Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 90. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Prentað upp.

Þingskjal 90  —  90. mál.
Flutningsmenn.




Tillaga til þingsályktunar

um úttekt á aðgengi sjómanna að þjónustustarfsemi opinberra aðila
og almennu menningar- og tómstundalífi.

Flm.: Árni Johnsen, Ólöf Nordal, Ragnheiður E. Árnadóttir, Tryggvi Þór Herbertsson,
Jón Gunnarsson, Unnur Brá Konráðsdóttir, Eygló Harðardóttir, Vigdís Hauksdóttir,
Gunnar Bragi Sveinsson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Birkir Jón Jónsson,
Björgvin G. Sigurðsson, Guðlaugur Þór Þórðarson.


    Alþingi ályktar að fela sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að skipa nefnd þingmanna og hagsmunaaðila til þess að gera úttekt á aðgengi sjómanna að þjónustustarfsemi opinberra aðila og almennu menningar- og tómstundalífi. Nefndin geri tillögur að úrbótum eða ívilnunum til sjómanna í þeim tilgangi að bæta þeim upp þann missi eða skerðingu á gæðum er þeir verða fyrir vegna einangrunar frá lífinu í landi.


Greinargerð.

    Tillaga þessi var áður flutt á 139. löggjafarþingi (292. mál).
    Öll starfsemi í landinu á sviði opinberrar þjónustu, menningar og tómstunda, miðast í raun við að landkrabbar hafi gagn af henni. Er það í raun með ólíkindum hve lítið tillit er tekið til takmarkaðra möguleika sjómanna til þess að nýta sér framangreinda starfsemi enda eru þeir eðli málsins samkvæmt fjarri vettvangi daglegs lífs í landi í þeim tilgangi einum að draga björg í bú fyrir landsmenn alla. Fiskveiðar við strendur Íslands skapa um 60% af tekjum þjóðarinnar og eru þær því ein helsta undirstaða velferðar- og menningarsamfélags okkar. Íslendingar eru eina sjálfstæða fiskveiðiþjóðin í Evrópu og eru fiskveiðar sú atvinnugrein sem skilar mestum tekjum fyrir þjóðarbúið. Sjómenn hafa verið mjög afskiptir við uppbyggingu þessa kerfis en nútímakröfur og tækni kalla á breytta hætti í þeim efnum. Í ríkari mæli verða sjómenn að sitja við sama borð og aðrir landsmenn hvað varðar aðgengi að þjónustu og menningu.
    Eini virðingar- og þakklætisvotturinn sem ríkisstjórn Íslands hefur sýnt sjómönnum undanfarin missiri er afnám sjómannaafsláttar. Sjómannaafsláttur var þó lægstur hérlendis af öllum fiskveiðiþjóðum Evrópu og margfalt lægri en meðal sumra nágrannaþjóða okkar og á tekjuárinu 2011 nemur afslátturinn um 740 kr. á dag. Flestar aðrar stéttir á Íslandi eiga rétt á greiðslu dagpeninga ellegar skattaafsláttar vegna vinnu fjarri heimili.
    Starfsvettvangur sjómanna verður líklega seint tengdur vegakerfinu á landi. Nútímatækni skapar sjómönnum marga möguleika til þess að geta í ríkari mæli notið lífsins gæða í landi, bæði beint og óbeint. Til þess að svo geti orðið þarf þó ugglaust að taka tillit til sjómanna til að mynda hvað varðar gervihnattatengingar og upptökur á efni leikhúsanna, tónleikum og öðru efni. Yrði slík myndvinnsla á sama tíma til þess að mikil sögu- og menningarleg verðmæti væru fest á filmu til varðveislu og skoðunar í söfnum þjóðarinnar. Mætti því segja að með því móti væru tvær flugur slegnar í einu höggi.
    Fjöldi íslenskra sjómanna hleypur á þúsundum og eiga þeir jafn mikinn rétt og aðrir á því að vera ekki eins og utangarðsmenn þegar kemur að neyslu á menningu og þjónustu í þeirra eigin landi. Þessu þarf að breyta til betri vegar og það á að vera metnaður Íslendinga að búa allra þjóða best að sjómönnum sínum.