Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 35. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 35  —  35. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um úttekt á álitsgerðum matsfyrirtækja um lánshæfi íslenskra aðila.



Flm.: Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Lilja Mósesdóttir, Davíð Stefánsson,
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Lúðvík Geirsson,
Magnús Orri Schram og Ólína Þorvarðardóttir.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að ráða hæfan og óháðan erlendan sérfræðiaðila til að gera úttekt á álitsgerðum matsfyrirtækjanna Moody's, Fitch Ratings og Standard and Poor's um lánshæfi íslenskra fyrirtækja og stofnana fyrir og eftir hrun íslenska fjármálakerfisins í október 2008. Í úttektinni felist hlutlægt mat á gæðum álitsgerða matsfyrirtækjanna og áhrifum þeirra á ákvarðanatöku opinberra aðila og einkaaðila. Úttektin og niðurstöður hennar verði kynntar á innlendum og erlendum vettvangi og nýttar til stefnumótunar stjórnvalda um kröfur um hlutlægni álitsgerða um fjárhagsstöðu opinberra og einkaréttarlegra fyrirtækja og stofnana.

Greinargerð.


    Alþjóðlegu matsfyrirtækin Moody's, Fitch Ratings og Standard and Poor's gegna mikilvægu hlutverki á fjármálamörkuðum. Í kjölfar fjármálakreppunnar 2007–2008 hefur starfsemi þessara fyrirtækja sætt meiri gagnrýni en áður. Kemur þar bæði til vanmat matsfyrirtækjanna á þeirri áhættu sem fjármálafyrirtæki tóku fyrir árið 2007 og síðar viðbrögð þeirra við skuldavanda ríkja eftir að fjármálakreppan skall á. Mörgum þykir að fyrirtækin séu fjármögnuð og starfi með óeðlilegum hætti, auk þess sem þau beri litla ábyrgð á störfum sínum. Matsfyrirtækin njóta verklauna frá sömu aðilum og þau meta þannig að hagsmunaárekstrar eru að margra mati innbyggðir í starfsemi þeirra. Ákvarðanir matsfyrirtækjanna hafa ekki aðeins áhrif á fjármálamörkuðum, heldur hafa þau einnig pólitísk áhrif á stefnumörkun stjórnvalda. Þetta sést glöggt þegar afskipti fyrirtækjanna af skuldamálum evruríkjanna eru skoðuð (m.a. mögulegar afskriftir banka af lánum til Grikklands) og nú síðast þegar eitt þeirra lækkaði með afar umdeilanlegum hætti lánshæfismat bandaríska ríkisins og þess ítalska.
    Íslensk stjórnvöld hafa sérstaka ástæðu til að fara yfir álitsgerðir fyrirtækjanna fyrir og eftir bankahrun. Hátt lánsmat auðveldaði bönkum að fá lánað fé á erlendum mörkuðum, þótt lítil innistæða hafi reynst fyrir því þegar á reyndi. Í kjölfar hrunsins hafa fyrirtækin lækkað lánshæfismatið harkalega og blandað sér í Icesave-deiluna. Eins og önnur ríki er Ísland að mörgu leyti í erfiðri stöðu gagnvart matsfyrirtækjunum, enda ráðast kjör og framboð á erlendu fjármagni að miklu leyti af áliti þeirra. Það er því mikilvægt að gera vandaða úttekt á starfi matsfyrirtækjanna hér á landi, enda þurfa þau gagnrýnið aðhald eins og aðrir.
    Mikillar gremju gætir í garð matsfyrirtækjanna vegna framgöngu þeirra fyrir og eftir hrun. Slík gremja er eðlileg, en gagnrýni sem mark er á takandi þarf að byggjast á vandaðri og málefnalegri umfjöllun. Til að tryggja að svo geti orðið er hér lagt til að úttektin verði gerð af óháðum og viðurkenndum erlendum aðila sem getur eftir atvikum nýtt sér innlenda kunnáttu og reynslu.
    Innan einstakra ríkja og á alþjóðavettvangi er nú rætt um hvernig bæta megi starfsemi matsfyrirtækjanna og hugsanlega koma á fót nýrri alþjóðlegri stofnun sem starfi með opnum og lýðræðislega ábyrgum hætti. Áríðandi er að íslensk stjórnvöld taki þátt í umræðum af þessu tagi og móti sér stefnu. Mikilvægur liður í slíkri stefnumótun er vönduð úttekt á hvernig matsfyrirtækin mátu íslensk fjármálafyrirtæki og opinbera aðila.