Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 82. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 82  —  82. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um málshöfðun og skaðabótakröfu á hendur breska ríkinu, Atlantshafsbandalaginu og Evrópusambandinu vegna beitingar hryðjuverkalaga.

Flm.: Árni Johnsen, Guðlaugur Þór Þórðarson, Unnur Brá Konráðsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórn Íslands að höfða mál á hendur breska ríkinu vegna hryðjuverkalaganna sem beitt var gegn Íslendingum við bankahrunið og gegn Atlantshafsbandalaginu og Evrópusambandinu fyrir afskiptaleysi þeirra. Ríkisstjórnin krefjist skaðabóta að fjárhæð 11.000 milljarðar kr. vegna áhrifa af beitingu hryðjuverkalaganna fyrir sjálfstæði Íslands, virðingu, efnahag og ímynd þjóðarinnar á alþjóðavettvangi.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var áður flutt á 139. löggjafarþingi og er nú endurflutt óbreytt, henni fylgdi þá svohljóðandi greinargerð:
    Nýlega hafa Bretar lýst því yfir að þeir muni aldrei aftur bregðast við með þeim hætti sem þeir gerðu með beitingu hryðjuverkalaganna gegn Íslandi á afar erfiðum og viðkvæmum tíma þar sem heimurinn hvolfdist yfir litla þjóð sem bar enga ábyrgð á efnahagshruni hins vestræna heims, hvorki Evrópu né Ameríku. Með þessu eru Bretar að viðurkenna formlega á sig skömmina, ævarandi skömm fyrir stórveldi gegn litlu sjálfstæðu ríki. Beiting hryðjuverkalaganna gegn Íslendingum er einsdæmi í samskiptum þjóðanna sem á margan hátt hafa verið og eru samherjar. Auk frystingar á eðlilegu fjármagnsstreymi til Íslands í gegnum banka á alþjóðavettvangi var gengið svo langt að skipa „bræðraþjóðum Íslendinga“, Norðurlandaþjóðunum, að hunsa allar óskir Íslendinga og taka þannig að sér eins konar handrukkarahlutverk fyrir Breta og Hollendinga vegna Icesave-innlánsreikninganna. Íslenskum athafnamönnum sem stunda rekstur og viðskipti í Evrópu, Ameríku, Asíu og víðar hefur verið settur stóllinn fyrir dyrnar af því að þeir eru Íslendingar að uppruna en tengjast í engu fjármálafíkn og ránum íslenskra bankamanna í einkarekstri. Ímynd Íslands hefur beðið mikinn hnekki og það er mikil vinna og kostnaðarsöm að vinna aftur upp stöðu Íslands. Lítil þjóð sem er beitt ofbeldi á alþjóðavettvangi á að láta heyra í sér, mótmæla og beita fyrir sig rökum og sanngirni. Það er lágmark.
    Auðvitað áttu íslensk stjórnvöld að bregðast mjög ákveðið við þegar hryðjuverkalögunum var beitt gegn Íslandi og fléttunni um að Íslendingar sem þjóð bæru ábyrgð á einkarekstri umfram öll önnur Evrópuríki. Það var ekki gert og sýndi mikið geðleysi og metnaðarleysi af hálfu stjórnvalda. En skaðinn er ekki bættur og engin merki á lofti um það verði gert.
    Þess vegna er einboðið að ríkisstjórn Íslands kæri Breta í hlutverki gerandans og Atlantshafsbandalagið og Evrópusambandið vegna afskiptaleysis þegar árás var gerð á samherja. Það er kjörorð bandalagsins að árás á eina Nató-þjóð sé árás á þær allar, einn fyrir alla, allir fyrir einn. Þetta gilti ekki um Ísland sem er fullgilt aðildarríki og þegar búið var að beygja til hlýðni bæði Norðurlandaþjóðirnar og Pólverja sem vildu sýna Íslendingum vinsemd og stuðning þá stóðu Íslendingar uppi með stuðning og traust einnar þjóðar á jörðinni, Færeyinga. Stuðningur Færeyinga er til lengri tíma litið mikilvægari fyrir Ísland en stuðningur allra stórþjóða heimsins, því afstaða Færeyinga byggist á vinarþeli, tryggð, hjálpsemi og virðingu. Þannig getur lítil þjóð staðið hnarreist í ölduföldum alþjóðasamfélagsins og drottnunarhyggjunnar.
    Það er eðlilegt að ríkisstjórn Íslands krefjist skaðabóta af hálfu Breta vegna beitingar hryðjuverkalaganna og afleiðinga þeirra fyrir Ísland upp á 10.000 milljarða ísl. kr. og krefji Atlantshafsbandalagið um 500 milljarða ísl. kr. og Evrópusambandið um 500 milljarða ísl. kr. vegna afskiptaleysis þeirra tveggja síðastnefndu gagnvart samherjum sínum. Þetta er lág krafa með tilliti til umfangs tjónsins.