Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 741. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1973  —  741. mál.




Breytingartillaga



við frv. til l. um breyt. á l. nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

Frá Atla Gíslasyni.



    Á eftir 1. gr. komi ný grein er orðist svo:
    Á eftir II. kafla laganna kemur nýr kafli, II. kafli A, Framlag til hagsmunasamtaka útgerðarmanna, með einni nýrri grein, 12. gr. a, svohljóðandi:
    Framleiðendur sjávarafurða og aðrir fiskkaupendur, svo og þeir sem taka sjávarafurðir í umboðssölu, skulu greiða tiltekið hlutfall, allt að 0,5% af samanlögðu verðmæti þess afla sem þeir taka við af opnum bátum, þilfarsbátum undir 10 lestum og krókaaflamarksbátum, inn á reikning tilgreindra hagsmunasamtaka útvegsmanna, enda hafi útvegsmaður, eða hagsmunasamtök útgerðarmanna fyrir hans hönd samkvæmt umboði, óskað eftir því að svo verði gert.
    Hagsmunasamtök útgerðarmanna skulu láta framleiðendum sjávarafurða og öðrum fiskkaupendum í té skrá yfir þá útgerðarmenn sem hafa óskað þess að greiða gjald skv. 1. mgr. inn á reikning þeirra. Samtökin skulu leitast við að hafa með sér samvinnu um gerð slíkrar skrár svo að einungis verði til ein skrá um gjaldendur. Færsla á skrána felur í sér staðfestingu þess að útvegsmaður óski þess að greiða gjald skv. 1. mgr. Á skránni skulu koma fram upplýsingar um hversu hátt álagningarhlutfall skv. 1. mgr. skal vera. Heimilt er að birta skrána á netinu. Útvegsmanni skal heimilt að segja sig frá álagningu samkvæmt skránni án tillits til samþykkta þeirra hagsmunasamtaka sem hann kann að eiga aðild að. Uppsögnin öðlast gildi í upphafi annars mánaðar frá því að beiðni þar um var send viðkomandi hagsmunasamtökum.
    Þegar framleiðandi sjávarafurða veðsetur framleiðslu sína við töku afurðaláns hjá viðskiptabanka skal það ekki standa í vegi ráðstöfunar skv. 1. mgr. Greiðsla skal innt af hendi innan 14 daga frá því að fiskur var afhentur. Sambærileg skylda hvílir á þeim sem taka fisk í umboðssölu.