Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 83. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Prentað upp.

Þingskjal 83  —  83. mál.
Flutningsmenn.




Tillaga til þingsályktunar

um gerð lista- og náttúrugarðs fyrir blinda og aðra skynhefta.

Flm.: Árni Johnsen, Guðlaugur Þór Þórðarson, Ragnheiður E. Árnadóttir,
Sigurður Ingi Jóhannsson, Tryggvi Þór Herbertsson,
Unnur Brá Konráðsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að hafa frumkvæði að því, í samstarfi við umhverfisráðuneyti og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, að láta gera í samráði þar um við áhugasöm sveitarfélög lista- og náttúrugarð fyrir blinda, Blindragarð, sem jafnframt væri spennandi fyrir alsjáandi og þá sem búa við hefta skynjun. Slíkur garður yrði einsdæmi í heiminum, en í honum yrði lögð áhersla á óendanlega útfærslu hugmynda sem byggðust meðal annars á orku, vatni, gróðri, vindi og höggmyndum.

Greinargerð.

    Tillaga þessi var áður flutt á 139. þingi (288. mál).
    Það gæti verið spennandi fyrir mörg smærri sveitarfélög að taka hugmynd um Blindragarð upp á sína arma í samstarfi við stjórnvöld landsins, en það bæjarfélag sem fyrst riði á vaðið hefði að sjálfsögðu verulegt forskot í framgangi málsins. Tvö atriði eru grundvallaratriði í málinu. Í fyrsta lagi yrði slíkur Blindragarður í anda lista og náttúru einsdæmi í heiminum og að sjálfsögðu ekki síður spennandi fyrir allan almenning. Í öðru lagi mundi slíkur garður kalla á fjölgun erlendra ferðamanna til Íslands, blindra og fylgdarmanna þeirra. Ræktun og framboð í þessum efnum hefur ekki áður verið útfært á fjölbreyttan hátt fyrir blinda borgara jarðarinnar en auðvitað mundu þeir sækja þangað sem boðið væri upp á tómstundir og fróðleik sem hentaði þeim. Þetta yrði því hvort tveggja í senn, þroskandi verkefni og aukin ferðaþjónusta, sem mundi kalla á meiri þjónustu en gengur og gerist með almenna ferðamenn, meiri vinnu, meiri tekjur í ferðaþjónustu.
    Þingsályktunartillaga þessi byggist meðal annars á hugmynd frá Kristjáni Vídalín skrúðgarðameistara. Hún byggist á gróðri, vatni, vindi og ljósi með tilliti til þess að margir hafa nokkra sjón þótt þeir kallist blindir. Kristján lagði hugmyndina fram sem lokaverkefni í Garðyrkjuskóla Íslands fyrir 30 árum. Enda þótt skólanum þætti hugmyndin góð þótti hún of umfangsmikil sem lokaverkefni. Kristján og Jón H. Björnsson heitinn, landslagsarkitekt, kenndur við Alaska, ræddu þessa hugmynd mikið og vildu leggja hana fram útfærða fyrir borgarráð, en málið dagaði uppi. Núna getur hugmyndin verið enn þá magnaðri með ótrúlegum tæknimöguleikum sem nútíminn býður upp á.
    Óendanlegir möguleikar fylgja svona hugmynd í útfærslu en grunnhugmyndin er að byrja á afmörkuðum þáttum, fá tugi myndhöggvara í Evrópu og ef til vill víðar til þess að gera sérstakar höggmyndir sem sjónskertir gætu þreifað á og skynjað í heild. Höggmyndagarður fyrir blinda er ekkert smámál. Verkin mundu einnig höfða til alsjáandi.
    Fyrstu skref mundu miða við einfaldar lausnir í að skynja vatnsrennsli, í læk, af steini, foss, gosbrunn, nota vindinn, gróður og svo framvegis með útsjónarsemi og frumlegheitum.
Hugmynd Kristjáns Vídalíns skrúðgarðameistara að blindragarði byggist á vatnagarði, ísgarði, vetrargarði, blómagarði og ljósagarði. Hugmyndin byggist á því að vatni er sprautað með dælum í stórum og litlum bunum upp og niður og á ólík efni eins og járn, blikk, grjót og vatn. Það er látið mynda úða svo ljósbrotið myndi regnboga. Ljós eru notuð til þess að lýsa upp vatn, flúðir, fossa og gosbrunna í öllum litum. Að leggja lófa þess sem er alsjáandi í lítinn læk er aflgjafi. Að gera það aðgengilegt fyrir blinda er Guðs gjöf. Við uppsetningu garðsins yrði að hafa í huga klakamyndun, grýlukerti, ísklumpa. Uppbygging garðsins á einnig að fanga snjó og skafrenning þannig að kynjamyndir geti myndast. Gangstígar þyrftu að vera upphitaðir.
    Plöntuflóran verður að ná yfir flestallar plöntur sem við eigum í landinu í dag, jafnt innlendar sem erlendar, og þær merktar að minnsta kosti á íslensku og latínu. Fyrir blinda skal vera leiðakerfi fyrir blindrastafinn, þannig að stafurinn nemi ólík efni sem hann þreifar eftir og gefur þeim blinda til kynna hvar hann er staddur hverju sinni ásamt því að hann skynji vatnahljóðið. Hljóðupptökur skal hinn blindi geta spilað sér til stuðnings sem segja honum hvar hann er hverju sinni og hvað er hvað. Hann snertir ýmsar plöntur og tré, og finnur ilm þeirra, greinir hvað þær heita. Þannig fær hann tilfinningu fyrir náttúrunni og kemst nær þeim unaðsheimi sem honum er annars lokaður. Það er magnað ef unnt er að opna augu blinds fólks á þennan hátt þótt takmarkað sé.