Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 880. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1894  —  880. mál.




Svar



innanríkisráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur um samkeppni á ljósleiðaramarkaði.

     1.      Hvernig ætlar ráðuneytið að bregðast við samkeppni á ljósleiðaramarkaði?
    
Ljósleiðarar falla ásamt öðrum tegundum leigulína undir svokallaðan stofnlínumarkað. Undir stofnlínumarkað falla fleiri tegundir leigulína. Hér er fjallað um stofnlínumarkaðinn í heild. Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) gerði markaðsgreiningu á innanlandsmarkaði fyrir leigulínur, þ.m.t. ljósleiðara, og birti ákvörðun sína á árinu 2007. Greiningin var gerð í samræmi við fjarskiptalöggjöfina og tilmæli Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Tilgangurinn er að greina samkeppni á fjarskiptamarkaði og leggja viðeigandi kvaðir á fyrirtæki með burði til að hafa neikvæð áhrif á samkeppni, eða umtalsverðan markaðsstyrk.
    Á grundvelli niðurstaðna úr markaðsgreiningunni ákvað stofnunin að útnefna Símann hf. og Mílu ehf. með umtalsverðan markaðsstyrk á heildsölumarkaði fyrir leigulínur, þ.m.t. fyrir ljósleiðara. PFS lagði kvaðir á fyrirtækin um aðgang, jafnræði, gagnsæi, bókhaldslegan aðskilnað og eftirlit með gjaldskrá.
    Fyrrnefndar kvaðir eru enn í gildi og hefur stofnunin fylgt þeim eftir með ýmsum hætti, sem m.a. hefur falið í sér að fyrirtækin hafa verið látin útbúa svokölluð viðmiðunartilboð sem eru drög að samningi við önnur fyrirtæki um aðgang að línum þeirra á tilteknum skilmálum, m.a. um verð. Viðmiðunartilboðin eru í flestum tilfellum samþykkt af PFS. Þá hafa verið gerðar kostnaðargreiningar. Með þeim er greint hvaða kostnað fyrirtækin hafa af þjónustu sinni og þeim síðan heimilað að krefjast hans sem endurgjalds fyrir þjónustuna auk eðlilegs álags, að mati PFS. Framangreint hefur að mati PFS skilað aukinni samkeppni á þjónustumarkaði með lækkun raunverðs á sl. árum.
    Þá hafa stjórnvöld stigið skref til þess að auka enn frekar framboð á stofnlínumarkaði með því að bjóða út umframafkastagetu hins svokallaða NATO-ljósleiðarastrengs sem liggur hringinn í kringum landið og er alls yfir 1.800 km langur. 1. febrúar 2010 var gengið frá leigusamningi við Vodafone um afnot af einum af átta þráðum ljósleiðarastrengsins. Má ætla að aðgangur fyrirtækisins að ljósleiðarastrengnum muni auðvelda uppbyggingu þess á fjarskiptainnviðum á landsbyggðinni og auka útbreiðslu og aðgengi að fjarskiptaþjónustu.
    Þegar horft er til þróunar næstu ára telur ráðuneytið að aukin ljósleiðaravæðing frá stofnneti til heimtauga inn á heimili landsmanna sé ein af forsendum þess að ná þeim mikla gagnaflutningshraða sem kallað verður eftir í framtíðinni, eða allt að 100 Mb/s (megabitar á sekúndu). Markmið stjórnvalda í þessum efnum verða kynnt í nýrri fjarskiptaáætlun sem ætlunin er að leggja fram á yfirstandandi þingi. Telur ráðuneytið hæpið að þessum markmiðum verði náð á næstu árum nema uppbyggingin fari að hluta til fram samhliða endurnýjun og nýframkvæmdum í veitukerfum vatns- og raforku. Samlegðaráhrifin sem felast í því að leggja ljósleiðara meðfram vatns- og raflögnum ber að nýta til uppbyggingar og styrkingar á fjarskiptainnviðum landsins öllum landsmönnum hagsbóta. Hyggst ráðuneytið skoða möguleika þess að greiða fyrir því að samstarf um slíka samhliða uppbyggingu á veitumannvirkjum og fjarskiptainnviðum geti átt sér stað.

     2.      Ætlar ráðuneytið að beita sér fyrir því að Farice-sæstrengurinn verði samkeppnishæfur á Evrópumarkaði?
    
