Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 79. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 79  —  79. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um fuglaskoðunarstöð í Garði.

Flm.: Árni Johnsen, Björgvin G. Sigurðsson, Ragnheiður E. Árnadóttir,
Sigurður Ingi Jóhannsson, Unnur Brá Konráðsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að koma á fót fuglaskoðunarstöð í Garði í samráði og samstarfi við bæjaryfirvöld.

Greinargerð.


    Fuglaskoðun er almennt áhugamál víða um land hjá fólki á öllum aldri. Óvíða er eins gott að skoða fugla við sjávarsíðuna eins og í Garðinum, bæði við flösina hjá Garðskagavita, Garðskagaflösina, skammt frá Byggðasafni Garðskaga og veitingastofunni Flösinni og ekki er síðri möguleikinn á fuglaskoðun við síkin við íþróttahúsið í Garði, Útskálasíki, Miðhúsasíki og Gerðasíki.
    Þingsályktunartillaga þessi miðast við það að mennta- og menningarmálaráðherra kanni samráð og samstarf við sveitarfélagið Garð um aðstöðu fyrir fuglaskoðara í fuglaskoðunarstöð.
    Fuglafánan á þessu svæði er mjög fjölbreytt og aðstæður þannig að nálægð fuglaskoðara er mjög mikil við vettvang fuglanna. Á þessu svæði hafa til dæmis verið settar upp myndavélar sem fylgjast með ferðum blesgæsarinnar á hefðbundnum ferðum hennar til norðurs og suðurs.
    Það er rík ástæða til þess að hvetja fólk á öllum aldri til þess að njóta stórkostlegrar náttúru Íslands og þar er fuglaskoðun einn spennandi þátta. Stjórnvöld landsins og sveitarfélög geta á margan hátt haft samvinnu um slíkt starf og víða er aðstaða sem mætti laga að slíkri fuglaskoðunarstöð þar sem fyrir væru aðgengilegar upplýsingar um fugla og nálæga náttúru, uppstoppaðir fuglar, eggjasöfn og fleira. Allar kjöraðstæður eru innan seilingar í Garðinum og því er spennandi að gera þar metnaðarfulla fuglaskoðunarstöð í samstarfi við fuglaskoðara, Náttúrufræðistofnun Íslands og fleiri stofnanir sem kynnu að geta lagt til spennandi efni tengt sjó, landi og lofti.