Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 871. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1914  —  871. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Margrétar Tryggvadóttur um sölu áfengis.

     1.      Hve miklar tekjur hefur ríkið af sölu áfengis á ári hverju?
    Beinar tekjur af áfengissölu skiptast í áfengisgjald og virðisaukaskatt. Á selt áfengi leggst álagning sem rennur til Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins sem aftur greiðir arð til eiganda síns.
    Áfengisgjald og virðisaukaskattur og arðgreiðslur voru eftirfarandi á s.l. 3 árum af áfengi seldu í Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR). Allar arðgreiðslur ÁTVR eru taldar hér enda þótt þær eigi uppruna sinn bæði í sölu áfengis og tóbaks:

ÁTVR, millj. kr. 2008 2009 2010
Áfengisgjald 6.777 7.486 8.277
Virðisaukaskattur 3.502 4.160 4.340
Arðgreiðslur 183 960 1.000

    Áfengi sem selt er á veitingastöðum er keypt beint af birgjum. Upphæð áfengisgjalds af sölu þar er nákvæmlega þekkt en virðisaukaskatturinn fer eftir álagningu á hverjum einstökum stað. Tölur um virðisaukaskatt í töflunni hér fyrir neðan eru áætlaðar miðað við sömu álagningu og hjá ÁTVR þrátt fyrir að vitað sé að hún er mun hærri víðast. Hér er því um lágmarkstölur að ræða. áætlaðar miðað við álagningu ÁTVR.:

Aðrir, millj, kr. 2008 2009 2010
Áfengisgjald 1.295 2.218 1.937
Virðisaukaskattur 712 1.220 1.065

    Samtals eru þannig tekjur ríkissjóðs af sölu áfengis á undanförnum árum eftirfarandi:

2008 2009 2010
Samtals milljarðar kr. 12,5 16,0 16,6

     2.      Hver eru árleg útgjöld ríkisins vegna áfengisdrykkju landsmanna?
    Sala áfengis hér á landi og annars staðar á Norðurlöndunum er hátt skattlögð og aðgengi að áfengi er takmarkað sem hluti af heilbrigðisstefnu landanna. Skattlagningunni er ætlað að draga úr neyslu vegna þess að af henni leiðir hærra verð og þar með minni neyslu en annars væri. Hún er höfð mismunandi eftir styrkleika áfengis vegna þess að talið er að neysla léttari áfengistegunda hafi minni skaðleg heildaráhrif en neysla sterkari tegunda. Vitað er að sumt af neyslu áfengis veldur einstaklingum, fjölskyldum, fyrirtækjum og opinberum aðilum kostnaði, en því er ekki hægt að svara hver hann er. Skattlagningunni er ekki beinlínis ætlað að koma í veg fyrir neyslu áfengis og heldur ekki beinlínis ætlað að greiða þann mögulega kostnað sem af neyslunni kann að hljótast, þótt skírskota megi til þess kostnaðar í umræðu um álagningu gjalda á áfengi.