Farice ehf. á og rekur tvo sæstrengi:
          Farice-sæstrenginn milli Íslands og Skotlands, einnig með tengingu til Færeyja, en sæstrengur þessi var lagður árið 2003 og hófst rekstur hans í janúar 2004. Afhendingarstaðir þjónustunnar erlendis eru í London og Þórshöfn í Færeyjum.
          Danice-sæstrenginn milli Íslands og Danmerkur, en rekstur hans hófst í ágúst 2009. Afhendingarstaðir þjónustunnar erlendis eru í Kaupmannahöfn og í öðrum borgum í nálægum löndum.
    Sæstrengirnir eru reknir sem eitt sameiginlegt kerfi sem hefur það meginhlutverk að tengja Ísland við umheiminn, þ.e. síma, internet, leigulínur o.s.frv. Farice ehf. selur viðskiptavinum sínum heildsöluaðgang að öðrum eða báðum sæstrengjum, að vali viðskiptavinanna. Viðskiptavinum Farice ehf. má skipta í fjóra meginflokka, sem hver um sig kaupir ákveðið magn bandvíddar gegnum sæstrengina:

Viðskiptavinahópur Hlutfall af heildarnotkun sæstrengja Farice ehf., %
Íslensk síma- og fjarskiptafélög 41
Erlend síma- og fjarskiptafélög 15
Aðilar sem reka rannsókna- og háskólanet 17
Gagnaver og erlendir viðskiptavinir gagnavera 27

    Frá upphafi hefur verðlagning útlandasambanda Farice miðast við að tekjur af starfseminni standi undir rekstri auk greiðslu afborgana og vaxta af lánum sem tekin voru vegna lagningar beggja sæstrengjanna. Með aukinni fjarskiptaumferð hefur félaginu tekist að lækka svokallað einingaverð á hverju ári. Í janúar 2004 var verð fyrir hver 155 Mbit/s á ári 1,3 millj. evrur. Árið 2011 er samsvarandi verð 72 þús. evrur á ári. Fjárfestingar vegna lagningar sæstrengjanna eru hins vegar verulegar.
    Þannig nam bókfært verð eigna félagsins í árslok 2010 um 128 millj. evra, eða tæplega 20 milljörðum kr. miðað við gengi evru á sama tíma. Það er því ljóst að til þess að standa undir slíkum fjárfestingum þarf miklar tekjur. Almennt séð er aukning fjarskiptaumferðar á hverju ári mjög mikil, og vegur þar mest aukning internetumferðar. Almenningi, fyrirtækjum og öðrum notendum þjónustunnar er hins vegar orðið tamt að líta þannig á að notkun internetsins sé ókeypis, sem er alls ekki rétt. Í nútímasamfélagi þar sem þegnarnir nota tölvupóst, ýmsa samfélagsvefi o.fl., sumir á nokkurra mínútna fresti, til samskipta, eru sífellt á ferðinni upplýsingar sem á einn eða annan hátt fara gegnum sæstrengi milli landa. Rekstur sæstrengjanna, eins og annarra álíka kerfa, kostar miklar fjárhæðir sem að lokum hljóta að þurfa að koma frá notendum þjónustunnar, eftir atvikum gegnum milliliði.
    Áætlanir Farice ehf. til næstu ára gera ráð fyrir áframhaldandi aukningu fjarskiptaumferðar vegna almennra nota, en ólíklegt er að tekjur af þeirri aukningu vaxi í sömu hlutföllum og umferðin. Hins vegar er í sömu áætlunum gert ráð fyrir verulegri aukningu tekna af gagnaverum, sem yfirleitt þurfa mikla bandvídd og vaxa tiltölulega hratt. Í viðskiptamannahópi Farice er nú þegar að finna slíkan erlendan viðskiptavin.
    Vegna afleiðinga bankahrunsins 2008 varð töf á ætlaðri starfsemi gagnavera hérlendis, sem hafði m.a. þær afleiðingar að ákveðið var að endurskipuleggja fjárhag Farice ehf., endursemja um lán, auka hlutafé o.s.frv. Endurskipulagningu þessari er nú lokið, eignarhald hefur breyst verulega og eru íslenska ríkið, Landsvirkjun og Arion banki nú stærstu eigendur félagsins.
    Fram hefur komið gagnrýni á verðlagningu Farice ehf. á þjónustu um sæstrengi. Í því sambandi er vísað til fjárfestingar vegna sæstrengjanna, svo og reksturs þeirra. Krafa sumra núverandi og væntanlegra viðskiptavina um að verð þjónustunnar sé hið sama og í Evrópu er ekki réttmæt, það mun alltaf kosta eitthvað að tengja eyju eins og Ísland við umheiminn, kostnaður þessi hlýtur á endanum að greiðast af notendunum, þ.e. almenningi og þeim nýiðnaði á sviði gagnavera sem áformaður er og hefur reyndar þegar hafið starfsemi.
    Í heildina séð er staðan þessi: Vara er keypt erlendis, t.d. í Evrópu (fjarskiptaþjónusta), senda þarf vöruna til Íslands um sæstrengi, flutningskostnaðurinn er kostnaður við sæstrengina, sem hlýtur að bætast við upphaflegt verð vörunnar áður en hún er afhent viðskiptavini.