Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 84. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 84  —  84. mál.




Tillaga til þingsályktunar

um fornleifarannsóknir í Árnesi og við fossinn Búða, norðan Þjórsár.

Flm.: Árni Johnsen, Björgvin G. Sigurðsson, Eygló Harðardóttir,
Ragnheiður E. Árnadóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson,
Unnur Brá Konráðsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að láta gera fornleifarannsóknir í Árnesi í Þjórsá og við Búða í Þjórsá en sagnir herma að þar hafi verið þingstaður til forna.

Greinargerð.

    Tillaga þessi var áður flutt á 139. þingi (289. mál).
    Árnessýsla dregur nafn sitt af Árnesi í Gnúpverjahreppi, en deilt er um hvort þar hafi verið þingstaðurinn Árnesþing eða hvort hann hafi verið við fossinn Búða, norðan Þjórsár. Það hefur þó komið mörgum undarlega fyrir sjónir að sýslan hafi verið nefnd eftir þessum óbyggða og hrjóstruga hólma sem Árnes er í dag. Fram til ársins 963 var þar vorþingstaður við Búða fyrir goðorðin þrjú í „Árnesþingsókn“. Eyjan Árnes er stærsta eyja í Þjórsá, nær 10 km 2 að stærð, en nafnið bendir til að fyrrum hafi eyjan verið landföst og að skýringa á því sé að leita í breytingum á rennsli árinnar. Í Þjórsá er eyjasamfélag og hólma. Á undirlendi Þjórsár er Hagaey ofarlega í Gnúpverjahreppi, fremur stór og að mestu gróin. Neðar er Minni-Núpshólmi, eða Viðey, vaxin birkiskógi og víði, þá Ölmóðsey grasi vaxin og síðan stærsta eyjan í Þjórsá, Árnes, sem sýslan er kennd við og almennt er talið að þar hafi verið þingstaður Árnesinga að fornu. Þrjár klettaborgir standa upp úr hrauninu á vestanverðri eynni, Þinghóll sem er stærstur, svo Gálgaklettur og fossinn Búði í efri kvísl Þjórsár. Benda öll þessi örnefni til þinghaldsins, en samt eru ýmsar efasemdir uppi. Í efri kvísl Þjórsár eru Miðhúsahólmi og Þrándarholtshólmi. Margir fleiri hólmar og eyjar eru í Þjórsá.
    Þinghóll (dómhringur), 13 m í þvermál, er sýnilegur í Árnesi, en hann er óhefðbundinn og kann að hafa verið fjárgirðing. Engin merki hafa fundist um þingbúðir í Árnesi, en liðlega 3 km leið er á milli Árness og Búða. Við Búða eru sýnileg mannvirki sem líkjast mjög hefðbundnum þingbúðum og teiknaði Guðmundur Kjartansson jarðfræðingur á sínum tíma upp um 30 búðir við Búða. Fleiri tóftir eru ógreinilegar og í ritgerð sinni um Árnesþingstað telur Ólafur Briem að þær séu alls 40 og flestar stórar, um 15 x 7 metrar. Enn sér fyrir fornum reiðslóðum á dældunum við Búða en enginn vegur er í námunda. Bæði austan og vestan við Búða eru jarðsögulega merkilegar melöldur sem nefndar eru Búðaröð og marka frambrún jökuls í kuldakasti sem nefnt er Búðaskeið. Þar sem Þjórsá sker melölduna heitir Búðaberg. Skammt þaðan hafa jökulöldurnar myndað tvær dældir, sléttar í botninn, en enginn veit hvor þeirra var sjálfur þingstaðurinn.
    Full ástæða er til og löngu tímabært að gera ítarlegar rannsóknir með uppgreftri fornleifafræðinga bæði í Árnesi og við Búða. Með ólíkindum má telja að þessum sögustöðum tveimur hafi enginn sómi verið sýndur í tímans rás þrátt fyrir að sýnilegar fornar rústir séu á báðum stöðum. Það er ekki einleikið að láta það viðgangast lengur að gera ekki gangskör að uppgreftri og rannsóknum á þessum fornu sögustöðum sem Árnessýsla dregur nafn sitt af. Sýsla þessi hýsir einhver mestu hlunnindi og náttúruperlur landsins, Þingvelli, Gullfoss, Geysi og Skálholt, svo að eitthvað sé nefnt. Það er spennandi verkefni að sem fyrst að loknum fornleifarannsóknum verði mannvirki þau sem tengjast þingstað og búðum endurgerð. Það er skylda við sögu Íslands og ekki síst sögu Árnessýslu.