum tilboðum var að gengið var til samninga við Íslandsbanka. Samningurinn er með fyrirvara um samþykki FME og Samkeppniseftirlitsins um yfirtöku Íslandsbanka á Byr hf. og sameiningu. Þá er undirskrift ráðuneytisins um sölu á hlut sínum í bankanum með fyrirvara um samþykki Alþingis.